Föstudagur, 2. febrúar 2007
Beitt fjölmiðlun
Kastljósiðviðtalið í kvöld við þolanda ofbeldis í Breiðuvik og forsíða Morgunblaðsins í morgun um dóm Hæstaréttar í kynferðisbrotamáli eru dæmi um beittari efnistök ábyrgra fjölmiðla en áður tíðkuðust. Mörk beittrar fréttamennsku og bilaðrar eru ekki auðgreinanleg en það eru kennileiti sem ber að líta til ef ritstjórnir vilja ekki missa sig í DV-forina.
Kastljósviðtalið við miðaldra mann um vistina í Breiðuvík á sjöunda áratug síðustu aldar var sterkt sjónvarp. Maðurinn var trúverðugur í það heila, þótt sumt orkaði tvímælis, t.d. þegar hann bar móður sína fyrir því að hafa verið ódæll í æsku ein og hann vissi það ekki sjálfur. Viðmælandinn nafngreindi mann sem hann sagði hafa misþyrmt sér og þegar svo hátt er reitt til höggs verður fjölmiðillinn að hafa traust land undir fótum. Minni eins manns um atburð fyrir 40 árum er ekki nægilega traust heimild til að bera ofbeldisverk á nafngreindan einstakling.
Viðtalið í Kastljósi er hluti af stærri umfjöllun, DV var með málið í dag og unnið er að heimildarmynd um Breiðuvík. Það verður að gera ráð fyrir því að fréttamenn Kastljóss hafi kynnt sér gögnin sem liggja að baki og að þeirri athugun lokinni tekið viðtalið. Í viðtalinu sjálfu kom ekki fram að fréttamaðurinn hafði lesið sér til. Tilfinning áhorfandans var að viðmælandinn hafi verið nálægur og þá hafi verið stokkið til og viðtal tekið án mikils undirbúnings.
Í lok viðtalsins fór fréttamaður út af sporinu og gerði mistök sem vörpuðu rýrð á innslagið. Fréttamaðurinn leyfði viðmælandanum að vera með getsakir um að Breiðuvíkurástand væri að finna á ótilgreindum stofnunum í samtímanum. Viðmælandinn, eins og hann var kynntur og kom fram í viðtalinu, hefur engar forsendur til að hafa nokkra vitneskju um ástand mála á vistheimilum barna og unglinga í dag.
Það er vel hugsanlegt að maður sem á barnsaldri verður fyrir misþyrmingu á vistheimili myndi sér þá skoðun að sambærilegar stofnanir fóstri ofbeldi. En það er ábyrgðarhluti að varpa þeirra skoðun fram eins og almennum sannindum.
Misþyrmingar á minnimáttar er eftirsótt fjölmiðlaefni vegna þess að það vekur athygli og býður upp á spennu og drama. En fjölmiðli getur orðið hált á því að láta stemmninguna slæva dómgreindina.
Forsíða Morgunblaðsins er af öðrum toga en fer inn á álíka myrka kima samfélagsins. Með því að birta myndina af dómurum Hæstaréttar á þennan veg er blaðið að segja að þeir hafi gert mistök. Og forsíðan stenst ef rök eru fyrir mistökum. Í fréttinni sjálfri er ekki að finna þau rök - en þau gætu verið fyrir hendi.
Umræða um refsingar í kynferðisafbrotum er ástríðufull og eftir því varasöm. Ábyrgur fjölmiðill reynir að endurspegla umræðuna í samfélaginu en kyndir ekki undir múgæsingu. Forsíða Morgunblaðsins í dag er jaðartilfelli.
Beitt fjölmiðlun er tvíeggjað sverð.
Athugasemdir
Takk fyrir þennan góða og djúpa pistil. Hann veltir upp mikilvægu máli um hlutverk fjölmiðla og þeirra sem hafa rödd sem nær langt og margir hlusta á.
Það er afar stutt í eitthvað galdraofsóknarástand sb. þessar barnaperraveiðar unglinga sem hófust eftir kompás umfjöllunina.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.2.2007 kl. 23:05
Hafðu þökk fyrir þessar vangaveltur, Páll. Við sem höfum unnið í fjölmiðlum svo árum og áratugum skiptir hljótum að velta forsíðu Morgunblaðsins í dag fyrir okkur út frá faglegu sjónarmiði. Það er vond blaðamennska að slá því upp að Hæstiréttur hafi mildað dóm héraðsdóms í málinu án þess að gerð sé tilraun til þess af hálfu fjölmiðilsins að útskýra fyrir lesandanum hvaða rök Hæstiréttur hafi að baki þeirri niðurstöðu sinni. Þökk sé Netinu að hægt er að lesa þennan margumrædda dóm, því Morgunblaðið bregst lesendum sínum í að varpa ljósi á þetta atriði - sem er jú aðalefni fyrirsagnar blaðsins. Eða hefur stóryrt fólk í blogheimum í dag tekið sig til og lesið þennan margumrædda dóm áður en það sest við tölvur og gerir jafnvel grín að því að hæstaréttardómarnir fimm eigi nú ekki sjö dagana sæal við helgarinnkaupin. Sannarlega er þessi dómur engin skemmtilesning, frekar en aðrir dómar yfir kynferðisglæpamönnum, en skyldulesning öllum þeim sem taka að sér að vera sporgöngumenn Moggans í því að úthrópa hæstaréttardómarana opinberlega. Dómurinn sýnir berlega hvaða vandi er á ferðinni þegar dæma á í málum sem þessum þegar kærur koma fram mörgum árum eftir verknað, löngu eftir að fyrningarákvæði eru orðin virk.
Hvort Morgunblaðið er í tilvistarkreppu í baráttunni á blaðamarkaðnum réttlætir á engan hátt þau vinnubrögð sem blaðið viðhefur í dag. Ekki get ég ímyndað mér að nokkur hámenntaður lögmaður á Íslandi, með ásættanlega reynslu til starfa í Hæstarétti hafi sjálfs síns vegna og fjölskyldu sinnar nokkurn áhuga á því að starfa vð Hæstarétt þegar má vænta svona trakteringa frá því blaði sem talið hefur sig til blaðs allra landsmanna. Svona vinnubrögð setja í mínum huga Morgunblaðið stalli neðar í íslenskri fjölmiðlun.
Jóhann Ólafur (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 23:34
Sæll Páll það er hægt að hefja höggið hátt- og mér finnst það vera hátt högg að gera lítið úr minningum barna ég er leikskólakennari og starfaði við það í mörg ár enn hitti ég börn sem ég umgekkst daglega, marga tíma á dag, í mörg ár, börn sem ekki muna eftir mér eða tíma sínum í leikskóla. En auðvitað líka önnur sem muna. Kannski þú ættir að gera skyndikönnun á minni þeirra sem í kring um þig eru og sjá hvað þeir muna áður en þeir byrjuðu í grunnskóla um daglegt líf sitt. Líklegra er að þeir eins og við mörg munum atburði sem á einhvern hátt hafa markað spor í sálarlíf okkar (eins og að vera barinn). Eins þú sjálfsagt veist er það svo að eitt einkenna langvarandi streitu að minnið gefur sig það er einn af varnarháttum mannsins til að lifa af hörmungar og erfiða reynslu. Og með því að segja að viðkomandi viti best sjálfur að hann hafi verið ódæll ertu líka að gera manninn ábyrgan fyrir uppeldisstefnu sem var ástunduð á Íslandi og mörgum öðrum stöðum í heiminum. (í kvöld var t.d. sýnd á stöð 2 mynd um frumbyggjabörn í Ástralíu sem hluti svipuð örlög í dag er sú kynslóð þar kölluð týnda kynslóðin.) Og ef þú hugsar málið Páll hvaða ódæla hegðun réttlætir þær aðferðir sem við beittum hér á landi? Breiðavík var ekki eina svona heimilið þau voru mörg sum höfðu kannski betri orð á sér en önnur, jafnvel bara nokkuð gott. Þarna komu börn yfirleitt ekki vegna hegðunarerfiðleika, heldur fátæktar og erfiðra heimilisaðstæðna. T.d. var það oft eina úrræði einstæðra mæðra að láta frá sér börnin, tímabundið. Sum voru skamman tíma á þessum heimilum önnur dvöldu megnið af uppvexti sínum á þeim. Ég var um árabil leikskólastjóri á leikskóla sem áður hafði hýst eina svona stofnun, þar upplifði ég stundum að fólk kom af götunni og vildi skoða húsið vildi líka vita hversvegna það hafði verið sent á þennan stað spurði mig um skýrslur og hvar þær væru. Ég þekki líka fólk sem gafst upp á að vinna á þessum stöðum vegna eigin sálarheills.
Saga sólarhringstofnana á Íslandi hefur allt of lengi verið þögguð en kannski að samfélagið skuldi þeim einstaklingum sem voru bara börn þegar þau voru send á þessa staði, umfjöllun. Viðurkenningu á að þeirra saga skipti máli og að hún sé þess virði að hún sé sögð. Saga um staði sem við hin heyrðum jafnvel hvískrað um og var haldið eins og grýlu að öðrum börnum. Kannski að við sem samfélag skuldum þessum börnum að við gefum okkur tíma til að hlusta á þeirra sögu og gerum það af virðingu.
Er Breiðavík til? spurði Margrét, já hann hélt það einhverstaðar með því taldi ég hann ekki vera að fella dóma um þau heimili sem starfrækt eru í dag, heldur kannski að minna okkur á að maðurinn er ólíkindatól og við lærum oft óþarflega lítið að reynslunni um það er byrgismál áminning.
Kristín Dýrfjörð (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 04:19
Undirritaður er hjartanlega sammála Kristínu Dýrfjörð. Hún veit greinilega hvað hún er að segja. Og Páll gerir lítið úr minniningu þess manns sem tók líf sitt þegar minningarnar hrönnuðust upp um veruna í Breiðuvík.
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 05:54
Það er í sjálfu sér þarft verk að benda á mikilvægi þess að fjölmiðlar temji sér hófsemd og einnig vekja athygli á því hve hefndarþorsti og miklar tilfinningar geta skekkt sýn okkar á réttlæti.
En það er langt til jafnað að brúka sama vettvang til að efast um að 11 ára barn geti mögulga munað nafn kvalara síns, eftir að hafa þolað gengdarlaust ofbeldi af hendi hans svo vikum og mánuðum skipti.
Þá er spuningin þessi : Hversu skamman tíma er óhætt
að kvelja barn til þess að nafn kvalarans festist örugglega í minni barnsins?
Greinin þín er sérkennileg vegna þess að hún klæðist hempu öfgafullrar
pólitískrar rétthugsunar.
Sérstaklega í ljósi þess hvað undan kom þá út úr sauð, eins og þér og
landsmönnum ætii að vera vel kunnugt.
Þú mættir kannski íhuga á einhverjum flokksfundinum
meðal jafningja, að temja þér meiri mannúð og minni
formalisma.
Hafðu þetta í huga næst þegar þú talar við barn.
Daníel Þorkell Magnússon
Jóhann Sigurfinnur Bogason
Jóhann Sigurfinnur Bogason (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 01:03
Það er í sjálfu sér þarft verk að benda á mikilvægi þess að fjölmiðlar temji sér hófsemd og einnig vekja athygli á því hve hefndarþorsti og miklar tilfinningar geta skekkt sýn okkar á réttlæti.
En það er langt til jafnað að brúka sama vettvang til að efast um að 11 ára barn geti mögulga munað nafn kvalara síns, eftir að hafa þolað gengdarlaust ofbeldi af hendi hans svo vikum og mánuðum skipti.
Þá er spuningin þessi : Hversu skamman tíma er óhætt
að kvelja barn til þess að nafn kvalarans festist örugglega í minni barnsins?
Greinin þín er sérkennileg vegna þess að hún klæðist hempu öfgafullrar
pólitískrar rétthugsunar.
Sérstaklega í ljósi þess hvað undan kom þá út úr sauð, eins og þér og
landsmönnum ætii að vera vel kunnugt.
Þú mættir kannski íhuga á einhverjum flokksfundinum
meðal jafningja, að temja þér meiri mannúð og minni
formalisma.
Hafðu þetta í huga næst þegar þú talar við barn.
Daníel Þorkell Magnússon
Jóhann Sigurfinnur Bogason
Jóhann Sigurfinnur Bogason (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 01:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.