Brussel rífst um skjal sem ekki er til

Ágreiningur milli Þýskalands og Frakklands annars vegar og hins vegar smáríkja Evrópusambandsins náði nýjum hæðum í byrjun viku. Samkvæmt frétt EU-observer voru þingmenn Evrópuþingsins æfir út í forseta ráðherraráðsins, van Rompuy, fyrir að leyfa Sarkozy Frakklandsforseta og Merkel kanslara Þýskalands að ráða ferðinni í umræðunni um samræmda efnahagsstjórnun ríkja evru-svæðisins.

Þýski Evrópuþingmaðurin Martin Schultz, sem komst í heimsfréttirnar fyrir nokkrum árum þegar Berlusconi líkti honum við fangavörð í Auschwitz, þráspurði van Rompuy um frönsk-þýsku tillögurnar. Schultz hélt á skjali sem hann væri tillögur Sarkozy og Merkel en van Rompuy neitaði staðfastlega að tillögur hefðu verið lagðar fram á leiðtogafundi í síðustu viku.

Í Brussel er til hugtakið ,,non-paper" eða ekki-skjal sem er vinnupappír um viðkvæm mál og ekki ætlaður til dreifingar. Spurður um ekki-skjal Frakka og Þjóðverja kvaðst van Rumpuy ekki vita til neinna tillagna frá stóru ríkjunum tveim um hvernig ætti að bregðast við fjármálakreppunni á evru-svæðinu.

Smáríki Evrópusambandsins reyna að beita sambandinu fyrir sér gegn ofríki Frakka og Þjóðverja. Stóru ríkin tvö reyna í vaxandi mæli að sniðganga Brussel og hafa stuðning Breta til að ákveða sameiginleg mál sín á milli án aðkomu framkvæmdastjórnarinnar og starfsliðs ráðherraráðsins sem van Rompuy veitir forstöðu.

Því að þrátt fyrir neitun van Rompuy liggja fyrir fransk-þýskar tillögur um samræmda efnahagsstjórnun á evru-svæðinu. Fjölmiðar á borð við Spiegel og Financial Times hafa fjallað um tillögurnar undanfarna viku.

Evrópusambandið er á hraðleið inn í stofnanakreppu þar sem tekist verður á um hvernig samskiptum þjóða meginlandsins verður háttað. Frakkar og Þjóðverjar vilja með stuðningi Breta koma á nýskipan mála og sniðganga stofnanir ESB. Í Brussel ríkir ekki ánægja með þessa þróun.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband