Laugardagur, 8. janúar 2011
Staðfastur brotavilji Samfylkingar
Forysta Samfylkingar krafðist þess stjórnarmyndunarviðræðum vorið 2009 að Vinstri grænir hleyptu umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu í gegnum alþingi. Forysta Vinstri grænna samþykkti en þingflokkurinn klofnaði í atkvæðagreiðslunni 16. júlí 2009 auk þess sem nokkrir þingmenn Vinstri grænna lýstu andstöðu við aðild að Evrópusambandinu þótt þeir samþykktu að umsókn yrði send.
Umsóknin var veik, hvíldi á hraðsoðinni umræðu Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninganna vorið 2009 þegar þjóðin var í taugaáfalli vegna hrunsins haustið áður. Þjóðir sem ganga inn í Evrópusambandið gera það af knýjandi nauðsyn og breiðri sannfæringu í samfélaginu um kosti inngöngu.
Norðmenn, sem tvisvar hafa hafnað inngöngu í þjóðaratkvæði, árin 1972 og 1994, fóru í gegnum ítarlega umræðu í bæði skiptin. Aðildarsinnar í Noregi voru allir stærstu flokkarnir, nánast allt atvinnulífið, verkalýðshreyfingin og allir stærstu fjölmiðlarnir. Samt felldi þjóðin tillögu um aðild í tvígang.
Samfylkingin stendur ein að umsókninni af íslenskum stjórnmálaflokkum. Aðrir helstu stuðningsaðilar eru Fréttablaðið, fáeinir sjálfstæðismenn með útrásarfortíð og örfáir framsóknarmenn. Til skamms tíma höfðu Samtök iðnaðarins sig í frammi sem aðildarsinnar en þau þegja þunnu hljóði. Kannanir sýna þjóðina afgerandi á móti aðild, um 60-70 prósent eru andvíg.
Evrópusambandið gerir kröfu um að umsóknarríki aðlagi sig lögum og regluverki sambandsins. Það þýðir að Íslendingum gefst ekki kostur á óskuldbindandi viðræðum líkt og Norðmenn fengu fyrir fimmtán árum. Aðildarsinnar svara því gjarnan að við tökum jafnt og þétt upp lög og reglur ESB í gegnum EES-samninginn. Sá samningur kveður skýrt á um hvaða svið eru undanþegin og þau eru okkur mikilvæg, s.s. fiskveiðar og landbúnaður. Við getum til dæmis hagað okkur eins og fullvalda þjóð í deilunni um makrílveiðar vegna þess að fiskveiðar eru undanþegnar í EES-samningnum.
Í eðlilegu stjórnmálaumhverfi ætti einangrun Samfylkingarinnar og veikur stuðningur út í samfélaginu að leiða til þess að umsóknin yrði dregin tilbaka. Fyrir kosningarnar 2003 og aftur 2007 var Samfylkingin með aðild á stefnuskrá sinni en dró áhersluna tilbaka í kosningabaráttunni þegar ljóst var að aðildarósk var minnihlutaviðhorf í samfélaginu.
Samfylkingin bauð fram tvennt í síðustu kosningum, Jóhönnu Sigurðardóttur og Evrópusambandið. Jóhanna verður ekki aftur í framboði. Með öll eggin í sömu körfunni er aðild spurning um líf eða dauða fyrir Samfylkinguna.
Samfylkingin sýndir staðfastan brotavilja gegn þjóðarhagsmunum í aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu. Samfylkingin fer á bakvið samstarfsflokk sinn og reynir að lauma til landsins aðlögunarstyrkjum sem ráðherrar Vinstri grænna hafa hafnað.
Vinstri græn eiga ekki að láta Samfylkinguna teyma sig fram af bjargbrúninni.
Þjóðin klofin í fylkingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Páll ég á von á því að sjá þig við Austurvöll þegar þingið kemur saman þann 17.01 og þá í þeim ham og skrif þín gefa til kynna.
Sigurður Haraldsson, 8.1.2011 kl. 16:28
Niður með Samfylkinguna. Til pólítískt villuráfandi, en annars velmeinandi og vandaðra einstaklinga sem hafa villst þarna inn vil ég segja þetta: Góðu bestu gerið það að yfirgefa þetta sökkvandi skip sem varð hræsninni að bráð. Nýr hófsamur flokkur örlítið vinstra megin við miðju er það sem þjóðin þarf. Og það þarf að stofna nýtt alþjóðlegt bandalag, óháð Evrópusambandinu, af löndum sem eru frjáls frá því, til að vera leiðarstjarna heimsins í málefnum friðar og mannúðar, og olíuveldi sem stemmir stigu við hryðjuverkum í heiminum með að yfirtaka þann markað og verður leiðandi lausn að varanlegum friði hér á jörðu. Og þetta bandalag er Norðurbandalagið. Kallið það hvað sem það viljið, en vinnum að göfugum hugsjónum sem hafa góðan tilgang fyrir allan almenning um alla veröld, frekar en láta læsa okkur inni í bandalagi með gömlum nýlenduherrum gömlu Evrópu, sem hafa lítið breyst, og munu aldrei geta leitt heiminn sem þeir hafa traðkað á. Mannorði okkar og orðstír er betur borgið annars staðar, það er heldur enginn sálfræðilegur þröskulur fyrir Indverja og aðra sem munu bráðum verða hið ríkjandi afl í heiminum að vinna með nýju öflugu Norðurbandalagi, þvert á móti. En hvorki Indverjar né gömlu gyðingarnir og svo framvegis munu neitt vilja með að hafa að gera, nema upp að vissu marki, og bara til bráðabirgða, bandalag Þjóðverja, Breta og Frakka, þannnig er það bara. Hvað þá Afríka eftir arðrán þessara þjóða og yfirgang...Hugsum stærra.
Ný leið á Nýjar Slóðir ... (IP-tala skráð) 9.1.2011 kl. 06:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.