Mánudagur, 20. desember 2010
Peningastefna í viðtengingarhætti
Peningastefna verður tilgátusmíð ef ekki nýtur pólitískrar leiðsagnar. Sérrit Seðlabanka Íslands um stöðu og horfur í peningamálum afhjúpar pólitískt tómarúm. Hluti ríkisstjórnarinnar sækir fast um inngöngu í Evrópusambandið, og það kallar á tiltekna peningastefnu, á meðan annar ríkisstjórnarflokkurinn er á móti inngöngu og sömuleiðis afgerandi meirihluti þjóðarinnar - og það veit á allt aðra peningastefnu.
Már seðlabankastjóri og félagar eru í dálítið undarlegum málum, svo vægt sé til orða tekið, og það litar skýrsluna. Tilfinningin að eiga ekki fast land undir fótum kemur þegar fram í inngangi þar sem fræðileg undirstaða fyrir peningamál rekst illa á íslenskan veruleika.
Þótt fyrirkomulagið hafi verið byggt á hugmyndum hagfræðinnar um besta fyrirkomulag peningamála og reynslu fjölda landa sem náð hafa góðum árangri í stjórn peningamála, hefur árangur Seðlabankans í viðureigninni við verðbólgu verið slakur nánast allt tímabilið frá því að verðbólgumarkmiðið var tekið upp og verri en í öðrum ríkjum með sambærilegt fyrirkomulag.
Þrátt fyrir að viðurkenna að ,,hugmyndir hagfræðinnar" henti kannski ekki á Íslandi kemur málsgrein nokkru síðar sem gengur í þveröfuga átt
Ef fallið yrði frá sjálfstæðri peningastefnu með fljótandi gjaldmiðil og tekin upp fastgengisstefna væri heppilegast út frá hagrænum sjónarmiðum að festa gengi krónunnar við evruna.
Aftur kemur viðtengingarhátturinn við sögu og dregur úr áherslunni á ,,hagræn sjónarmið." Höfundar skýrslunnar vita sem er að Ísland er ekki á leið inn í Evrópusambandið þótt þeir fyrir sakir kurteisi segi það ekki berum orðum. Lykilsetning skýrslunnar er þessi:
Til þess að Seðlabankinn geti brugðist við slíkum hættumerkjum [óhóflegum sveiflum í útlánavexti, skuldsetningu og eignaverði] er æskilegt að bankinn ráði yfir fleiri stjórntækjum sem annað hvort yrði beitt af honum sjálfum eða af öðrum í samræmi við tilmæli bankans.
Niðurstaðan er rökrétt. Þegar engin pólitísk leiðsögn er fyrir hendi, þar sem ríkisstjórnin er lömuð, er rétt að láta embættismennina um peningastefnuna og fá þeim nauðsynlegar heimildir til að þeir geti unnið vinnuna sína.
Kreppan leiddi í ljós ágalla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Því miður er Seðlabankinn nú orðinn að pólitísku tæki og því afar erfitt að taka mark á því sem þaðan kemur. Margir muna sjálfsagt eftir því hvernig SÍ lét í kringum síðustu áramót - staðfesta þyrfti Icesave. Svo var ég nú að sjá þetta:
http://www.amx.is/fuglahvisl/16382/
Nú er svo komið að maður er alveg hættur að treysta hinu opinbera. Lausnin er því sú að hafa það eins lítið og mögulegt er og leyfa því sem minnst. Væri ekki hægt að fækka í ráðuneytunum um svona 50-70%? Þetta fólk þar framleiðir hvort sem er engin verðmæti öfugt við t.d. kennara, lækna, trésmiði eða hárskera. Ef ég man rétt skar Ögmundur niður um 10% á LSH en aðeins um 1% í heilbrigðisráðuneytinu. Hér er verulegt falið atvinnuleysi. Ef menn renna t.d. yfir lista starfsmanna utanríkisráðuneytisins er þar langur listi manna á launum við ótrúlegustu hluti. Við getum ekki látið eins og stórveldi.
Helgi (IP-tala skráð) 21.12.2010 kl. 20:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.