Vg verður pólitísk hornkerling

Vinstri grænir eru á hraðleið út í horn íslenskra stjórnmála eftir að hafa setið við háborðið í tvö ár. Dómgreindarleysi forystunnar í Evrópumálum ásamt kaldastríðshélu og aulataktík stefna flokknum út í einskinsmannsland málefnafátækar og áhrifaleysis.

Aðeins blindir menn sjá ekki að umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu er steindauð. Hvorki þjóðin né grunnatvinnuvegirnir vilja sjá inngöngu. Evran er við að liðast í sundur og allar fréttir næstu ára frá ESB verða aðildarsinnum mótdrægar. Um helgina gátu Vinstri grænir gefið umsókninni náðarhöggið og endurheimt tapaða æru frá 16. júlí 2009 þegar stór hluti þingflokksins sveik kjósendur flokksins. 

Ein ástæðan fyrir því að flokksráð Vg heyktist á því um helgina að endurnýja tiltrú kjósenda var að kaldastríðsfornaldarfólk hafði þau sjónarmið í frammi að andstaðan við Evrópusambandsaðild væri komin frá sjálfstæðismönnum. Kaldastríðshatrið lifir sjálfstæðu lífi hjá sumum innanbúðar í Vg þótt kringumstæður séu allar aðrar en á dögum tvíveldis kanadindla og sovétstrúboða.

Hernaðarbrölt er enn í heimi hér þrátt fyrir lok kalda stríðsins og Nató er til sem samtök þótt Varsjárbandalagið sé liðið undir lok. Samfylkingin veit að andóf gegn hernaðarhyggju er samofið genamengi Vg. Nató og eldflaugavarnir eru samfykingarfleygur sem klýfur Vg.

Tangarsókn Samfylkingar gegn Vg snýst annars vegar um að taka upp mál óþægileg Vinstri grænum og hins vegar að ná talsambandi við Sjálfstæðisflokkinn.

Aulaskapur forystu Vg er að leyfa Samfylkingunni að taka frumkvæðið og stjórna umræðunni. Vg er í vörn og hrekst fyrir veðrum og vindum. Spillingarmál sem koma upp hjá Steingrími J. veikja hann og spyrja má hvort spunalið Samfylkingar standi þar á bakvið.

Vg er orðinn laskaður stjórnmálaflokkur og efasemdir vaknaðar um það hvort flokkurinn sé til nokkurs nýtur með núverandi forystu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband