Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Valdavon Samfylkingar er úti og samstaðan þverr
Samfylkingin var stofnuð til að taka við völdum á Íslandi. Áratuga vonbrigði vinstrimanna með að vera ýmist úti í kuldanum eða hækja Sjálfstæðisflokksins var helsti drifkrafturinn á bakvið stofnun Samfylkingarinnar. Uppgjafartónninn í flokksmönnum síðustu daga er skiljanlegur.
Þá sjaldan að vinstrimenn náðu saman um meirihluta á lýðveldistímanum torveldaði afbrýði og ósætti samstarfið. Borgarstjórnarmeirihlutinn 1978 - 1982, ríkisstjórnin 1978 - 1979 og aftur 1988 - 1991 voru skólabókardæmi um sjálfseyðandi sundurþykkju vinstrimanna. Ræturnar má rekja áratugi aftur í tímann, fyrir stofnun lýðveldis.
Samfylkingin átti að breyta sögu vinstrimanna. Hún átti að verða turninn á vinstri vængnum. Til vinstri við Samfylkinguna var samkvæmt uppskriftinni gert ráð fyrir litlum þjóðernissinnuðum kjarnaflokki upp á svona fimm prósent. Eftir kosningar skyldi Samfylkingin hafa það í hendi sér að vinna með Framsókn eða Vinstri grænum.
Þegar samfylkingarfólk fær það framan í sig í tveim könnunum að Vinstri grænir eru orðnir jafn stórir eða stærri en turninn þá hrynur heimsmyndin. Til að auka á angistina er ekkert sem bendir til að kosningabarátta flokksins nái sér á strik.
Smáflokkatilveran sem samfylkingarfólki stendur til boða er afturhvarf til fortíðar brostinna drauma. Margur kemst í uppnám af minna tilefni.
Athugasemdir
Smáflokkar á Íslandi hafa verið lifibrauð íhaldsins mestan hluta síðustu aldar.Það hefur reynst erfitt að samræma pólutískar skoðanir hugsjónamanna á vinstri kanti sjórnmálanna.Svona hefur þetta einnig verið víðast hvar í v/Evrópu, vinstri flokkar hafa klofnað og nýir smáflokkar orðið til með mislangan líftíma.
Ég held samt að það sé ekki tímabært fyrir íhaldið að hrósa sigri í þessum kosningum,eitthvað af fylgi flokksins mun fara til Frjálslindafl.v/útlendingamála og vaxta- og verðtrygginarmál ,sérstaklega vegna húsnæðislána mun koma illa við Sjálfstæðisfl.Hvort Samfylkingin nær sínum fyrri styrk er óljóst vegna þess ,að nær helmingur kjósenda virðist enn óráðin um sitt flokksval í komandi kosningum.Kjósendur Sjálfstæðisfl.skila sér alltaf best í skoðanakönnunum,en fá hins vegar minna fylgi upp úr kjörkössunum.Samfylkingin er ekki í neinu uppnámi ennþá,Vinstri grænir hafa áður mælst stærri fyrir kosningar,en misst vindinn úr seglunum þegar kom að kosningum.
Kristján Pétursson, 30.1.2007 kl. 15:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.