Írsk lausn á evruvanda

Írar þyrftu 15-20 prósent gengisfellingu til að bæta samkeppnisstöðu sína og hefja endurreisn. Þessi leið er þeim ófær þar sem Írar eru með evru ásamt 15 öðrum ríkjum. Ýmsar hugmyndir eru ræddar til að bjarga málum og sumar ,,verkfræðilega" snjallar.

Ein er að Írar segi sig tímabundið frá evrunni og geri það í samvinnu við Seðlabanka Evrópu. Framkvæmdin yrði þannig að um helgi yrði tilkynnt að tækju upp írsk pund á mánudegi. Helgin væri nýtt til að fljúga inn írskum pundum frá seðlaprentsmiðju í Hamborg.

Á mánudegi væri tilkynnt um skráningu írska pundsins, kannski eitt á móti 1,20 evrum en í beinu framhaldi yrði það gefið frjálst. Eftir dýfu, kannski 50 prósent gjaldfellingu, myndi pundið lenda þar sem efnahagsleg nauðsyn býður, þ.e. um 20 prósent lægra en evran.

Eftir 12 - 18 mánuði myndi Írland aftur ganga inn í evrusamstarfið þar sem skiptiverð á pundi og evru réðist af markaðsstöðu. 

Írar fengju sína nauðsynlegu gengisleiðréttingu og gætu hafið endurreisn efnahagslífsins - sem þeir trauðla geta núna.

Lausnin er tæknilega snjöll en tæplega framkvæmanleg. Jafnvel þótt sannfæring væri fyrir því að hægt væri að fara í svona æfingu yrðu  pólitískar mótbárurnar þær að aðgerðir gæti orðið fordæmisgefandi. Aðildarþjóðir evru gætu gert myntsamstarfið að jó-jói og það gætu Þjóðverjar ekki samþykkt enda græfi það undan tiltrú á evrunni.

Pælingin sýnir hins vegar hvað menn láta sér detta í hug til að komast úr spennitreyju evrunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Páll. 

Írar hafa í raun aðeins tvær leiðir til að leiðrétta efnahagskerfi sitt. Auka atvinnuleysi og lækka laun.

Þetta er í raun einu hagstjórnaraðferðir þeirra landa sem eru innan evru og bláköld staðreynd þegar reynt er að hafa sameiginlega mynt yfir mörgum mismunandi hagkerfum.

Eina lausnin til að sameiginleg mynt geti gengið er að hafa sameiginlegt hagkerfi, þ.e. eitt ríki. Þangað eru Þjóðverjar að stefna og að sjálfsögðu með þeim hug að þeir verði allsráðandi inna þess stórríkis.

Inn í þetta stórríki vill samfylkingin ganga undir handleiðslu Össurar, hvað sem það kostar!

Gunnar Heiðarsson, 31.10.2010 kl. 09:58

2 identicon

Hverjir eru möguleikar smáríkis með örmynt? Bankahrunið var um leið hrun íslensku krónunnar. Hún hefur fallið um 60% á tveimur árum. Er það sveigjanleiki? Er hluti þjóðarinnar að sligast undan lánum vegna sveigjanleika?Lánskjaravísitalan hækkar og hækkar. Verðtryggingin uppfærir lánin. Verðtryggða krónan er hin raunverulega króna. Ísland er orðið láglaunaland og meðal ódýrra landa í ferðaþjónustu. Kaupmáttur launa minnkar hröðum skrefum, fólk flýr atvinnuleysi og vonleysi og heldur til Noregs. Eru þetta allt kostir þess að hafa sveigjanlegan gjaldeyri? Örmyntir eru auðveld bráð fyrir alþjóðlega vogunarsjóði. Er það líka kostur sveigjanleikans? Páll Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Heimssýnar hefur sagt í blaðaviðtali að samtökin hafi enga stefnu í neytendamálum. Það er afar merkilegt í ljósi þess að fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að kaupmáttur ráðstöfunartekna myndi vaxa við inngöngu í ESB. Það er nauðsynlegt að horfast ´byggja á staðreyndum . Íslenska krónan hefur runnið sitt skeið á enda. Alþjóðlegur fjármálamarkaður er markaður rándýra sem einskis svífast og Hrunið ætti að hafa kennt okkur mikilvæga lexíu.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 31.10.2010 kl. 14:17

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Hrafn, þú mátt leggja krónurnar þínar inn á minn reikning fyrst þú telur þær ekki nothæfar. Ég skal nota þær.

Hjörtur J. Guðmundsson, 31.10.2010 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband