Þriðjudagur, 26. október 2010
Afbrigðilega umsóknin og reglur ESB
Æ betur kemur í ljós hversu illa undirbúin umsóknin er um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Málflutningur aðildarsinna gengur helst út á það hve undanþágurnar eru glæsilegar sem í boði eru. Undanþágurnar eru ær og kýr aðildarsinna; íslenskir embættismenn eru jafnvel að streða við það í Brussel að fá undanþágu frá aðlögunarferlinu sem Evrópusambandið notar til að taka inn ný ríki.
Ríkisstjórnarflokkarnir bera ábyrgð á umsókninni en aðeins annar þeirra vill í Evrópusambandið. Úti í þjóðfélaginu eru engir að berjast fyrir inngöngu. Samtök iðnaðarins hafa lagt árar í bát og engin kom ályktunin frá þingi ASÍ til stuðnings Brusselleiðangri.
Af hálfu Evrópusambandsins er ekki litið á aðildarumsókn með hálfkæringi. Í Brussel er tekið á móti umsókn af alvöru og festu og gert ráð fyrir að umsóknarþjóð hafi unnið heimavinnuna sína og samstaða sé um að æskja inngöngu. Evrópusambandið telur þjóðaratkvæðagreiðslu aðeins formsatriði sem afgreitt er í lok aðlögunarferlis.
Á vef utanríkisráðuneytisins er aðlögunarferlið útskýrt myndrænt. Össuri og embættismönnunum tekst að komast hjá því að nota aðlögun. Eftirfarandi setning kemur upp um strákinn Tuma: ,,Ísland lýkur við gerð lista yfir innleiðingu löggjafar ESB." Listinn mun geyma aðlögunarkröfu ESB - en það eru 90 þúsund blaðsíður af lögum og reglum, mínus það sem við höfum tekið upp í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Í skjali ráðuneytisins kemur fram að áður en Íslendingar fá tækifæri til að greiða atkvæði um aðildarsamning hefur eftirfarandi gerst:
a) Ísland hefur aðlagað stjórnsýsluna lögum og reglum ESB
b) Leiðtogaráð ESB hefur samþykkt samninginn og Evrópuþingið sömuleiðis
c) Aðildarsamningur hefur verið undirritaður af öllum aðildarríkjum ESB og Íslandi
Augljóst er af ferlinu að þjóðaratkvæðið er hugsað sem hátíðleg athöfn þar sem þjóðin staðfestir gjörðir stjórnvalda enda hafa stjórnvöld unnið í samræmi við yfirlýstan vilja þings og þjóðar. Eins og alþjóð veit er því ekki að heilsa á Íslandi. Ríkisstjórn er ekki með umboð þjóðarinnar til að fara í aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Því fyrr sem umsóknin er dregin tilbaka því betra.
Athugasemdir
Verður ekki greitt þjóðaratkvæði um samninginn og aukinn minnihluti látinn ráða samþykktinni?
Halldór Jónsson, 26.10.2010 kl. 08:52
Þessi mynd sem þú birtir er athyglisverð fyrir ýmsar sakir. Þannig hefur Össur t.d. sagt að aðlögunin að Evrópusambandinu fari fram eftir að þjóðaratkvæðið fer fram og niðurstaða liggur fyrir. Sbr.:
„Það er engin aðlögun í gangi og það er ekki verið að setja upp lög fyrir neinar nýjar stofnanir ... Við munum ekki fara í neina aðlögun sem felur í sér nýjar stofnanir eða að breyta lögum fyrr en það liggur ljóst fyrir að þjóðin hafi kveðið upp sinn úrskurð og sagt já. Þá munum við ráðast í aðlögunina.“
En það er ekki gert ráð fyrir því á þessari mynd. Þar stendur aðeins "Þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi" síðan "Ef samþykkt" og loks "Ísland verður aðildarríki Evrópusambandsins á sérstakri aðildarráðstefnu". Gleymdist að setja "Stjórnsýsla Íslands og lagasetning aðlöguð að Evrópusambandinu" þarna inn í?
Hjörtur J. Guðmundsson, 26.10.2010 kl. 08:55
Eftir það sem á hefur gengið á Íslandi, og menn hafa séð inní þau myrkraverk sem Íslendingar hafa sjálfir framkvæmt kinnroðalaust, og ekki eitt kvikindi af þessu skammar sín hið minnsta svo séð verði, þá treystir maður ekki einu einasta eintaki af þessu, og heldur ekki framvegis, þessvegna verðum við að sjá hvað kemur útúr könnunarviðræðum um hugsanlega aðild að EU, ef lansmönnum líst ekki á útkomuna, þá er hægast að velja nei, í kosningu um aðild.
Robert (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 11:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.