Frjálslyndi borgaraflokkur Margrétar og Jóns Baldvins

Tíðindi helgarinnar eru þau að Margrét Sverrisdóttir er leiðtogaefni á lausu og Jón Baldvin Hannibalsson er búinn að afskrifa Samfylkinguna og vill nýjan stjórnmálaflokk. Frjálslyndi borgaraflokkurinn er kominn á teikniborðið.

Spurningin er hvort efnafræðin virki hjá þeim Margréti og Jóni Baldvin. Líkurnar eru nokkrar, Jón Baldvin hefur alltaf hrifist af sér yngri konum og Margrét er þaulæfð í umgengni við vestfirska karla.

Jón Baldvin sýndi það í Silfri Egils í gær að póltísk ákefð hans er óbiluð af sendiherrastörfum. Hann sér sjálfan sig ekki sem oddvita í nýjum flokki, það er of mikið fyrir mann á hans aldri, en gjarnan í hlutverki lífsreynda stjórnmálafrömuðarins.

Margrét Sverrisdóttir sannaði sig í slagnum um varaformannsembættið í Frjálslynda flokknum og er með burði til að verða leiðtogi. Þótt hún eigi talsverða möguleika á að taka fyrsta sætið í Reykjavík suður gest henni ekki að vinna að framboði sem ætlar að gera útlendinga að kosningamáli.

Leiðtoginn skiptir höfuðmáli fyrir nýtt framboð. Þegar búið er að finna hann þá er lítið mál að skrifa stefnuskrá. Og eins og aldraðir og öryrkjar komust að í síðustu viku er framboð andvana fætt þegar enginn er leiðtoginn. Kemur þá fyrir lítið að hafa ígrunduð málefni og traust bakland.

Til að þau Margrét og Jón Baldvin komi stjórnmálaflokknum á koppinn þurfa þau að hafa snör handtök. Meðal stjórnarandstöðuliðsins er eftirspurn eftir einhverju nýju og fersku, sem leggur að baki misheppnaða Samfylkingu og dæmda sambræðslu Nýs afls og Frjálslyndra. Vinstri grænir verða auðvitað ekki með, þeir eru með sinn hlut á þurru.

Margir eru tilbúnir að stökkva á vagninn. Ómar Ragnarsson er einn þeirra, samanber þennan pistil.

Skötuhjúin verða að varpa varkárni fyrir borð og stofna stjórnmálaflokkinn með tiltölulega fámennum hópi og miðstýra ferlinu frá upphafi. Opnir fundir til að finna meðreiðarfólk draga aðeins að sér atvinnukverúlanta.

Frjálslynda borgaraflokkinn þarf að stofna fyrir vikulok. Annars er málið dautt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjónin eru ekki af baki dottin.Vekja bæði neikvæða athygli.

Það er ótrúlega margt af karlinum Hannibal í stráknum Jóni Baldvini.Því verður ekkert úr þessu nema dólgslega framkoma sem er meira í ætt við Spaugstofuna eða Stelpurnar.

Nú sest frúin í drulluna fyrir framan vinnuvélar.Næst fer hún í hungurverkfall rétt eins og Bjarkarmamman.

Séra Jón í Vermannahöfn (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband