Miðvikudagur, 13. október 2010
Samfylkingin í klúbb kynþáttahaturs
Á heimasíðu Heimssýnar segir frá harðri gagnrýni Noam Chomsky á kynþáttahatur Evrópusambandsins gagnvart Tyrkjum. Í áratugi hafa Tyrkir óskað eftir inngöngu í sambandið en komið að lokuðum dyrum.
Chomsky, sem er bandarískur ríkisborgari, segir kynþáttahatur stjórna afstöðu Evrópusambandsins til Tyrkja sem eru múslímar. Í viðtali við tyrkneskt dagblað, sem birtist í endursögn hins danska Politiken, segir Chomsky einu raunverulegu ástæðuna fyrir því að Tyrkjum sé haldið utan Evrópusambandsins vera að þeir séu múslímar. Hann vitnar til orða Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem sagði arfleifð Evrópu byggjast á gyðingdómi og kristni. Múslímar verða að sætta sig við þá staðreynd, er haft eftir Merkel.
Samfylkingin er helsti talsmaður Evrópusambandsins á Íslandi. Er ekki rétt að flokkurinn geri hreint fyrir sínum dyrum um afstöðu sína til múslíma í ljósi gagnrýni Íslandsvinarins Noam Chomsky?
Athugasemdir
Það er stutt síðan aðild Tyrklands átti að vera sú brú sem Evrópa átti að byggja á milli sín og Mið-Austurlanda. Nú er allt í einu komið annað hljóð í strokkinn.
Cicero (IP-tala skráð) 13.10.2010 kl. 10:32
Tyrkir eru ágætir á margan hátt, tónlist þeirra falleg og menningin merkileg, en með því að þeir verði brátt stærsta þjóð ESB (Þjóðverjar eru enn stærri þjóð, en fækkar ört), er verið að bjóða heim nýjum veruleika. Menn eiga að reikna kostnaðinn fyrir fram og horfa á það, sem fyrir liggur í reynslu frændþjóða okkar.
Nú kvartar stjórn Erdogans undan því, að "framkvæmdastjórn ESB leggi stein í götu Tyrkja og komi í veg fyrir að þeir geti gengið í sambandið" og telja aðra fá forgangsmeðferð miðað við þá sjálfa. Þeir verða vitaskuld að gera sér grein fyrir því, að djásnið mikla í Norður-Atlantshafi, Ísland, er að mati Brusselmanna girnilegasta "herfangið" sem þeir geta auðveldlega komizt yfir, enda verður keyrt á gríðarlegan áróður til þess með þremur miðstöðvum ESB hér og nokkrum styrktum félögum 5. herdeildar manna íslenzkra.
Frakkar eru margir orðnir afhuga því að fá Tyrki inn, einnig Þjóðverjar, en "lausnin" verður sennilega sú, að Tyrkir verða áfram dregnir á þessu, þangað til fer að sverfa að vinnumarkaði í ESB með áframhaldandi tímgunarleysi þjóðanna þar, sem gerir það síðar aðkallandi að fá inn nýtt blóð, enda hefur þá byrðin af framfærslu og sjúkrahúsþjónustu aldraðra margfaldast á hvern vinnandi mann miðað við það sem nú er.
Gangi Tyrkland í ESB og Ísland líka, er skaðinn fram undan óhjákvæmilegur. Gangi Tyrkir í bandalagið, en Íslendingar haldi sig utan þess, fáum við samt Tyrki hingað á vinnumarkaðinn, en getum stöðvað það með uppsögn Schengen- og EES-samninganna.
Nánar (um rök og fleiri efnisatriði) í þessari grein: Tyrkneska ríkisstjórnin þrýstir á um að komast í ESB.
Jón Valur Jensson, 13.10.2010 kl. 11:50
Sæll og blessaður Páll.
Ég má til að koma með eina athugasemd. Á liðnum áratug og líklega lengur hefur umræða um kynþætti og meinta óvild tengda þeim, teygt sig æ lengra inn á svið lífskoðunarsjónarmiða. Islam er ekki kynþáttur, heldur margbrotið sögulegt fyrirbæri á sviði trúarlífs, stjórnmála og menningar. Sem slíkt varður það aldrei einskorðað við tiltekinn kynþátt eða ætt af meiði mannkynsins á jarðarkringlunni. Fólk má hafna lífsskoðunum Islam og áliti það vitfirringu ef það yrði orðað við kynþáttahatur því Islam á sér líkast til áhangendur meðal allra þjóða. Hingað til hef ég hvergi rekist á að óvild í garð kristinnar lífsskoðunar teldist kynþáttahatur enda er kristnin rétt eins og Islam engan veginn einskorðuð við eina þjóð umfram aðrar. Það er undrunarefni þegar gagnrýni á lífsskoðun manns er lögð að jöfnu við "rasisma" nær fyrirvaralaust eins og gert hefur verið t.a.m. á ráðstefnum kenndum við Darfur. Leyfist okkur að gagnrýna tilvistarleg sjónarmið manna í stjórnmálum þá hlýtur okkur að vera heimilt að hafna lífsskoðunum af öðrum toga eða veita þeim viðtöku eftir atvikum og kemur kynþáttum manna eigindlega ekkert við. Viðhorf mín til aðildar Tyrkja að ES læt ég alveg liggja á milli hluta í þessu sambandi enda snýst athugasemd þessi um það eitt hvernig við notum orð og hugtök.
Bestu óskir, Þ.J.Þ.
Þórir Jökull Þorsteinsson (IP-tala skráð) 13.10.2010 kl. 11:56
Rasismi er orð sem Chomsky notar um afstöðu ráðandi afla í ESB til Tyrkja. Kynþáttahatur eða kynþáttaandúð er algeng þýðing á rasisma og hefur lengi verið. Rasismi Þjóðverja um miðja síðustu öld var iðulega þýddur sem kynþáttahyggja - þótt gyðingdómur sé rétt eins og kristni og múslímatrú iðkuð að margvíslegum kynþáttum.
Páll Vilhjálmsson, 13.10.2010 kl. 17:21
Sæll enn Páll.
Það er kjarnaatriði í færslu minni að Islam er ekki kynþáttur frekar en kristni og gyðingatrú. Spurningin er þá hvað gert hefur verið við hugtakið "rasismi" í umræðu manna á meðal. Chomsky er einmitt ágætt dæmi um þann skilning eða öllu heldur misskilning sem í orðið er lagður. Fólk hlýtur að mega setja lífs-, og trúarskoðunum fyrirvara rétt eins og öðrum skoðunum náungans án þess að kallast þar fyrir rasistar. Það er full auðveld afgreiðsla jafnvel þótt menn eins og Chomsky eigi í hlut.
Enginn verður rasisti fyrir það eitt að vera andvígur kenningu mormóna eða hindúa og þá ekki heldur fyrir það að vera mótfallinn því sem múslimar kenna, spíritistar eða gyðingar. Það er hins vegar auðvelt að benda fingri með upphrópunum og ásaka fólk um hvaðeina af þessum toga eins og dæmin sanna.
Kynþáttahatur - rasismi er heimska sem á lítið skylt við rétt fólks til að hafna trúar-, og lífsskoðunum sem misbjóða því. Sá réttur er helgur og má alls ekki rugla honum saman við þá leiðu hvöt manna að ofsækja og drepa alla sem þeim finnst ógna sér eða eru þeim ósammála og framandi.
Nasistar Þýskalands töldu sig ekki þurfa að ræða inntak gyðingdóms áður en lagt var í ofsóknir og þjóðarmorð. Þeir voru uppteknir af hleypidómum um "gallað" fólk af óæskilegum uppruna, - enda tóku þeir t.a.m., eftir uppgjöf Frakklands, þúsundir franskra hermanna af lífi fyrir það eitt að vera blakkir á hörund. Örlög þessara manna sem flestir áttu uppruna sinn í nýlendum Frakka í Afríku komu skoðunum þeirra eða trúarsjónarmiðum ekkert við. Þetta var rasismi.
Besta kveðja, Þ.J.Þ.
Þórir Jökull Þorsteinsson (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 10:06
Þetta er mjög vel rökstutt af hálfu Þóris Jökuls Þorsteinssonar, 100% fullnægjandi rökstuðningur og þar að auki óvenjuvandaður af skrifum á netinu að vera.
Gaman að sjá þig taka til hendinni hér, Þórir Jökull !
Jón Valur Jensson, 14.10.2010 kl. 18:07
Kynþáttahyggja og trú eru í einum skilningi auðveldlega aðskilin mál; annað er líffræði en hitt sannfæring.
Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Nasistar skilgreindu gyðinga sem kynþátt. Fólk sem hafði tekið kristni en átti forfeður af trúarsannfæringu gyðinga var skilgreint af kynþætti gyðinga.
Hugtakið rasismi í erlendum málum hefur verið þýtt á íslensku sem kynþáttahatur. Endursögn á gagnrýni Noam Chomsky á afstöðu ESB til aðildarumsóknar Tyrkja, þar sem hann notar orðið rasismi, hlýtur að styðjast við algenga þýðingu, þ.e. kynþáttaandúð/hatur.
Önnur umræða hvort orða- og hugtakanotkun sé ,,rétt" í almennum skilningi. Auðvelt er að samþykkja afstöðu Þóris Jökuls til líffræðilegrar merkingar á hugtakinu rasismi. Á hinn bóginn er orðið rasismi iðulega notað til að gagnrýna afstöðu er þykir byggja á fordómum gagnvart trúarbrögðum.
Páll Vilhjálmsson, 14.10.2010 kl. 19:55
En sú notkun orðsins er ekki kórrétt, Páll, heldur röng og villandi.
Þar að auki ber að greina á milli annars vegar réttmætrar (hlutlægrar, efnislega réttrar og ekki ósanngjarnrar) gagnrýni á trúarbrögð eða á suma þætti þeirra og hins vegar óbilgjarnrar gagnrýni eða árása sem byggjast á röngum fyrirframdómum (fordómum) og dreifa slíkum og ýta þannig undir lítilsvirðingu, jafnvel hatur á fólki – með tilheyrandi áhættu á mismunun og í sumum tilvikum líkamsárásum. Einungis síðarnefnda "gagnrýnin" er af hinu illa, en réttinn til hinnar fyrrnefndu ber að verja, t.d. í akademísku umhverfi og eins í þjóðfélaginu, þó án aggs og óþarfa tillitsleysis.
Jón Valur Jensson, 14.10.2010 kl. 21:13
Ef orðið rasismi er notað á villandi hátt í erlendri umræðu, eigum við að leiðrétta villuna þegar við þýðum umræðuna? Það býður annarri hættu heim, sem er sú að umræðan er afflutt og gerð önnur en hún í reynd er. Varla er nokkrum gerður greiði með því?
Páll Vilhjálmsson, 14.10.2010 kl. 21:37
Þetta er rétt hjá þér, Páll, en þá má líka geta þess, að í raun má gagnrýna svo afvegaleidda hugtakanotkun. Noam Chomsky er enginn guð.
Jón Valur Jensson, 14.10.2010 kl. 23:18
Góðan dag.
Mér sýnist þessi umræða góðra gjalda verð og þakka hana. Einnig virðist mér að ég hafi komið því að sem ég vildi í grundvallaratriðum sagt hafa. Þ.e. að hafa ber í heiðri virðingu fyrir náunganum og hafna mannfyrirlitningu eiginlegs rasisma þótt maður sé hjartanlega ósammála viðkomandi.
Það er því ekki rasismi þegar stjórnmálamenn í Evrópu velta fyrir sér afleiðingum þess að opna "borgarhliðin" upp á gátt fyrir 80 milljónum manna sem að stærstum hluta tilheyra öðrum menningarheimi. Það er í raun stjórnmálaleg og efnahagsleg varfærni sem á sér margar skýringar sem styðjast við gild sjónarmið, að ég ekki segi rök.
Hvað varðar umræðu af erlendum vettvangi þar sem hugtök og heiti eru notuð frjálslega við taumdrátt af hinum og þessum toga, þá er mikilvægt að fjölmiðlafólk sé vakandi yfir því. Demokratar í Bandaríkjunum hafa verið því fylgjandi að Tyrkland fengi aðild að ES, - þeirra á meðal Obama forseti. Hvað gengur Chomsky til með orðfæri sínu? Það er spurningin - og ef til vill svarið um leið.
Kærar kveðjur, Þ.J.Þ.
Þórir Jökull Þorsteinsson (IP-tala skráð) 15.10.2010 kl. 10:54
Takk sömuleiðis fyrir umræðuna.
Páll Vilhjálmsson, 15.10.2010 kl. 14:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.