Bandaríkjamenn niðurlægðir í Írak

Lítil saga á stóra sviði Íraksstríðsins um fjóra bandaríska hermenn sem voru teknir af lífi í handjárnum eftir þaulskipulagða árás uppreisnarmanna er lýsandi fyrir ógöngur heimsveldisins í gömlu Mesópótamíu. Herinn reyndi að leyna aftökunni.

Fimm bandarískir hermenn áttu boðaðan fund með íröskum samherjum í herbækistöð nærri borginni Karabala. Íraskir hermenn gættu bækistöðvarinnar. Skömmu eftir að bandarísku hermennirnir komu á fundinn óku fimm jeppar að herstöðinni. Jepparnir voru sömu gerðar og bandarísku öryggisfyrirtækin nota í Írak, og þau eru mörg. Írösku varðmennirnir gerðu ekkert til að stöðva jeppana sem uppreisnarmenn óku. Þeir komust í færi við bandarísku hermennina, skiptust á skotum og drápu einn en tóku fjóra til fanga.

Uppreisnarmönnunum tókst að flýja með fangana til nálægs héraðs þar sem bílarnir fundust. Bandarísku hermennirnir voru handjárnaðir. Tveir voru látnir inn í bílunum og einn skammt frá. Sá fjórði var með lífsmarki en lést skömmu síðar, samkvæmt frétt BBC sem jafnframt lét þess getið að Bandaríkjamenn hafi reynt að halda atburðarásinni leyndri.

Árás af þessu tagi er ekki gerð nema skipulagi og aga og óheftum aðgangi að fjármagni og búnaði. Með því að taka bandarísku hermennina til fanga, í stað þess að skjóta þá á staðnum, eru uppreisnarmenn að segja bandarísku herstjórninni að þeir hafi í fullu tré við innrásarliðið.

Atburðir af þessu tagi grafa undan siðferðisþreki bandarískra hermanna. Þeir eru þjálfaðir til að berjast við aðra heri en ekki við skæruliða sem stökkva inn og út úr röðum almennra borgara. Það er niðurlægjandi fyrir bandaríska herinn þegar liðsmenn eru fangaðir, handjárnaðir og teknir af lífi.

Árangur uppreisnarmanna er að sama skapi uppbyggjandi fyrir baráttuþrek þeirra. Með aðstoð frá Íran og Sýrlandi eru þeim allir vegir færir að því er virðist.

Bandaríkjamenn eru núna að fást við uppreisnarmenn sem einkum koma úr röðum súnníta. Ef þeim tekst að yfirbuga súnníta, sem er ekki líklegt, þá eru eftir shítar sem eru í meirihluta í Írak. Shítar hafa hægt um sig enda flokkar þeirra ráðandi í ríkisstjórn.

Takist ekki fljótlega að koma þokkalegu jafnvægi á í Írak mun þeim fjölga sem krefjast heimkvaðningar bandaríska hersins. Það er fátt sem bendir til annars en að óöldin haldi áfram um langa hríð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

æi ... "Shítar hafa hægt um sig enda flokkar þeirra ráðandi í ríkisstjórn."

mikill hluti árása gegn alþjóðaliði í landinu er gerður af hálfu Mahdi hersins og annarra fylkinga sjíta... 

 Þessi atlaga, þó djörf hafi verið, segir ekkert um að þeir sem að henni standa "hafi í fullu tré" við lið Bandaríkjanna.

Kveðja 

Abu Kut (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 16:52

2 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já spurning ef þetta væri svona vel skipulagt af hverju það er ekki meira um svona? Líka af hverju þeir komust ekki lengra með hermennina.

En áhugaverð pæling.

Ólafur Þórðarson, 28.1.2007 kl. 21:12

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já spurning ef þetta væri svona vel skipulagt af hverju það er ekki meira um svona? Líka af hverju þeir komust ekki lengra með hermennina.

En áhugaverð pæling.

Ólafur Þórðarson, 28.1.2007 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband