Sunnudagur, 3. október 2010
Falsið á bakvið reiðina
Falska fólkið í samfélaginu reynir að gera sér mat úr ríkjandi reiði. Fólk sem hefur verið með allt niðrum sig um árabil stekkur fram og segist fórnarlömb kreppunnar. Það er ekki einfalt að vinsa rugludallana úr röðum heiðarlegs fólks sem orðið hefur fyrir barðinu á hruninu og á réttmæta kröfu á leiðréttingu.
Í pólitíkinni er á hinn bóginn auðvelt að sigta út falska liðið. Auðrónadeild Sjálfstæðisflokksins fylkti sér á bakvið málstað Geirs H. Haarde þegar hann var ákærður fyrir vanrækslu. Kjarni auðrónadeildarinnar eru sjálfstæðismenn sem störfuðu beint eða óbeint fyrir auðmennina; Þorsteinn Pálsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ólafur Stephensen, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Árni Sigfússon og Þór Sigfússon.
Geir H. Haarde er kominn fyrir landsdóm vegna þess að hér varð hrun. Stjórnvöld vanræktu skyldur sínar að verja almannahag, m.a. vegna þess að auðmenn áttu meðhlaupara í röðum auðrónadeildar Sjálfstæðisflokksins. Ástæðan fyrir því að hann er einn ákærður er sú að bestu vinir auðrónadeildar sjálfstæðismanna, þingmenn Samfylkingar, slógu upp skjaldborg fyrir oddvita og ráðherra Samfylkingarinnar.
Reiði auðrónadeildar Sjálfstæðisflokksins beinist ekki að tvöfeldni þingmanna Samfylkingarinnar, sem samþykktu kærur á Geir en höfnuðu að kæra Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvin G., heldur að Vinstrihreyfingunni grænu framboði fyrir að standa að ákærunum.
Auðrónadeildin kann ekki að skammast sín.
Athugasemdir
Ástæðan fyrir því að ólitíkusar reyndu að fela sig undir teppi var að ríkið var að taka við svo háum skattagreiðslum frá yfirskuldsettu batteríi.
Og hefðu þeir reynt að t.d. minnka lánahlutföll til húsnæðiskaupa og raunverulega láta til sín taka í afleiðuviðskiptum almennings með erlendan gjaldeyri hefðu ansi margir látið í sér heyra. Og það ekki kurteisislega.
Þess vegna held ég að ekkert geti komið út úr pólitískum réttarhöldum.
En þetta er sannleikurinn sem þarf að skrifast betur á bak við eyru margra. Kanski réttarhöld hjálpi til þess?
jonasgeir (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 11:47
Sæll.
Ríkið á ekki og getur ekki verndað einstakling fyrir sér sjálfum. Hvaða stjórnmálaflokkar hvöttu fólk til að drekkja sér í lánum? Of margir virðast ekki skilja að hið opinbera stjórnar ekki einkafyrirtækjum. Edge og Icesave voru möguleg vegna EES reglna. Hið opinbera hér hafði ekki leyfi til að koma í veg fyrir þetta.
Ég ætla ekki að verja þá þingmenn sem þú nefnir hér en stjórnvöld vanræktu ekki neitt. Það varð hrun hér eins og í mörgum öðrum löndum. Þú talar eins menn hafi haft þá vitneskju sem við höfum nú áður en allt hrundi. Bera bankarnir enga ábyrgð og heldur ekki það fólk sem tók öll þessi lán? Er allt einhverjum öðrum að kenna (ríkinu)?
Rannsóknarnefnd alþingis sagði sem svo að bankarnir hafi verið dauðadæmdir frá 2006. Bankamenn víða um heim höguðu sér með mjög óábyrgum hætti og eru t.d. Írar í vondum málum vegna björgunaraðgerða. Hegðun bankamanna er ekki á ábyrgð ríkisins frekar en afbrot á ábyrgð lögreglunnar.
Ég ætla ekki að bera blak af Seðlabankanum eða FME en löggiltir endurskoðendur skrifuðu upp á vafasama ársreikninga bankanna og hefur slitnastjórn Glitnis nú ákveðið að stefna PwC í NY vegna vinnubragða sinna. Ég geri ráð fyrir að FME hafi ákveðið að treysta endurskoðendum. Hvort það var hægt verða aðrir að dæma um. Hins vegar finnst mér eðlilegt að þeir "sérfræðingar" FME sem gáfu út heilbrigðisvottorð fyrir íslensku bankana 6 vikum fyrir hrun fari, við getum ekki notað þeirra sérfræðiþekkingu - mistök þeirra eru einfaldlega of mikil.
Uppgjörið við hrunið á að fara fram í gegnum embætti sérstaks saksóknara. Mér finnast hlutirnir þar gerast afar hægt. Er t.d. verið að rannsaka gjörðir endurskoðenda bankanna?
Helgi (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 12:09
Af hverju dettur engum í hug að stefna stjórnmálamönnum fyrir dómstóla vegna banka- og efnahagshrun í Bandaríkjunum, Bretlandi, Írlandi, Grikklandi, Spáni, Eystrasaltslöndunum o.s.frv., o.s.frv?
Axel Jóhann Axelsson, 3.10.2010 kl. 13:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.