Laugardagur, 27. janúar 2007
Eftirmæli Rauðu herdeildanna
Undarlegasta tímabilið í eftirstríðsárasögu Þýskalands var áttundi áratugurinn þegar ungmenni herjuðu á valdakerfið með mannránum og morðum. Nýlega kom út tveggja binda verk upp á fimmtánhundruð blaðsíður sem að nokkru leyti varpar nýju ljósi á Rauðu herdeildirnar.
Forsagan liggur í stúdentamótmælum sem oft eru kennd við 68-kynslóðina. Víetnam-stríðið og heimsveldasstefna Bandaríkjanna kveikti andúð ungs fólks víða í Evrópu. Mótmælin fundu sér afbrigðilegan farveg í Þýskalandi. Þarlend ungmenni, flest fædd um og eftir seinna stríð, snerust til vopnaðrar baráttu gegn yfirvöldum og nefndu valdastéttina Auschwitz-kynslóðina með skírskotun í nasismann og þjóðarmorð á gyðingum.
Andreas Baader, Ulrike Meinhof og Gudrun Ensslin voru þekktustu einstaklingarnir í hópnum sem oft var kenndur við Baader-Meinhof en kallaði sig Roten Armee Fraktion, Rauðu herdeildirnar. Hópurinn stóð fyrir íkveikjum, flugránum og morðum á áttunda áratugnum. Baader, Meinhof og Ensslin fundust látin í klefum sínum í Stammheim fangelsinu við Stuttgart árið 1977. Samtökin lögðust ekki af strax og stóðu fyrir aðgerðum en það hallaði undan fæti.
Vikuritið Der Spiegel (22. jan. sl.) segir frá tveggja binda verki undir ritstjórn Wolfangs Kraushaar, Die RAF und der linke Terrorismus, þar sem farið er í saumana á lífshlaupi liðsmanna Rauðu herdeildanna og hugmyndafræði samtakanna brotin til mergjar.
Einn af hugmyndasmiðum borgarskæruliðanna var lögfræðingurinn Horst Mahler. Eins og félagarnir var Mahler í öndverðu harður vinstrimaður og gagnrýndi nasíska fortíð valdamanna Þýskalands. Í bókinni er það í fyrsta sinn dregið fram að faðir Mahlers var gyðingahatari og nasisti sem einn góðan veðurdag árið 1949 stóð upp frá morgunverðarborðinu, gekk út í garð og skaut sig. Horst var þá þrettán ára.
Til að gera söguna fjarstæðukenndari er Mahler í dag búinn að snúast í hring og er orðinn ný-nasisti og heldur úti heimasíðu með áróðri gegn gyðingum.
Borgarskæruliðarnir í Rauðu herdeildunum höfðu samúð með gyðingum framan af, Ulrike Meinhof studdi Ísraelsmenn í sex daga stríðinu árið 1967. En með alþjóðvæðingu baráttunnar og samstarfi við skæruliðasamtök Palestínumanna, PLO, breyttist viðhorfið. Meinhof bar lof á morðin á ísraelskum íþróttamönnum á Olympíuleiknum í Munchen 1972.
Blaðamaðurinn og sagnfræðingurinn Joachim Fest kynntist Meinhof á sínum tíma og skrifaði um hana bókarkafla fyrir þrem árum, (Begegnungen, 2004). Fest er sérfræðingur í nasistatímabilinu og sagði að þrátt fyrir andstæður á yfirborðinu þá væri menningarbölmóður gegn nútímanum sameigilegur þáttur hjá nasistum og andófshreyfingu Meinhofs.
Arfleifð Rauðu herdeildanna fylgir Þjóðverjum þótt aðgerðum hafi linnt. Á því fékk Joschka Fischer fyrrverandi utanríkisráðherra Þýsklands að kenna þegar það var rifjað upp fyrir þrem árum að hann var handgenginn borgarskæruliðunum á áttunda áratugnum og jafnvel aðili að hryðjuverkum. Dóttir Ulriku Meinhof, Bettina Röhl, átti ekki lítinn þátt í að baka Fischer vandræði.
Athugasemdir
Þessu skylt: Einmitt þessa dagana er lífleg umræða í Þýskalandi um að náða þau Brigitte Mohnhaupt og Christian Klar. Ekkju Hanns-Martin Schleyer er ekki skemmt. Sjá t.d. hér (spiegel.de):
Politiker wollen RAF-Rädelsführer freilassen
Bundesanwaltschaft fordert Freilassung von MohnhauptHlynur Þór Magnússon, 27.1.2007 kl. 11:46
Ég hef nú heyrt utanaf mér, að ýmsir Íslendingar hafi nú verið handgengnir Baader-Meinhof eða a.m.k. samúðarfullir þeim. M.a. einn sem fylgir enn fordæmi BM/RAF.
Snorri Bergz, 27.1.2007 kl. 14:13
Nú verður þú að segja meira, Snorri.
Páll Vilhjálmsson, 27.1.2007 kl. 14:36
Flestir ngliðar allra stjórnmálaflokkana nema SUS studdu BM/RAF þetta á Páll að vita sem fyrrum Abl. maður.
Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 18:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.