Mánudagur, 6. september 2010
Hrunkvöðlar, bankar og endurreisn
Hrunkvöðlar Íslands númer eitt, tvö og þrjú eru auðmennirnir sem léku lausum hala á útrásartíma og lugu, blekktu og sviku margítrekað gagngert í þeim tilgangi að sölsa til sín fjármuni. Eftirhreytur af veldi auðmannanna standa enn og eru þrándur í götu endurreisnar atvinnulífs.
Þegar Arion banki gerir kyrrstöðusamning við Baugsfeðga er hrunkvöðlum gert auðveldara að komast á fætur til fyrri iðju. Samfélagið þarf að hreinsa sig af óværunni sem hrunkvöðlarnir eru.
Ríkisbankarnir eiga að ganga fram fyrir skjöldu, efna til lokauppgjörs við hrunkvöðlana og leggja af meðvirkni sem felst í kyrrstöðusamningum og öðrum ráðstöfunum sem gefa auðmönnum færi á nýrri atlögu gegn efnahagslífi þjóðarinnar.
Athugasemdir
Leyndarhyggjan að baki ýmsum aðgerðum bankanna eftir hrun er ógnvænleg og allt eins víst að þar sé efni í nýja rannsóknarskýrslu. Yfirvöld vaka með hálfum huga yfir starfsemi bankanna, allsendis ófær um að leggja þeim og atvinnulífinu línurnar. Endurreisn atvinnulífsins og aðkoma nýrra verkefna í orkuuppbyggingu og afleiddri starfsemi er forsenda efnahagslegrar endurreisnar. Án hennar er tómt mál að tala um endurreisn lands og þjóðar.
Yfirlýsingar stjórnvalda um að botninum sé náð er hlægilegt yfirklór og einstaklega klaufalegt í ljósi nýjustu hagtalna - minnir að nokkru á þegar Bush W. lýsti yfir sigri í Írak og lok stríðsátaka þar ... það sér vart fyrir endann á ófriðnum í Írak sjö árum síðar- hvað líður endurbatanum hér á landi?
Ólafur Als, 6.9.2010 kl. 12:28
"Tone at Top" er fyrirbæri sem vísar í hvernig þeir sem sitja í æðstu stöðum haga sér í starfi og leik. Sé tónninn tær, er líklegra að samhljómur fyrirtækis eða stofnunar verði áheyrilegur. Það er ískyggilegur samhljómur í topptóni allra þessara hrunkvöðla. Því er það útbreidd skoðun, að þessir fölsku tónar eiga að þagna og alls ekki hljóma neins staðar á toppnum.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.9.2010 kl. 13:04
Tek undir þessi sjónarmið um leyndarhyggju núverandi stjórnenda bankanna. Þar er ekki alltaf farið eftir eðlilegum reglum viðskiptalífsins, bröskurum eru gefnar upp himinháar skuldir meðan aðrir eiga að greiða allt upp með himinháum vöxtum. Þá eru dæmi um að verðmæti úr bönkunum hafi verið afhent vildaraðilum.
Ekki hef eg heyrt um "tone et top". Fróðlegt væri að fá meiri fróðleik um það.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.9.2010 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.