Mánudagur, 6. september 2010
Trú, von og vinstripólitík
Forsætisráðherra sagðist íhuga að segja sig úr þjóðkirkjunni og þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs boðar frumvarp til höfuðs kirkjunni. Þetta eru dæmi um einelti gagnvart kirkjunni þar sem umræðu um kynferðisafbrot látins biskups eru tekin til alhæfingar um ástand kirkjunnar.
Það er hægt að ræða samband ríkis og kirkju á ýmsum forsendum. Þó hljóta að vera mörk fyrir því hversu langt er seilst. Skipulegar tilraunir fjölmiðla að smala út úr þjóðkirkjunni vegna umræðu um kynferðisafbrot og nota útsmölunina sem almenn rök gegn kirkjunni er óhæfa.
Vinstriflokkarnir skjóta sig í fótinn með því að taka þátt í atlögunni að þjóðkirkjunni.
Athugasemdir
Það er frekar að það sé mannréttindabrot að þeir sem kjósa að standa utan trúfélaga þurfi samt að borga laun presta og byggingar kirkjunar með sköttum sínum.
Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 6.9.2010 kl. 08:28
Þeir sem ekki eru skráðir í Þjóðkirkjuna greiða ekki sóknargjöld til hennar. Ríkið sér um innheimtu sóknargjalda fyrir þjóðkirkjuna samkvæmt lögum. Á móti komu eignir kirkjunnar sem voru verulegar, einkum kirkjujarðir.
Það má ekki gleyma því að við erum nærri 80% þjóðarinnar sem erum í Þjóðkirkjunni og þjóðkirkjan veitir þjónustu um land allt.
Þeir sem svo kjósa greiða því ekki gjöld til þjóðkirkjunnar.
Það er hinsvegar athyglisverð tillaga að Þjóðkirkjan losi sig við þetta samband sem þó er milli hennar og ríkisins. Sem væntanlega mun þýða að ríkið skili eignum kirkjunnar til baka.
Það er ömurlegt að heyra þingmann boða þingmál um "Ríkiskirkju". Sú umræða var afgreidd fyrir meira en 100 árum síðan! Hér er ekkert sem heitir "Ríkiskirkja".
Ég veit hinsvegar ekki til þess að þau lög sem samþykkt voru á Alþingi Íslendinga á Þingvöllum fyrir liðlega 1000 árum, þess efnis að hér ,,skuli vera einn siður" - þ.e. Kristni - hafi verið felld úr gildi. Samvera þjóðarinnar og Kristinnar trúar hefur semsagt staðið í meira en 1000 ár.
Vilhjálmur Grímsson (IP-tala skráð) 6.9.2010 kl. 09:31
"Ég veit hinsvegar ekki til þess að þau lög sem samþykkt voru á Alþingi Íslendinga á Þingvöllum fyrir liðlega 1000 árum, þess efnis að hér ,,skuli vera einn siður" - þ.e. Kristni - hafi verið felld úr gildi."
Vilhjálmur, þú hlýtur að átta þig á því að þegar Íslendingar fengu stjórnarskrá þar sem trúfrelsi manna var tryggt þá hlutu hin fornu lög að falla úr gildi, enda fela þau í sér andstæðu trúfrelsis; að einungis "einn siður" sé leyfður þýðir að aðrir eru bannaðir.
Annars hlýtur ríkið að þurfa að skila til kirkjunnar við aðskilnað því ígildi eigna hennar sem það fékk þegar kirkjan var tekin undir væng þess. Á annan veg getur það vart verið.
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.9.2010 kl. 10:58
Þorgeir! Hér er 62. grein stjórnarskráinnar. Hún er í góðu samræmi við ákvörðun Alþingis árið 1000 - þykir mér.
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Það er svo annað mál að þessi sama stjórnarskrá hefur að geyma ákvæði um trúfrelsi.
Vilhjálmur Grímsson (IP-tala skráð) 6.9.2010 kl. 11:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.