Sunnudagur, 5. september 2010
Baráttan um þjóðarsálina
Summa helstu sjónarmiða samfélagsins er kölluð þjóðarsál. Straumhvörf urðu við hrunið og sjónarmið tóku að breytast. Áður var trú á almáttkan markað, athafnafrelsi með græðgi á daginn og grilli á kvöldin. Enginn teflir fram valkosti við markaðshyggju eftir hrun en þeir hljóma út úr kú sem gerast boðberar þeirrar hyggju.
Athafnafrelsið fær ekki heldur á sig gagnsókn ríkisforsjár. Ríkisvæðing banka var efnahagsleg nauðsyn sem engin pólitísk sannfæring var fyrir. Breið samstaða er um að setja taumhald á þann kúrekakapítalisma sem tröllreið húsum áratuginn fram að hruni.
Vígvöllurinn um þjóðarsálina hefur færst frá efnahagsmálum, þótt enn sé stundaður þar skæruhernaður t.d. um skattprósentur og uppgjör lána almennings og auðmanna.
Vettvangur átaka er núna og verður næstu árin fullveldið og forræði þjóðarinnar um eigin mál. Þau pólitísku álitamál sem skipta þjóðinni í fylkingar lúta flest að spurningunni hvort þjóðin ráði eigin málum. Atlaga að fullveldi okkar kemur bæði að utan að innan. Tvö lítil dæmi um hvernig útlendingar umgangast íslensk stjórnvöld eru Magma-málið og málaliðafyrirtækið ECA. Bæði fyrirtækin reyna ítrekað að láta stjórnvöld standa frammi fyrir orðnum hlut.
Innri atlagan að fullveldi okkar er umsóknin um aðild að Evrópusambandinu. Umsóknin er samin og knúin í gegn á alþingi í miðri geðshræringu hrunsins og hafði aldrei stuðning nema um þriðjungs þjóðarinnar. Afleiðingin er að aðeins hluti ríkisvaldsins er með í feigðarförinni til Brussel og helstu samfélagskraftar vinna gegn framgangi málsins.
Hrunið hefur ekki enn breytt stjórnmálakerfinu svo neinu nemur. Af stjórnmálaflokkum stendur Vinstrihreyfingin grænt framboð best að vígi í baráttunni um þjóðarsálina. Þrátt fyrir svikin 16. júlí 2009 þegar nokkrir þingmenn Vg studdu þingsályktun um að sækja um aðild hefur flokkurinn ályktað ítrekað um andstöðu við aðild að ESB og ein ráðherra flokksins, Jón Bjarnason, er forystuafl í stjórnarráðinu gegn aðlögunarferlinu. Flokksmenn Vg eru gerendur í andstöðunni við kaup Magma á HS-Orku.
Sjálfstæðisflokkurinn er með góð spil á hendi í bland við hunda. Ályktun landsfundar í sumar um að afturkalla eigi umsóknina um ESB-aðild gaf flokknum sóknarfæri sem aðeins að hluta hefur verið notað. Aðalveikleiki flokksins er hversu hörmulega hann hefur staðið að uppgjöri innan eigin raða. Hrunkvöðlar eins og Guðlaugur Þór Þórðarson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir eru í þingflokknum. Annar hrunkvöðull er bæjarstjórinn í Reykjanesbæ sem reyndi græðgisvæddan ríkissósíalisma og stendur frammi fyrir efnahagslegu og pólitísku gjaldþroti. Árni bæjarstjóri Sigfússon er með atvinnustefnu Sjálfstæðisflokksins í gíslingu.
Framsóknarflokkurinn er með sóknarfæri. Endurnýjun forystu bætir að nokkru upp klofinn þingflokk, t.d. í ESB-málum. Formaður flokksins, Sigmundur Davíð, er skeleggur og það er fyrst og fremst honum að þakka af stjórnmálamönnum að Icesave-samningar ríkisstjórnarinnar fengu ekki framgang. Sigmundur Davíð er líka naskur á mál og sér t.d. að ríkisstjórnarflokkarnir leggja þjóðkirkjuna í einelti. Formaðurinn veit að þögli meirihluti þjóðarinnar vill óbreytta þjóðkirkju.
Samfylkingin er eftirhermuflokkur. Flokkurinn var stofnaður til að vera Sjálfstæðisflokkur vinstrimanna, át upp frjálshyggjuna og hirti auðmannaleifar móðurflokksins s.s. Jón Ólafsson í Skífunni og Jón Ásgeir Jóhannesson. Á flótta undan frjálshyggju tók Samfylkingin um stæka Evrópustefnu sem mun leiða flokkinn fram af bjargbrúninni og verður fáum harmdauði.
Athugasemdir
Vel að orði komið Páll
Björn Emilsson, 5.9.2010 kl. 12:35
Vel að orði komist Páll
Björn Emilsson, 5.9.2010 kl. 12:36
Athyglisverð lýsing - en er hún ekki einum of neikvæð um Samfylkinguna? Alls enginn ljós punktur þar??
Deddi (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 16:58
Get ekki verið sammála þér með framsóknarviðbjóðinn. Núverandi formaður er tækifærissinni, lýðskrumari "demagog" eins og það hét í Grikklandi til forna. Grein hans um kirkjuna í Mogganum er að mínu mati dæmi um lýðskrum. Fylgi almennings við aðild að Evrópusambandinu vex hratt þessa dagana. Framlag Evrópusambandsandstæðinga hefur gengið fram af venjulegu fólki, enda stóryrðin og hræðsluáróðurinn orðinn svo yfirgengilegur, að enginn tekur mark á því svartagallsrausi lengur, enda hafa margir fróðir og rökfastir einstaklingar, sem hefur ofboðið bullið, gengið fram fyrir skjöldu og greint kjarnann frá hisminu svo eftir hefur verið tekið.
Serafina (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 17:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.