Sunnudagur, 22. ágúst 2010
Áfengi, prestar og umræðan
Þjóðfélagsumræðan sýnir gildismat í upplausn. Ríkjandi viðhorf fyrstu ár aldarinnar, og áttu sér lengri forsögu, voru efnahagslegt og félagslegt frjálslyndi sem teygðu sig yfir í óhóf og taumleysi á útrásarárum. Hrunið kippti fótunum undan viðteknum lífsviðhorfum. Efnahagslegur og félagslegur veruleik eftirhunsins hefur enn ekki ofið skilningsþræði lífsgilda fyrir breytt samfélag. Tvö óskyld umræðuefni varpa ljósi á skilin sem orðið hafa á andlegu lífi þjóðarinnar.
Eftir verslunarmannahelgi var efnt til áfengisumræðu undir þeim formerkjum að verðlag væri komið úr böndum og stórskaðaði ferðamannaþjónustu og hafi í för með sér önnur neikvæð áhrif. Umræðan bar þess merki að vera skipulög og hrint í framkvæmd af hagsmunaaðilum. Ef allt hefði verið með felldu, þ.e. óbreytt frá tímum útrásar, hefði í kjölfarið komið umræða um að auka aðgengi að áfengi, t.d. selja vín í matvöruverslunum, og þrýstingur á stjórnvöld að hækka ekki álögur á áfengi. En ekkert slíkt gerðist. Þótt Fréttablaðið reyndi sitt ítrasta að halda á lofti áfengum sjónarmiðum fjaraði undan þeim og enginn stuðningur reyndist við málið í samfélaginu.
Prestar hafa síðustu daga stundað opinberan leðjuslag þar sem undir er þagmælska presta, kynhegðun þeirra og ásakanir barnaníð. Stóru höggin eru ekki spöruð enda stéttin þjálfuð í samskiptum. Geistlegu átökin sýna algjöran skort á samstöðu innan stéttarinnar og endurspegla togstreitu milli frjálslyndra viðhorfa og íhaldssamra. Deilur af þessu tagi eru jafngamlar kirkjunni. Óvanalegt er aftur á móti að prestar kappkosta að stunda umræðuna opinberlega. Deiluaðilar telja að sannfæring almennings sé komin á flot og freista þess að beina henni í farveg.
Við lifum á áhugaverðum tímum.
Athugasemdir
Öl og vín á vitanlega heima í matvöruverslunum. Jafnvel sterkir drykkir. Svo segja margir. Erum við þá ekki hluti af samfélaginu, Páll?
Ólafur Als, 22.8.2010 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.