Miðvikudagur, 24. janúar 2007
Aldraðir og öryrkjar tefla á tvær hættur með framboði
Fyrirhugað þingframboð aldraðra og öryrkja mun vekja athygli á málstað þeirra í aðdraganda kosninganna en hætt er við að þegar til lengri tíma er litið verði framboðið dragbítur á málefnin sem undirbúningshópurinn ber fyrir brjósti. Ef málaflokkurinn verður flokkspólitískur verður hann um leið berskjaldaðri og mun eiga í færri hús að venda en hann gerir nú.
Framboðsmál hafa um nokkra hríð verið til umræðu hjá öldruðum og öryrkjum. Fólk sem gefur sig í vinnu af þessu tagi er að upplagi bjartsýnt og baráttuglatt. Ekkert er óeðlilegt við það að menn láti slag standa þegar búið er að fara ítarlega yfir möguleikana, sér í lagi ef kostirnir eru gaumgæfðir af meiri athygli en ókostirnir.
Ýmislegt mælir með framboði. Öldruðum fjölgar þegar æ stærri árgangar verða reyndir og ráðsettir og öryrkjar verða fleiri, samkvæmt skýrslum. Þá eru aðstandendur þessara hópa margir og gætu átt það til að veita framboði brautargengi.
Verði framboðinu hrint í framkvæmd mun málaflokkurinn fá aukna athygli í kosningabaráttunni. Bæði vegna framboðsins sjálfs og eins af hinu að aðrir stjórnmálaflokkar munu tefla fram frambjóðendum sem eru sjóaðir í umræðunni um aldraða og öryrkja.
Í kosningabaráttunni verða mörg mál til umræðu og ekki einboðið hvaða skoðun framboð aldraða og öryrkja eigi að hafa á sjávarútvegsstefnunni, utanríkismálum og menntamálum, svo dæmi séu tekin. Eftir því sem heitustu kosningamálin, sem enginn veit hver verða, liggja fjær hagsmunum aldraðra og öryrkja verður ólíklegra að kjósendur veiti nýja framboðinu athygli.
Í kosningunum mun framboðið frá mælingu sem fylgir öldruðum og öryrkjum næstu fjögur árin. Miðað við reynslu og hefð á nýjum framboðum þykir það varnarsigur að fá þrjá til fimm þingmenn. Líklegasta niðurstaða kosninganna er jafnframt sú versta fyrir málefnið. Það yrði betra fyrir hagsmuni aldraðra og öryrkja að fá annað hvort herfilega útkomu eða vinna stórsigur. Í fyrra tilvikinu yrði þeim klappað föðurlega á kollinn og áminntir um að ana ekki aftur út í svona vitleysu. Í seinna tilvikinu yrði stjórnmálaflokkur aldraða og öryrkja svo sterkur að engin leið væri að líta framhjá honum. En með þriggja til fimm manna þingflokk yrði hópurinn mest til ama, ekki nógu stór til að skipta máli en ekki nógu lítill til hægt sé að sópa honum undir teppið.
Ef framboðið fær ekki stjórnarþátttöku eru málefni aldraða og öryrkja komin í stjórnarandstöðu næstu árin. Og það er engum hagsmunahópi þénugt að vera með málaflokkinn sinn í heild í stjórnarandstöðu. Vitanlega yrðu aldraðar og öryrkjar ekki settir út á guð og gaddinn þótt framboð á þeirra vegum missti marks. En það er eins víst að framboðinu verði kennt um ef hagsmunabaráttan ætti á brattan að sækja í framhaldinu. Keppninautar á þingi myndu gráta það þurrum tárum.
Aldraðir og öryrkjar ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skora stjórnmálakerfið á hólm.
Aldraðir og öryrkjar stofna til framboðs fyrir næstu Alþingiskosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Smáflokkar geta náð fram hluta markmiða sinna jafnvel án þess að vera kosnir á þing. Vegna framboðsins verða aðrir flokkar að bregðast við því að eiga á hættu að missa kjósendur og þurfa því að aðlaga stefnuyfirlýsingu og kosningaloforð sín að málefnum smáflokksins.
Björgvin
Björgvin Ragnarsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 00:51
Vei þeim !
Það er óhugnanlegt að aldraðir og öryrkjar skuli sjá sig knúna til að koma með sérframboð. Hins vegar er það byrtingarmynd af stöðu minnihlutahópa í okkar samfélagi í dag.
Vei þeim, sem voru kosin !
Vei þeim, sem kusu þau !
Erla Magnúsdóttir
Erla Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 02:06
Það hryggir mig að aldraðir og öryrkjar sjái sig knúna til að fara í framboð. Við sinnum þeirra málum með hangandi hendi og fyrir mér er þetta ekkert nema hróp á hjálp. Er ekki tími til kominn að líta í eigin barm og viðurkenna að það er okkur hinum að kenna að taka ekki fyrr á þessum alvarlegu málum. Mér finnst við ekki hafa rétt á að gagnrýna þá fyrir að reyna að bjarga sér sjálfir.
Hildur Sif
Hildur Sif (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 13:54
Ég er í megin atriðum sammála rökum Páls fyrir að aldraðir og öryrkjar fari ekki í framboð.Ef þeir fengju menn kosna á þing og lentu í stjórnarandstöðu,er hætt við að staða þeirra myndi fremur veikjast en styrkjast,þá eru þeir komnir í stjórnarandstöðu.Yrðu þeir hinsvegar aðilar að ríkisstjórn myndi það geta skapað þeim betri samningsaðstöðu.
Aðalmálið er að stjórnvöld hafa farið áratugum saman skammarlega að ráði sínu varðandi lífskjör þessa fólks.Ég hef oft í blaðagreinum gegnum árin lýst mínum hugmyndum um bætt kjör aldraðra og öryrkja og ætla ekki að endurtaka það hér,en þar vega þyngst skattamálin.
Kristján Pétursson, 24.1.2007 kl. 16:18
Svo er að sjá í Fréttablaðinu, að það verði hugsanlega tvö framboð í nafni aldraðra og öryrkja.
Furðulegt mjög
Bjarni Kjartansson, 25.1.2007 kl. 14:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.