Mánudagur, 28. júní 2010
Kjarnahagsmunir Íslands varðir
Sjálfstæðisflokkurinn stóð vaktina um kjarnahagsmuni Íslands þegar landsfundur flokksins samþykkti ályktun um að draga tafarlaust tilbaka umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Kjarnahagsmunir Íslands eru forræði yfir náttúruauðlindum og frelsi til milliríkjasamninga.
Evrópusambandsaðild fæli í sér ólíðandi skerðingu á fullveldi okkar með því að aðgangi að fiskimiðum yrði stýrt frá Brussel og sömuleiðis yrði þar ráðskast með skipan landbúnaðarmála hérlendis. Evrópusambandið yfirtæki einnig umboð ríkisstjórnar Íslands til að gera milliríkjasamninga. Íslendingar væru fastir í neti stórveldahagsmuna meginlandsþjóða Evrópu og gætu sig lítið hrært þegar í húfi væru annars vegar séríslenskir hagsmunir og hins vegar hagsmunir milljónaþjóða.
Aðildarsinnar á Íslandi eru pólitískir ævintýramenn sem sækjast eftir skyndilausnum á langtímaúrlausnarefnum. Landfræðileg staða Íslands og þróun alþjóðastjórnmála í okkar heimshluta kallar á endurmat á utanríkisstefnu þjóðarinnar. Eftir landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins ætti öllum að vera ljóst að skyndilausnir eru ekki lengur í boði.
Þrengir ekki stöðu Sjálfstæðisflokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú, sem oft áður kemst þú að kjarna málsins Páll. Þessi pistill er afbragð.
Baldur (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 11:01
Samkvæmt Google þá kemur orðið ESB meira en 2100 sinnum fyrir í bloggi hjá þér. Hvað er þetta eiginlega með ESB? Annað, er ekki verið að tala um að umsóknarferlið taki 2-3 ár hið minnsta og þá tekur við samþykki/höfnun þjóðþinga ESB landa og þjóðaratkvæði á Íslandi. Síðan áratugur í hugsanlega evru? Þetta telst nú varla vera skyndilausn eða hvað? En jú sannarlega mun öll umræða um aðild, aðlögun og naflaskoðun Íslendinga og stjórnkerfisins í heild hafa mikil áhrif en er víst að þau verði alslæmt? Ertu ánægður með það sem við búum við nú? Mér hefur ekki sýnst það.
bitvargur (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 11:21
Umsókn um aðild var skyndilausn í boði Samfylkingarinnar. Þótt aðlögunarferlið sé nokkur ár breytir það engu um niðurstöðu; þ.e. aðild að ESB. Samfylkingin keyrði á þessa skyndilausn strax eftir hrun og fékk hljómgrunn hjá rúmum 29 prósentum þjóðarinnar.
Aðild átti að koma í stað þess að við sjálf réttum úr kútnum og lærðum af reynslunni. Í kosningabaráttunni mátti heyra frambjóðendur Samfylkingarinnar fullyrða að bara við það eitt að sækja um aðild myndi krónan styrkjast og efnahagslífið taka fjörkipp. Árni Páll félagsmálaráðherra sagði berum orðum að aðild að Evrópusambandinu væri töfralausn Íslands.
Skyndilausnir eru ekki heppilegar þegar mikilvæg málefni eiga í hlut.
Páll Vilhjálmsson, 28.6.2010 kl. 11:39
Enn og aftur tekst Páli að yrkja öfugmælavísu. Það var ákvörðun Alþingis að sækja um aðildarviðræður. Á sama hátt verður það ákvörðun Alþingis að hætta við slíkar viðræður. Eins og Páll veit eru þingmenn eingöngu háðir samvisku sinni. Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru fylgjandi aðild verða ekki kúgaðir til að greiða atkvæði gegn samvisku sinni. Fiskistofnanir eru mikilvæg auðlind. Rúmlega 160 útgerðaraðilar eiga allan kvótann og ráða auðlindinni. Hvað skyldu það vera margar fjölskyldur í landinu, Páll, sem eiga allan kvótann? Hvað skyldu mörg hundruð milljarðar hafa farið úr greininni í aðrar greinar hér og erlendis? Er þetta að tryggja forræði yfir náttúruauðlindum þjóðarinnar? Sjálfstæðisflokkurinn hefur túlkað lög um fjárfestingu erlendra aðila í orkuiðnaði með þeim hætti að nú hefur kanadískt fyrirtæki með skúffu í Svíþjóð haslað sér völl hér á landi. Er þetta að standa vörð um náttúruauðlindir?? Í ESB eru 27 ríki. Öll helstu ríki Evrópu. hefur Páll orðið var við það í t.d. dönskum blöðum að landið byggi við ólíðandi skerðingu fullveldis? Eða í hinum ríkjunum 26? Fiskveiði stefna ESB byggir á veiðireynslu. Hér eru ekki mið með sameiginlegri veiðireynslu margra þjóða. íslendingar hafa einir veiðireynslu. Eins og ævinlega þarf að semja um flökkustofna. Einnig þarf að semja um fjárfestingar útlendinga í útgerðarfyrirtækjum. Eðlilegt er að réttur sé gagnkvæmur að mestu leyti. Landbúnaður nýtur meiri styrkja en almennt gerist í ESB. Færa má rök fyrir því að slíkt sé eðlilegt. Landið er á norðlægum slóðum og skilyrði öll erfið. Eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins er það eitt ljóst að flokkurinn er að einangrast og möguleikar hans verða færri. Áhrif hans á landsmálin fara dvínandi. Í sveitastjónarkosningum steig leikari fram á sviðið og hrifsaði völdin af flokknum. Ef flokkurinn tekur ekki til í sínum ranni og losar sig við spillt og siðblint forystulið mun leikurinn endurtaka sig í næstu Alþingiskosningum.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 11:49
Hrafn, ég veit ekki betur en Bretar og Þjóðverjar hafi heilmikla "veiðireynslu" á Íslandsmiðum, það er ekki langt síðan þeir voru hér uppi í landsteinum.
Hverju verðum við bættari með því að flýja íslenska spillingu í faðm spillingarinnar í Brussel?
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 16:08
Er þetta málið Þorgeir, viljið þið Palli ekki kjósa um ESB samning vegna þess að þið eruð hræddir um að fólk kjósi ESB aðild vegna íslenskrar spillingar? Ég vil endilega sjá hvað ber í skauti að fá aðild að ESB, áður en ég segji nei. Mér þykir það einnig frábært að þið séuð svona duglegir að tala um ESB, enda er umræðan mikilvæg. Gallinn við umræðuna í dag er hins vegar sú að enginn virðist virkilega vita hvað aðild þýðir, og þess vegna vill ég semja við ESB.
Bjarni (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 17:37
Hvaða tryggingar geta ESB fíklarnir lagt fram að aldrei verður átt neitt við þær mörgu undanþágur sem þjóðin krefst og samningurinn hlýtur að þurfa að hljóða uppá?
Aftur á móti er eitthvað afar ógeðfellt við að ganga inn í samfélag þjóða uppá einhverja leyndarsamninga og hrossakaup, sem er ávísun á spillingu eins og hún gerist mest. Það eitt segir að menn skuli fara afar varlega, því að ekki eigum við aðra samningamenn til að dreifa en Icesave snillinga eins og Svavar Gests og Indriða Þorláks.
ESB er sundurétið af spillingu, svo varla fer þjóðin að velja meiri ESB útlenda spillinguna í stað minni innlendrar.
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.