Þorsteinn kvabbar á krónunni

Fjármálaráðherra sagði í vikunni að guði sé lof að við höfum krónuna til að takast á við vanda hagkerfisins í kjölfar hrunsins. Þorsteini Pálssyni fyrrum ráðherra  svelgdist á við orð Steingríms J. og skrifaði andmæli á leiðaraopnu Fréttablaðsins í dag. Kjarninn í málflutningi Þorsteins er þessi

Veikleikinn í kenningu fjármálaráðherrans er hins vegar sá að í opnu alþjóðlegu hagkerfi eru það erlend markaðsöfl sem ráða gengi krónunnar. Reynslan hefur sýnt að stjórntæki Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar duga ekki til þess. Pólitískt fullveldi yfir krónunni fæst aðeins með því að loka hagkerfinu eins og gert er um þessar mundir með gjaldeyrishöftum.

Allir gjaldmiðlar í opnu alþjóðlegu hagkerfi eru háðir markaðsöflum. Evran tók dýfu í vikunni og þrýstingar var á dollarann í vetur. Þorsteinn stillir málinu upp þannig að fyrst við getum ekki alfarið stjórnað gengi krónunnar verðum við að varpa henni fyrir róða. 

Við stöndum margfalt betur með eigin gjaldmiðil sem dregur dám af stöðu íslenska efnahagskerfisins fremur en að taka upp mynt sem lýtur hagsveiflum stórþjóða eins og Þýskalands.

Þorsteinn er aðildarsinni og kvabb hans er að skoða í því ljósi. Hann segir krónuna valda óstöðuleika sem vitanlega er rugl enda þarf ekki annað en að gjóa augunum til Evrópu til að sannfærast um að gjaldmiðlar sem slíkir valda hvorki né stöðva óstöðugleika. 

Ef við skiptum út krónu fyrir annan gjaldmiðil, norska krónu, jen, svissneskan franka, dollara eða evru gefum við frá okkur forræði á peningamálum ríkisins. Rök Þorsteins eru að Íslendingum sé ekki treystandi til að fara með eigin mál. Um fimmtungur þjóðarinnar er þessarar skoðunar. Við höfum séð það svartara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þessi aðför að krónunni vekur athygli. Hverjir stofnuðu til umræðunnar og hvað gengur þeim til?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.5.2010 kl. 16:08

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Kannski, þegar upp er staðið, sætta Íslendingar sig við að lifa í "lokuðu" hagkerfi, með áframhaldandi gjaldeyrishöftum.

Gjaldeyrishöftin eru lykilinn af því að stýra gengi krónunnar.  Samt tekst þeim ekki að koma í veg fyrir glæpsamlega tilburði fyrrum bankasnillinga við að raka til sín fé og sveigja sér fram hjá lögunum.

Kannski fögnuðu Íslendingar "ásættanlegri" afkomu Arion banka 12 milljarða hagnað, þar af 10 milljarða vegna gengishagnaðar!!  Kannski voru það sömu Íslendingar sem fögnuðu frábæru gengi Landsbanka á 2.ársfjórðungi 2008 75 milljarða hagnað, sem var nær eingöngu borinn upp af þessum margumrædda gengishagnaði.

Það hefur aldrei verið hægt að skýrgreina "stöðugleikatímabil" í íslenskri hagsögu, án "gengisafréttarans" margumrædda.

Ertu búinn að gleyma þegar þú vaknaðir einn morguninn við fréttir. "Gengið var fellt um 10% í morgun"  svo leistu út um gluggann og sást háttsettan stjórnsýslumann aka í burtu á nýrri bifreið, sem keypt var 10 mínútum fyrir gengisfellingu.

Nei kæri Páll, ég er hrædd um að öndunarvél íslensku krónunnar sé komin á leiðarenda.   

Það hefur sýnt sig að íslensk stjórnvöld kunna ekki að fara með forræðið á gjaldmiðlinum, til lengri tíma.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 8.5.2010 kl. 16:28

3 identicon

Ef krónunni yrði skipt fyrir alþjóðlegan gjaldmiðil, yrði að tryggja almennilega hagstjórn hérlendis. Dæmið með Grikki sýnir að evran er bara tæki sem ekki kemur í staðinn fyrir hagstjórn og ábyrga stjórn á ríkisfjármálum. Þorsteinn er því þvert á móti að lýsa yfir trú sinni á því að "Íslendingum sé [] treystandi til að fara með eigin mál" innan evrusvæðisins.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 16:31

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Jenný, gjaldeyrishöftin voru sett af illri nauðsyn. Og braskið og gengishagnaðurinn er bara brotabrot á móti þeim skell sem þjóðarbúið yrði fyrir ef höftunum yrði aflétt. 100% gengisfall er ekki ólíklegt svo enn um sinn munum við hafa krónuna í önduarvél haftanna. Ekki af því það sé besti kosturinn, heldur af því það er eini kosturinn og hefur ekkert með hagstjórn að gera

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.5.2010 kl. 16:44

5 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Jóhannes, veit ég vel, ill nauðsyn.  Þessi yfirvofandi skellur, er tilkominn vegna þess að raungengi krónunnar var haldið uppi af loftbólu auk glórulausri peningastjórn Seðlabanka.  Ég er nú ekki svo svartsýn að halda að gengið muni falla um 100% verði höftin rofin, (eru ekki jöklabréfin greidd í topp) en illu heilli hafa þau hamlað ýmis konar glæpastarfsemi, og/eða afhjúpað aðra.

Reyni að horfa á hagfræði eins og jarðfræði.  Núið er búið og gert, spurningin er hversu mörgum jarðskjálftamælum getum við plantað í framtíðinni, til að vara við næstu katastrófu.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 8.5.2010 kl. 17:03

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæl Jenný, betur ef allir væru jafn fölskvalausir og þú   Og kannski er meira til í samanburðinum á milli jarðfræði og hagfræði en virðist við fyrstu sýn. Alla vega eru þar að verki kraftar sem sérfræðingarnir skilja ekki og geta illa spáð fyrir um

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.5.2010 kl. 17:24

7 identicon

Það sem Evru-sinnar sleppa iðulega að nefna er að við upptöku Evru afsölum við okkur stjórn peningamála. Við það fer valdið til að hamla verðbólgu yfir til Seðlabanka Evrópu. SE mun ekki hækka vexti (sem eru eitt aðal tækið til að slá á verðbólgu) þó verðbólga fari af stað á litla Íslandi ef hún er lág annars staðar. Hættan er því sú að verðbólgan fari af stað hér og ekkert verði að gert. Ef (þegar) þetta verður að veruleika þá mun verðbólgan éta börnin sín og skaða íslendinga meir en íslenska krónan. Hugsa verður málið til enda en ekki tala bara í fyrirsögnum eins og margur fjölmiðillinn kemst upp með.

Ég er sammála Páli að þessu leiti, íslenska krónan þjónar okkur best. Hætta verður þessum sífelldu árásum á hana eins og m.a. viðskiptaráðherra hefur orðið uppvís að. Það gengur ekki að ráðamenn þjóðarinnar grafi undan stoðum efnahagslífsins með þessum hætti.

Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 18:07

8 identicon

Krónan á sínar mjög svo slæmu hliðar, um það þarf vart að deila.  Smæð hennar er og verður erfitt mál.  En gætu nú sveiflur í gengi hennar í gegnum tíðina ekki samt stafað af einhverju öðru líka.  Hvað um afar fáar undirstöður undir tekjuöflun þjóðarinnar.  Hvaða aðferðir höfum við haft til að koma út í þjóðfélagið aflabresti til dæmis.  Hver getur borið skaðann af því annar en þjóðin sjálf.  Ekkert tæki er betur til þess fallið að dreifa hallæri yfir þjóðina og minnka þar með skaðann eins og hægt er.  Það sama á við um góðærið.  Gjaldmiðill dreifir því á mjög virkan hátt út meðal landsmanna.  Auðvitað væri frábært fyrir t.d. ríkisstarfsmenn að fá sínar evrur hvað sem tautaði og raulaði með afkomu þjóðarbúsins.  Þyrftu ekki að draga saman seglin á nokkurn hátt, að vísu yrðu þeir einhvernveginn að losna við vælið í hinum atvinnulausu en kannski mætti setja tappa í eyrun eða góða músík í Ipodinn.

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 21:12

9 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Nákvæmlega Elvar, undirstöðuatvinnugreininni var lengi vel haldið uppi með "skattlagningu" á þjóðina.  Það hét ekki skattlagning, það hét gengisfelling!

Áhrifarík, dreifð skattlagning til þess að rétta við undirstöðuatvinnugreinina.

(sem var svo gefin í formi happdrættisvinnings til fáeinna útvalda)

Þetta verkfæri "krónan" með öllum sínum "sveigjan og teygjanleika" var nýtt að ýtrustu mörkum, að viðbættri " verðtryggingu" sem hvergi þekkist á byggðu gjaldeyrisbóli.

Ææ æ æ æ ef fleiri gætu aðeins séð ljóstýruna sem fælist í smá stöðugleika og  möguleika fólks á að gera fjárhagsplan a.m.k. 5 ár fram í tímann, sem stæðust!

Það er einfaldlega  ekki heilbrigt; að fólk á fimmtugs og sextugsaldri, skuli enn sitja í 60-120% veðsettri eign.  Það er katastrófan!     

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.5.2010 kl. 04:27

10 identicon

Jenný. Við viljum að sjálfsögðu öll stöðugleika. Hann fáum við ekki með pappír, heldur raunverulegum verðmætum, framleiðslu á sem fjölbreyttastan hátt, útflutningi eða þess sem kemur í stað innflutnings. Undirstöðuatvinnugreininni var aldrei haldið uppi með pappír, heldur hélt hún uppi þjóðinni og pappírnum eftir föngum. Aflabrestur kom niður á þjóðinni og pappírnum líka, eðlilega og nauðsynlega. Minni á að við urðum ein ríkasta þjóð í heimi á þessum tíma þótt við höfum klúðrað því á fáeinum árum og ástæðan fyrir þessum skuldavanda heimilanna er nú talsvert flóknari en þú gerir ráð fyrir, held ég og ég væri sannarlega til í líka að við stjórnuðum betur mörgu hér á landi og hefðum meiri aga. Það er stríðið sem við erum í. Hókus pókus aðferðir eins og annar gjaldmiðill dræpi okkur endanlega eins og staðan er.

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 9.5.2010 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband