Ingibjörg Sólrún, Davíð og Samfylkingin

Næst á eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var Davíð Oddsson var áhrifamesti stjórnmálamaðurinn í Samfylkingunni frá stofnun. Forysta flokksins og þinglið kenndi formanni Sjálfstæðisflokksins um ófarirnar í fyrstu þingkosningum Samfylkingarinnar árið 1999, þegar breiðfylking vinstrimanna náði aðeins 26,8 prósentum atkvæða.

Sameining Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista átti að leiða til mikilla breytinga í íslenskum stjórnmálum, sambærilegum þeim sem urðu við sigur R-listans í höfuðborginni 1994. Vonbrigðin með niðurstöðuna nístu inn að beini. Miklu hafði verið kostað til, flokkar með langa og merka sögu voru komnir á öskuhaugana, forystumenn féllu útbyrðis og klofningsdraugur vinstrimanna gekk aftur með stofnun Vinstri grænna.


Undir þessum kringumstæðum var hætta á borgarastyrjöld innan Samfylkingarinnar ef flokkurinn hefði tekið sjálfan sig til endurmats að loknum kosningum sumarið 1999. Traust á milli manna risti grunnt.

Einfaldara og sársaukaminna var að kenna Davíð Oddssyni forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins um kosningaósigurinn. Í samfylkingarkreðsum var sögunum um ofríki Davíðs haldið á lofti og völd hans ýkt úr hófi til að ríma við kenninguna um að hann bæri höfuðábyrgð á niðurlægingu Samfylkingarinnar. Rauður þráður í samsæriskenningunni var að Davíð hefði hamast á Samfylkingunni í kosningabaráttunni en látið vel að Vinstri grænum.


Minnst af umræðunni kom upp á yfirborðið í blaðagreinum eða umræðum á opnum fundum. Orðræðan um tapið í kosningunum var sjálfhverft hópefli og grýlan sem hélt flokknum saman var formaður Sjálfstæðisflokksins. Skortur á sjálfsgagnrýni og stöðumati að loknum kosningum leiddi flokkinn úr einu klúðrinu í annað.


Þegar kom að kosningum vorið 2003 fór Samfylkingin ekki í framboð til að fá umboð frá kjósendum til að fara með landsstjórnina heldur fór hún í framboð gegn Davíð Oddssyni.


Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur 9. febrúar skilgreindi kosningabaráttuna. Ingibjörg Sólrún var forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, eftir að framsóknarmenn og vinstri grænir boluðu henni úr stól borgarstjóra þegar hún ákvað með skömmum fyrirvara að taka sæti á lista Samfylkingarinnar.


Í Borgarnesræðunni líkti Ingibjörg Sólrún stöðu Samfylkingarinnar við Kvennalistann 1983 og Reykjavíkurlistann 1994. ,,Og núna liggur eitthvað í loftinu og það er okkar verkefni í Samfylkingunni að breyta því úr óræðum væntingum í orð og athafnir,“ sagði hún en tókst ekki að fylgja eftir ætlun sinni um að túlka nýja framtíðarsýn félagshyggjufólks. Flokkshugsunin var henni of töm, minningin um tapið 1999 of sár.


Þjóðfélagsgreiningin sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar lagði upp var endurómur af þráhyggju flokksins gagnvart Davíð Oddssyni. ,,Finnst [fólki] nóg komið af afskiptum stjórnarráðsins af fyrirtækjum og fjármálastofnunum landsmanna?“ spurði oddviti breiðfylkingar vinstrimanna, líkt og það væri brýnt viðfangsefni félagshyggjuflokks að bera blak af kaupsýslumönnum og bönkum.

Sérstakt faðmlag frá Ingibjörgu Sólrúnu fengu þrjú fyrirtæki: Kaupþing, Norðurljós, sem þá var í eigu Jóns Ólafssonar, og Baugur. Ástæðan fyrir dálætinu var að Davíð hafði gagnrýnt þessi fyrirtæki. Norðurljós og Baugur sættu á þessum tíma opinberri rannsókn og Ingibjörg Sólrún dró í efa að málefnalegar ástæður lægju að baki. Bæði þá og síðar fer Ingibjörg Sólrún býsna nálægt því að segja embættismenn lögreglu- og skattayfirvalda spillta, þeir vinni ekki rannsóknir faglega og með rökstuddan grun að leiðarljósi heldur láti Davíð Oddsson segja sér fyrir verkum.

 


Davíð Oddsson er hættur í stjórnmálum og getur ekki lengur þjónað því hlutverki að vera grýlan sem Samfylkingin sameinast gegn. Þá reynir á hvaða pólitík flokkurinn getur sammælst um.
Í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í haust gætti sjónarmiða hjá formanni Samfylkingarinnar sem eru í takt við sígilda vinstristefnu jafnaðar og réttlætis. Hún kvað vaxandi efnahagslegan ójöfnuð vega að íslensku samfélagi. Eftir það sem á undan er gengið á Ingibjörg Sólrún nokkur dagsverk fyrir höndum að sannfæra almenning um að Samfylkingin sé í raun jafnaðarmannaflokkur.

(Stytt tímaritsgrein frá 2006, greinina má lesa í heild hér.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Oft velt því fyrir mér hvernig það getur verið pólitísk skoðun að vera á móti, því eins og þú segir þá stjórnar mótherjinn þínum skoðunum en ekki þú. Auk þess legg ég til að þjóðin stígi fram og byðjist afsökunar á hruninu ,hún kaus jú þessi séní. Að lokum ein sannindi; 1903 skrifaði fjármagnseigandi bók og þar er þessi setning "Besta fjárfesting sem til er vega þess að hún krefst hvorki andlegrar né líkamlegrar vinnu er að að eiga stjórnmálamann" 

Kveðja 

Ingi

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband