Sunnudagur, 18. apríl 2010
Uppgjör endurskírt múgsefjun
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður segir afsögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins vera dæmi um óhugnanlega múgsefjun í samfélaginu. Þorgerður Katrín gerði ekkert rangt, segir Sigurður, og allt sé í sóma þótt eiginmaðurinn hafi nýtt sér þau starfskjör sem voru í boði í Kaupþingi, - niðurfelling skulda þar á meðal.
Embætti í stjórnmálaflokki er ekki eign þess sem það situr. Tiltrú, traust og trúverðugleiki eru atriði sem stjórnmál geta ekki verið án til lengdar. Þökk sé Sigurði G. og öðrum meðhlaupurum útrásar tókst auðmönnum að blekkja bæði stjórnmálamenn og almenning um að veldisvöxtur peninganna væri það eina sem skipti máli. Margri trúðu og standa núna slyppir og snauðir og með orðsporið í göturæsinu.
Huggunarorð Sigurðar G. gæti Þorgerður Katrín alveg verið án. Sigurður G. er eftir allt fyrrum talsmaður Jón Ólafssonar í Skífunni og Jóns Ásgeirs Baugsstjóra. Sefjunin sem Sigurði G. verður tíðrætt um er ekki múgsins heldur hrunverjanna sem stunda sjálfsefjun að hætti siðblindra og finna sök hjá öllum öðrum en sjálfum sér.
Athugasemdir
Sigurður er viðbjóðsleg mannvera.
Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 21:57
Nú er gott að eiga fjölmiðil.
Búið er að gangsetja hitt hirðskáld Jóns Ásgeirs, Gunnar Smára Egilssonar, en hann kallast á við Sigurð G. af Stöð 2.
Þetta er helsjúkt samfélag. 365 enn í eigu bankaræningjans en Mogginn enn í ritstjórn hrunda einræðisherrans.
TH (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 22:31
Ég er nú oft ósammála þér en nú get ég tekið undir orð þín - betra fyrir alla að vera án huggunarorða frá Sigurði G. G.
Það er nú ekki bara Sigurður G. sem talar um múgsefjun - hann gerði það líka formaður skilanefndar Glitnis, Árni "einhversson", það væru nú ábyrgðarhluti að kæra menn til saksóknara. Spurði ekki Megas "Skyldi manninum ekki þykja vont að láta krossfesta sig?" Þeir gjaldþrota geta staðfest svona svipað hvort það er gott eða vont en enginn verður sakfelldur bara við að verða skoðaður af saksóknara!
Ragnar Eiriksson (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 22:32
Sem betur fer hlusta ekki margir á Sigurð G. og enn færri taka mark á þeim manni. Mig grunar að Þorgerði þyki ekki glæsilegt að fá "stuðning" frá honum.
Hvort Þorgerður er tæknilega sek kemur í sjálfu sér ekki málinu við. Hún var kosin á þing af sínum kjósemdum og ber því siðferðilegar skyldur gagnvart þeim og allri þjóðinni.
Það er ekki von að Sigurður G. átti sig á því, siðferði er ekki til í hanns orðaforða.
Gunnar Heiðarsson, 18.4.2010 kl. 22:53
Þorgerður braut ekki lög það ég best veit. Hún kom sér hins vegar í þá stöðu að ekki mátti mikið út af bera til að hagsmunir hennar yrðu aðrir en þjóðarinnar. Það hefur síðan verið leitt í ljós, að í aðdraganda hrunsins var hún ófær um að taka hlutlægar ákvarðanir sem ráðherra og starfa þjóðinni til heilla.
Við munum áreiðanlega eftir ummælum hennar, sem starfandi forsætisráðherra, þegar erlendur gagnrýnandi bankanna og íslensks efnahagslífs var sagður svo illa að sér um íslenska "efnahagsundrið", að réttast væri að hann endurmenntaði sig. Þarna voru hagsmunir hennar farnir að bera dómgreind hennar ofurliði. Hún á því ekkert erindi á Alþingi eða í trúnaðarstöður á vegum almennings.
Þar að auki má gera því skóna, að hún hafi vitað miklu meira um það, að hverju dró í íslensku efnahagslífi og það miklu fyrr en aðrir. Mætti rannsaka það sérstaklega.
Þá þarf í rauninni að skoða mun betur hve mikla fjármuni og gjafir íslenskir ráðherrar hrunstjórnarinnar þáðu frá bönkum og fyrirtækjum útrásaraumingjanna. Grunar mig að þegar kurlin fari að safnast til grafar komi í ljós að margir hafi þeir verið handbendi þeirra með einum eða öðrum hætti.
Hrímfaxi (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 07:09
Sorgleg ummæli, Sigurðar "skuldabréfasemjara", sem ætti að hafa vit á því að hafa sig hægan í umhverfi sem er að reyna að ná áttum.
Þeir tveir Sigurður og Ólafur Ragnar, eru eiginlega að toppa skandallista undirritaðrar þessa dagana.
Vill ekki Sigurður G gera betrun, ganga á fund ÓRG og ráðleggja honum heilt!
Sumir haga sér eins og það verði enginn morgundagurinn!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 19.4.2010 kl. 07:27
Var að hlusta á Stefán Einar siðfræðing á Bylgjunni rétt í þessu. Hann benti á orð sem fyrrverandi nóbelshafi og fórnarlamb Nasista sem sagði eitthvað á þessa leið: Illska er ekki það versta heldur andvaraleysi góðra manna sem ekki koma í veg fyrir hana.
Þeir Ráðherrar sem voru í Ríkisstjórn við hrun eiga allir að segja af sér. Sömuleiðis þau sem voru í framvarðarsveit og aðhöfðust ekki. Grasrótin þarf svo að líta í eigin barm. Hér áttu sér stað gífurleg siðrof í Íslensku samfélagi sem aðallega byrtist í andvaraleysi og meðvirkni.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 19.4.2010 kl. 08:54
Afskaplega er þessi umræða undarleg.
Vitanlega eiga allir hrunrráðherrarnir að segja af sér.
En það er ekki nóg:
Allir STYRKÞEGARNIR þurfa að gera það líka. Bæði á þingi og i borgarstjórn.
Dagur B þáði t.d. sex milljónir í "styrki" á einu ári af glæpalýðnum.
Braskarar á borð við Árna Þór Sigurðsson verða einnig að segja af sér.
Ég verð að segja að mig undrar það geðleysi sem almennir flokksmenn í flokkunum fjórum sýna af sér. Auðvitað á þetta fólk að rísa upp gegn spillingunni og krefjast þess að hinir spilltu víki.
Hvað er þetta fólk að hugsa?
Þorir það engu?
Er það svona meðvirkt?
Karl (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 09:10
Það er augljóst að siðgæðiskennd alþingismanna verður að koma utanfrá. Nú eru þrír búnir að axla sín skinn, en..
"Í þágu flokksins míns og tímabundið." Hvað breyttist? Ég veit ekki til að siðareglum hafi verið breytt allan þann tíma sem þetta fólk sagðist ekki sjá ástæðu til að hafa áhyggjur af mistökum eða glópsku.
En þjóðin bíður í ofvæni eftir viðbrögðum margra þessa næstu daga.
Árni Gunnarsson, 19.4.2010 kl. 17:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.