ESB-sagnfræðingur í RÚV-ESB

Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur er á launum hjá Evrópusambandinu að endurskrifa söguna. Aðalmarkmið Guðmundar er að skrifa út úr sögunni fullveldi þjóða og setja í staðinn samevrópska vitund inn í þjóðarsögu.

Í Víðsjá RÚV-ESB var Guðmundur í viðtali í dag. Meðal gullkorna sem flutu úr munni ESB-sagnfræðingsins var að Frakkar og Þjóðverjar komust að því eftir seinni heimsstyrjöld að endurskrifa þyrfti söguna. Íslendingar hefðu misst af þessari lexíu og væru þess vegna afbrigðilegir.

Samkvæmt Guðmundi eigum við fórna fullveldi okkar vegna þess að Frakkar og Þjóðverjar hafa ákveðið það. Guðmundur hlýtur að vera samfylkingarmaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu til í að rökstyðja þetta aðeins betur.  Ég hélt að laun Guðmundar væru greitt úr ríkiskassanum eins og gengur og gerist með háskólakennarar. Nú hef ég lesið eitthvað eftir þennan ágæta fræðimann og fæ ekki sé hvernig hann reynir að skrifa fullveldið úr sögu þjóðarinnar. Úr því að þú gefur þig út fyrir að vera blaðamaður, geri ég þær kröfur til þín að þú útskýrir mál þitt betur. Kannski er ein ástæðan fyrir stöðu þjóðarinnar að íslenskir blaðamenn eru hæfari í að skreyta sig í fyrirsögnum sem eiga svo enga stoð í blaðagreininni sjálfri. Sbr. ESB-sagnfræður bla bla bla.

Hörður Hinrik Arnarson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 18:05

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Hörður Hinrik, Guðmundur hefur um árabil verið á stórum styrk frá Evrópusambandinu. Held reyndar að hann segi sjálfur frá styrkum á heimasíðu sinni.

Páll Vilhjálmsson, 5.2.2010 kl. 18:14

3 identicon

Blessaður Páll

Ég get alveg fullvissað þig um að ég er ekki á launum hjá ESB heldur hjá íslenska ríkinu. Ég er einn af aðalstjórnendum rannsókarverkefnis sem styrkt er af 6. rammaáætlun ESB, sem þú áttir reyndar hlut í að kynna sem kynningarfulltrúi RANNÍS, en hef engra launa notið af honum. Ég veit ekki hversu vel þú hefur kynnt þér þær evrópsku rannsóknaráætlunir sem RANNÍS hefur haft milligöngu um að stýra fyrir Íslands hönd, en í þeirri áætlun sem hér um ræðir eru engin laun greidd til þátttakenda.

M.b.k.

Guðmundur

Guðmundur Hálfdanarson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 18:55

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Guðmundur og þakka þér að upplýsa málið. Þú myndir í leiðinni kannski vera svo vinsamlegur að útskýra nánar greiðslur frá sjóðum Evrópusambandsins til styrkþega.

Páll Vilhjálmsson, 5.2.2010 kl. 19:02

5 identicon

Ég ætla ekki að munnhöggvast við þig Páll, hvaðan Guðmundur fær saltið í grautinn. Fann reyndar ekki heimasíðu hans en á háskólasíðunni kemur fram að hann situr í fagráðum sem tengjast rannsóknum á sögu Evrópu sem og sögu Norðurlandanna. 

Innlegg þitt gefur í skyn að hann sé óheiðarlegur fræðimaður. Markmið Guðmundar er að skrifa út fullveldi þjóða. Að mínu mati hafa rannsóknir Guðmundar birt nýja sýn á sögu okkar ágætu þjóðar síðastliðinn 200 ár og þar held ég að fræðimenn séu undantekningalaust sammála. Grunnhugtök eins og þjóð, þjóðerni og fullveldi hafi á síðustu 20 árum fengi dýpri og flóknari merkingu en gamla góða skilgreining Jónasar frá Hriflu á þessum orðum. 

Að enda svo á eftirfarandi í greininni Samkvæmt Guðmundi eigum við fórna fullveldi okkar vegna þess að Frakkar og Þjóðverjar hafa ákveðið það. Guðmundur hlýtur að vera samfylkingarmaður. Ég hlustaði fyrir tilviljun á þetta viðtali í dag og fann enga tengingu um að við ættum að fórna fullveldi af því Frakka og Þjóðverja hafi ákveðið svo . . . og enda  svo með 2007 stíl og stimpla manninn Samfylkingarmann segir mér að lítið hefur breyst í þessu samfélagi okkar og að hæst gellur í tómri tunnu.

Þeir sem básúna mest um ást sína á þjóðinni og fullveldinu eru ekki endilega sjálfskipaði ástvinir þjóðarinnar. Við höfum góð dæmi frá Þýskalandi fyrir hart nær 80 árum að svo sé ekki.

Hörður Hinrik Arnarson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 19:28

6 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Hörður Hinrik, ný sýn á sögu þjóðar verður ekki keypt með ESB-peningum þótt þú og félagi Guðmundur haldi annað. Ekki frekar en Komintern gæti krafist að Íslendingar skildu sögu sína á annan veg en reynslan kenndi þeim.

Imbaspeki eins og þessi: ,,Grunnhugtök eins og þjóð, þjóðerni og fullveldi hafi á síðustu 20 árum fengi dýpri og flóknari merkingu," gefur sér að fólk sé fífl sem haldi að fjármagnaðar kennisetningar séu sannar vegna þess að sá sem splæsir sé stórt nafn.

Smáþjóðum sem er annt um framtíð sína er mikilvægt að hafa forræði á eigin málum. Þessi staðreynd kemur vemmilegri ást ekkert við heldur er þetta blátt áfram niðurstaða af fenginni reynslu.

Páll Vilhjálmsson, 5.2.2010 kl. 19:46

7 identicon

Þakka þér fyrir Páll. 

Þetta var frumraun mín á blogginu. Líklega verða þetta einnig endalokin. Ég viðurkenni hafa gleypt þessa Imbaspeki, standi í sérstöku félagi með Guðmundi um kaup á söguskoðunum og gef mér að fólk sé fífl enda sé stór aðili sem fjármagnar þessar "sönnu" kennisetningar.

Þarf einnig að viðurkenna að konan mín hefur alltaf rétt fyrir sér en hún setti upp stórt bros þegar ég ákvað að svara blogginu þínu.

Kveð um aldir og ævi.

Hörður Hinrik Arnarson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 20:41

8 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Veröldin er hranaleg, Hörður Hinrik, einkum þegar nokkuð er í húfi.

Páll Vilhjálmsson, 5.2.2010 kl. 20:44

9 identicon

Blessaður Páll

Ég verð að viðurkenna að það kemur mér á óvart að ég þurfi að fræða þig um hvernig styrkjum rammaáætlana ESB og EES er háttað, því að ég hélt að þú hafir þegið laun í alllangan tíma fyrir að kynna rannsóknarsamstarf Íslendinga og þér hefði því átt að vera fullkunnugt hvernig kaupin gerast á þeirri eyri. Það er sök sér að þeir sem ekki hafa komið nálægt þessum málum sjái ofsjónum yfir styrkveitingum til rannsókna, en þeir sem nær standa eiga að vita betur. En ég get svo sem upplýst það að það öll þau verkefni sem ég hef átt aðild að eru tengslanet þar sem greiddur er beinn kostnaður vegna vinnufunda og ráðstefna, en vinnuframlag er í sjálfboðavinnu eða greitt af öðrum. Enginn hefur orðið feitur af þeim styrkjum, a.m.k. ekki undirritaður, en margir hafa lært ýmislegt gagnlegt af slíku samstarfi. Ég kveinka mér ekki undan því að þú dragir málflutning minn í efa, eða að þú mótmælir skoðunum mínum og niðurstöðum, en mér þykir verra þegar þú gefur í skyn að skoðanir mínar og niðurstöður séu keyptar. Það getur vel verið að veröldin sé hranaleg, en það afsakar ekki tilefnislausan rógburð um náungann.

Guðmundur Hálfdanarson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 22:13

10 identicon

Sæll Páll

Þessi bloggfærsla, en ekki síður hinar fyrri,  eru kannski tilefni til að upplýsa okkur aðdáendur síðu þinnar undandráttarlaust hvaðan þú hefur sjálfur haft framfærslu þína t.d. 2008 og 2009?

Jóhannes (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 22:36

11 identicon

Semsagt.  Evrópuskrímslið greiðir ENGUM þeirra dyggu æðstupresta fyrir að bera út fagnaðarerindið.  Tunglið ku vera úr Óðals osti.  En hvað skyldi bíða þeim þegar þeir komast loksins til Evrópuparadísar?  19 hreinar meyjar?

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 22:57

12 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Evrópusambandið fjármagnar endurskrif á sögu sinni og Guðmundur Hálfdanarson þiggur stuðning þaðan. Eins og Guðmundur H. bendir á í þessari færslu, og hefur áður sagt undir dulnefni frá sömu ip-tölu, þá var ég starfsmaður Rannís í rúman áratug. Og það svarar sömuleiðis spurningu Jóhannesar - ég var árin 2008  og 2009 starfsmaður Rannís auk þess sem ég kenndi og ræktaði garðinn minn.

Páll Vilhjálmsson, 5.2.2010 kl. 23:33

13 identicon

Öll saga er skrifuð. Allar staðreyndir eru túlkaðar. Hugtök eins og sjálfstæði, fullveldi, þjóð, etc, eru tilbúningur. Það þýðir ekki að þau séu ómerkileg, eða hafi ekkert gildi í lífi okkar í dag, en hvað þau nákvæmlega þýða breytist milli staða, eða tímabila. Það þarf ekki að fara lengra en til t.d. Frakklands og Þýskalands til að sjá muninn á því hvað "þjóð" er. Í Frakklandi snýst það um alla sem búa á svæðinu sem fylgja ákveðnum siðum og reglum. Þetta kom út úr ákveðinni þróun þar sem franska byltingin átti lykilhlutverk. Í Þýskalandi hefur þessi þróun verið með öðrum hætti, meðal annars vegna þess að ríkið í Þýskalandi er frekar nýtilkomið, en löngu áður byrjuðu "þjóðverjar" (þ.e. þeir sem töluðu sama tungumál, og ýmislegt fleira) að telja sig sem hóp. Það er ein af ástæðunum fyrir því að þýskumælandi fólk sem hafði búið í Austur-Evrópu fékk nánast strax þýskan ríkisborgararétt, en hátt í milljón Tyrkja sem hafa búið í Þýskalandi í tugi ári, og jafnvel börn þeirra og barnabörn, hafa ekki enn fengið sama ríkisborgararétt.

Hugtakið fullveldi er flókið og þýðir mismunandi hluti eftir því í hvaða samhengi og út frá hvaða forsendum það er skoðað. Sagan er aldrei fullskrifuð, það er alltaf hægt að endurtúlka út frá nýjum upplýsingum og nýjum kenningum. Það kemur flokkadráttum ekki við. 

Sólveig (IP-tala skráð) 6.2.2010 kl. 07:41

14 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sólveig skrifar af skynsemi. Hugtökin sem hún nefnir eru skilyrt af aðstæðum. Fullveldi Finna, svo dæmi sé tekið, verður skilið án samhengis við sambúðina við Rússa. Fullveldi Norðmanna verður að skilja í ljósi upplausnar sambandsins við Svía og innrás Þjóðverja í seinni heimsstyrjöld.

Íslenskt fullveldi verður ekki slitið frá reynslu okkar af því að hafa stjórnsýslumiðstöð landsins um aldir í Danmörku. Seinni hluta 19. aldar hófst stjórnmálaþróun sem leiddi til fullveldis og lýðveldis. Samhliða bötnuðu lífskjör hér á landi en fram á 19. öld hafði landið aldrei borið meira en 50 þúsund manns sem oft og tíðum bjuggu við hungurmörk.

Þegar menn eins og Guðmundur og aðrir álíka þenkjandi leggja til atlögu við skilning okkar á íslenskri sögu og hafi að vopni endurskoðun Evrópusögu eru þeir út í móa með sinn málflutning.

Síðasta setningin hjá Sólveigu, um flokkadrættina, er því miður ekki rétt. Flokkadrættir hafa áhrif á tilburði til að skilja söguna. Þegar Alþýðuflokkurinn og síðar Samfylkingin tóku upp á því að vilja Ísland inn í Evrópusambandið skriðu úr fylgsnum sínum menn sem vildu breyta söguskilningi okkar til að hann myndi ríma við kratapólitíkina.

Páll Vilhjálmsson, 6.2.2010 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband