Þriðjudagur, 23. september 2025
Viðreisn, byltingin í Kiev og ófriður á Íslandi
Úkraína er ónýtt land. Um fimmtungur landsins er hersetinn Rússum. Úkraína telur yfir milljón fallna og örkumla. Stríðið er stórveldapólitík. Evrópusambandið, með tilstyrk þáverandi Bandaríkjaforseta, Obama, vildi færa út áhrifasvæði sitt í austur, innlima Úkraínu í vestrið. Til þess þurfti að gera stjórnarbyltingu, framkvæmd í byrjun árs 2014. Einn af ræðumönnum ESB á Maidan-torginu í Kænugarði byltingardagana var Guy Verhofstadt.
Viðreisn flutti til landsins Guy Verhofstadt að messa yfir fulltrúum á landsþingi flokksins. Verhofstadt fór með sömu rulluna og í Kænugarði fyrir 11 árum, stofnum til Stór-Evrópu, ,,heimsveldis hins góða" með höfuðborg í Brussel. Austurvíkingur ESB strandaði á Rússlandi. Verhofstadt og Viðreins boða nú vesturvíking, innlimun Íslands, Grænlands og Noregs í ESB-Evrópu. Stórveldið, sem ekki mun láta sér vel líka útþenslu ESB i vestur, heitir Bandaríkin. Verhofstadt lagði áherslu á að Ísland yrði að meðtaka ESB-Evrópu í heild sinni, beygja sig undir vilja Brussel í einu og öllu. Engar undanþágur. Innifaldið í stefnu ESB-Evrópu er andstaða við bandaríska efnahags- og hernaðarhagsmuni á norðurslóðum.
Í ræðunni á Maidan-torgi útskýrir Verhofstadt að mútur og refsiaðgerðir gegn lögmætum úkraínskum stjórnvöldum muni leiða til stjórnarskipta í Kænugarði. Sem og varð raunin. Eftir 2014 var stríð milli Úkraínu og Rússlands. Bakhjarlar Úkraínu voru ESB-Evrópa og Bandaríkin. Dugði ekki til. Rússland hefur yfirhöndina í Úkraínustríðinu. Bandaríkin, undir forystu Trump, þvo hendur sínar af stríðinu, segja það ESB-Evrópu að glíma við Rússland. Trump vill stórveldapólitík og þar gerir ESB-Evrópa ekki annað en að þvælast fyrir.
Svar ESB-Evrópu við töpuðu Úkraínustríði er landvinningar í vestri og norðri. Tilfallandi greindi frá vesturvíkingi ESB:
Evrópsk hugveita, Heinrich Böll Stiftung, með um 300 manns í vinnu og rekstarfé frá ESB, gaf í byrjun júlí út skýrslu um norðursókn Evrópusambandsins. Skýrslan er í senn greining og stefnumótun - og fullkomlega í takti við ræðu von der Leyen.
Heiti skýrslunnar er Stækkun ESB í norður í sjónmáli? Frumkvæði á óvissutímum. Í skýrslunni er dregin upp áætlun um að fá Grænland, Ísland og Noreg inn í Evrópusambandið. Úkraínustríðið annars vegar og hins vegar forsetatíð Trump knýja á um að ESB nýti sóknarfæriá norðurslóðum, segir í skýrslunni. Landvinningar valdefli sambandið og gefi endurnýjaðan tilgang.
Ísland er talið lykilríki til að fá Grænland og Noreg inn í sambandið. Vísað er til þess að sitjandi ríkisstjórn Íslands sé áhugasöm um ESB-aðild. Lagt er til að ESB geri Íslandi tilboð í sjávarútvegsmálum ,,sem ekki er hægt að hafna." Orðalagið er beint upp úr mafíubókmenntum - þýðir að dauðasök sé að neita tilboði guðföðurins. ESB hefur ýmsar leiðir til að herja á íslenska hagsmuni, ekki síst í gegnum EES-samninginn.
Heimsókn von der Leyen til Íslands í síðustu viku sýnir að Evrópusambandinu er dauðans alvara að hrinda í framkvæmd áætluninni um innlimun tveggja örþjóða, Grænlendinga og Íslendinga. Í framhaldi er á matseðlinum smáríkið Noregur. Þar með kemst ESB til áhrifa á Norður-Atlantshafi, verður þar stórveldi.
Tilvitnunin hér að ofan vísar í ræðu aem von der Leyen flutti í vor í Aachen í Þýskalandi er hún veitti viðtöku heiðursverðlaunum kenndum við Karlamagnús keisara. Í ræðinni tiltekur hún að Grænland sé á matseðli ESB-Evrópu.
Orðræða ESB-Evrópu er í anda kalda stríðsins. Sama gildir um helstu málpípu sambandsins hér á landi, Þorgerði Katrínu utanríkisráðherra. Það á að heita svo að Rússland sé ógn við vestræn gildi. Þau gildi eru sjaldnast útskýrð en klifað er á einu orði, frelsi. Í kalda stríðinu var hægt að tala um ólíka hugmyndafræði, sósíalisma í einn stað og í annan stað borgaralegt lýðræði. Ekki lengur. Rússland er kannski ekki vestrænt ríki en það er heldur ekki Tyrkland svo dæmi sé tekið. Enginn efast þó um tilkall Tyrkja til að sinna öryggis- og varnarhagsmunum ríkisins. Trúfrelsi er meira í Rússlandi en Úkraínu. Ungir karlmenn flýja ekki Rússland til að komast undan herþjónustu, en þeir gera það í Úkraínu. Frelsi er ekki það sem skilur á milli Úkraínu og Rússlands. Hrá valdapólitík er á ferðinni.
Sígild stórveldapólitík hefur leyst af hólmi hugmyndafræðileg átök kalda stríðsins. Þrjú stórveldi eru í margpóla heimi. Bandaríkin eru í yfirburðastöðu, Kína kemur næst og töluvert þar á eftir Rússland. ESB-Evrópa er ekki stórveldi þótt hún láti þannig.
Tilraun ESB-Evrópu til að gera sig gildandi á norðurslóðum með innlimun Íslands, Grænlands og Noregs er örvæntingarfull tilraun til pólitískra áhrifa sem ESB-Evrópa á enga innistæðu fyrir hernaðarlega. Í heimsskipan stórvelda haldast í hendur hernaðargeta, efnahagsmáttur og pólitískur slagkraftur. Á umbrotatímum, líkt og nú, verður hernaðarmátturinn veigamestur. Þar er ESB-Evrópa dvergur, líður fyrir að hafa allt kalda stríðið látið Bandaríkin að mestu um hervarnir sínar.
Með Viðreisn í ríkisstjórn gæti Íslandi verið þvælt inn í ESB-aðildarferli sem leiðir til ófarnaðar í bráð og lengd. Við þekkjum nýliðna sögu. Nató-aðildin eftir seinna stríð klauf þjóðina í andstæðar fylkingar. Misheppnuð ESB-umsókn ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. gerði ekkert annað en að valda leiðindum - og stórfelldu fylgistapi Samfylkingar og Vinstri grænna.
Viðreisn er flokkur ESB-sinna og þeir eru margir í Samfylkingunni þjakaðir raf Brussel-glýju. Ekki verður þó sagt að reisn sé yfir málflutningi fimmtu herdeildarinnar. Þorgerður Katrín utanríkisráðherra ásakar Hjört Guðmundsson, viðurkenndan sérfræðing í ESB-málum, að fá greitt fyrir skrif sín frá ónafngreindum aðilum. Hversu lágt er hægt að leggjast? spyr Hjörtur á móti.
Lágkúrulegur málflutningur utanríkisráðherra er vísbending um hvert stefnir í umræðunni um feigðarförina til ESB-Evrópu. Við höfum fundið smjörþefinn. Það verður ófriður. Sé vitglóra í ríkisstjórninni hættir hún ESB-leiðangrinum.
![]() |
Segir Viðreisn afhjúpa sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)