Miðvikudagur, 17. september 2025
Bakslag í loftslagsvá og transi, fjölmiðlar til bjargar
Samtökin 78 tala síðustu misserin um bakslag gagnvart boðskapnum um 700 kyn, eða þar um bil, og trúarkenningunni um sálnaflakk þar sem sumar sálir rati í ranga líkama. Nú kveinkar lofslagskirkjan sér undan bakslagi, segir að æ færri trúi á yfirvofandi heimsendi. Gréta Túnberg söðlaði um, gerðist Hamas-trúboði. Litla stúlkan með loftslagsflétturnar býr ekki lengur til fyrirsagnir. Hvað er til ráða?
Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir bakslagið áþreifanlegt:
Við finnum töluvert fyrir því að það er bakslag og minni umræða um náttúruvernd og loftslagsmál heldur en hefur verið. Fólk talar um að það geti verið einhver þreyta.
Bakslag i transi og loftslagsvá á sama tíma er ekki tilviljun. Sömu pólitísku öfl bera fram kynjaveröldina og ímyndaðar veðurhamfarir. Björg Eva er sjálf talandi dæmi. Hún var fréttamaður á RÚV, síðar framkvæmdastjóri Vinstri grænna og núna í Landvernd. Bakslagið er til marks um að veruleikinn sækir heim bábiljufræði er lifir á lyginni, ekki síst þeirri sem fjölmiðlar útbreiða.
Björg Eva telur helst til bjargar að fjölmiðlar ráði innvígða úr loftslagskirkjunni sem fréttamenn. Fjölmiðlar stunda málflutning, aktívisma, ekki upplýsingamiðlun. Björg Eva ætti að þekkja það, fyrrum RÚV-arinn og síðar áróðursmaður Vinstri grænna. Sorglegt ástand íslenskra fjölmiðla er staðfest með orðum fyrrum fréttamanns.
Transið og loftslagsvá er hugmyndafræði með trúarlegu ívafi. Transið trúir á sálnaflakk, að nýburi fái ekki alltaf réttri sál úthlutað við fæðingu. Þá telur transið að á bakvið líffræðilegu kynin tvö séu frummyndir margra annarra kynja sem aðeins séu aðgengileg þeim innvígðu. Allt er þetta í heimi andans, ósýnilegt venjulegu fólk. Hinsegin vísar í trúarheim með sérstökum hugtökum s.s. kynvitund og kynama. Sértrúarsöfnuðurinn er í andstöðu við heilbrigða skynsemi almennings sem efast um að sérviskan eigi erindi í leik- og grunnskóla.
Loftslagsvá, líkt og trans, var búin til í Bandaríkjunum. Fyrirbærin eru álíka gömul, komast í umferð á síðasta áratug liðinnar aldar. Loftslagvá kennir að brennsla mannsins á jarðefnaeldneyti, einkum bensín og dísil, valdi hækkun á koltvísýringi, CO2, sem er s.k. gróðurhúsalofttegund. Mælikvarðinn er ppm. CO2 í andrúmslofti jarðar er um 400 ppm. Sveltimörk plantna, svo dæmi sé tekið, eru um 150 ppm. Kjörvöxtur plantna er við 1200-1500 ppm. Til að fá góða uppskeru er koltvísýringi dælt inn í gróðurhús. Koltvísýringur er náttúruleg lofttegund lífsnauðsynleg jarðlífinu. Um 97 prósent af koltvísýringi jarðar er náttúrulegur. Aðeins 3 prósent er manngerður. En við eigum að trúa því, sem sagt, að þessi þrjú prósent valdi hlýnun jarðar - en ekki 97 prósentin sem eru náttúrulegur koltvísýringur.
Guðni heitir maður Elísson, bókmenntafræðingur og kennir við Háskóla Íslands. Hann er einn af þeim sem ruddu veginn fyrir loftslagskirkjuna á Íslandi með blaðagreinum um yfirvofandi heimsslit af völdum mannsins. Í gær tók Guðni, fyrir hönd dóttur sinnar, við styrk frá Reykjavíkurborg. Í rökstuðningi fyrir námsstyrknum sést vel hvernig yfirvaldið, borgin, fléttar saman listsköpun og stefnumótun. Gefum Reykjavíkurborg orðið:
Steinunn [Kristín Guðnadóttir] hyggst rannsaka í meistaraverkefni sínu hvernig íslensk nútímalist vinnur með hugmyndir um loftslagsmál og hvernig slík verk varpa ljósi á skynjun samfélagsins á loftslagsvánni. Megináhersla verður lögð á sjónræna list sem tekst á við loftslagsvá og umhverfismál, það er myndlist, vídeóverk, ljósmyndun, gjörningalist og sviðslist. Verkefnið tengist einnig Reykjavíkurborg sem loftslags- og menningarborg, þar sem list og stefnumótun í loftslagsmálum mætast og móta hvort annað.
Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á því hvaða viðhorf til loftslagsbreytinga birtast í íslenskri list og hvernig þau geta haft áhrif á stefnumótun og hvatningu til loftslagsaðgerða. (feitletr. pv)
Þarna má lesa svart á hvítu að loftslagsstefna Reykjavíkurborgar er ekki byggð á vísindalegum gögnum heldur samspili listamanna og embættismanna sem hafa það meginverkefni að ljúga að almenningi að fjölskyldubílinn valdi ragnarökum. Fjölmiðlar lepja upp lygina og sé hún endurtekin nógu oft verða úr viðtekin sannindi.
Suma er alltaf hægt að plata. Stundum má blekkja alla. En ekki er mögulegt að leika á alla allan tímann. Stundaglasið er tæmt loftslagskirkjunni og transinu. Það er bakslagið.
![]() |
Skora á fjölmiðla að ráða umhverfisfréttamenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)