Þriðjudagur, 16. september 2025
Bandaríkin eru vörn Íslands gegn ESB
Ísland er á áhrifasvæði Bandaríkjanna og getur ekki orðið aðildarríki Evrópusambandsins um fyrirsjáanlega framtíð. Á meðan viðsjár eru á meginlandi Evrópu er Íslendingum farsælast að treysta á varnarsamninginn við Bandaríkin og tefla ekki í tvísýnu sambandinu við Bandaríkin.
Ofanritað er tilfallandi samantekt á nýrri skýrslu samráðshóps þingmanna um stefnu í öryggis- og varnarmálum. Stjórnarráðsstíll skýrslunnar felur meginboðskapinn. Evrópusambandið er peð í varnar- og öryggismálum. Fyrir ESB-sinna, bæði á Íslandi og í Brussel, er skýrslan reiðarslag.
Evrópusambandið hratt úr vör í sumar herferð til að gera Ísland, Grænland og Noreg að ESB-ríkjum á sem skemmstum tíma. Tilfallandi fjallaði um leiftursókn ESB, sjá hér og hér.
Skýrslan er feimin við að greina pólitískan veruleika á norðurslóðum en segir þó þetta á bls. 20:
Bandaríkin eru eina ríkið sem hefur burði til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi með fullnægjandi hætti.
Varnar- og öryggismál þjóðríkja eru í fyrsta sæti, langt á undan viðskipta- og menningarmálum og öðrum milliríkjasamskiptum. Ríki er býr við óvissu um tilvist sína, sakir ógnunar annars ríkis, lætur annað en öryggis- og varnarmál mæta afgangi.
Í skýrslunni er látið eins og Nató sé öflugt hernaðarbandalag. En það er öðru nær. Nató er í tilvistarvanda. Stærsta og öflugasta Nató-ríkið, Bandaríkin, ásælist yfirráð yfir Grænlandi sem annað Nató-ríki, smáríkið Danmörk, hefur forræði yfir. Ekkert er fjallað um það í skýrslunni. Menn nefna ekki snöru í hengds manns húsi.
Þorgerður Katrín utanríkis gengur manna fremst hér á landi að útmála Pútin og Rússland sem helsta ógnvald heimsbyggðarinnar. Orðræðan er innflutt frá Brussel en hefur gagnólíka merkingu hér á landi. Rússagrýlan á meginlandi Evrópu þjónar þeim tilgangi að þétta raðirnar hjá gömlu stórveldunum, Frakklandi og Þýskalandi og fylgiríkjum, sem þrisvar síðustu tvær aldir gerðu innrás í Rússland. Á Fróni afhjúpar Rússagrýlan fáviskuna að leita eftir ESB-aðild. Hagmunir Íslands eru að standa utan Evrópusambandsins.
Bandaríkin þvo hendur sínar af Úkraínustríðinu. ESB-Evrópa er ein um að ráða fram úr misheppnuðum vestrænum austurvíkingi með Úkraínu sem lepp. Mörg ár, ef ekki áratugi, tekur að ráða fram úr óreiðunni í Austur-Evrópu og finna nýtt valdajafnvægi milli Rússlands og ESB-Evrópu.
Utanríkisráðherra er ESB-sinni en virðist, já virðist, eitthvað vera að ná áttum. Í mars sendi hún Bandaríkjunum pillu í viðtali á RÚV vegna áhuga Trump forseta á Grænlandi. Í viðtalinu nefnir hún einnig hernaðarsamstarf við ESB. Ekkert slíkt er í skýrslunni. Í heimsókn Þorgerðar Katrínar til Grænlands fyrir tveim dögum er hún orðvarari, minnist ekki á stöðutöku Bandaríkjanna gagnvart Grænlandi.
Í þingmannaskýrslunni er heldur ekkert fjallað um togstreitu milli Bandaríkjanna og Danmerkur, sem er ESB-ríki, vegna Grænlands. Veruleikinn síast inn þótt hægt fari. Ísland hefur engin áhrif á afdrif Grænlands sem er orðið bitbein stórvelda, Bandaríkjanna og ESB-Evrópu.
Lexían sem Ísland þarf að tileinka sér hratt, ef ekki á illa að fara, er að verða ekki uppboðsríki á stórveldamarkaði. Úkraínumenn falbuðu sig stórveldum og guldu fyrir með blóði, eyðileggingu og ónýtu ríki. Grænlendingar búa eyju sem er hernaðarlegt nærsvæði Bandaríkjanna líkt og Kúba sem falbauð sig Sovétríkjunum sálugu með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Ísland er eilítið fjær stórveldinu í vestri en Grænland, samt á óformlega viðurkenndu áhrifasvæði Bandaríkjanna. Harðar valdapólitískar staðreyndir sem auðvelt er að gleyma á friðartímum en verða grimmar og ósveigjanlegar er ófriðaröldur rísa og umbrot verða í alþjóðapólitík.
Þorgerður Katrín utanríkis og ríkisstjórnin í heild ætti að horfast í augu við veruleika alþjóðastjórnmála og leggja á hilluna allar hugmyndir um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Úkraína og Kúba eru víti til að varast, ekki fordæmi til að fylgja.
![]() |
Ísland er og verður herlaust ríki: Rússar gefa í |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)