Miðvikudagur, 10. september 2025
Vinstrimenn gegn málfrelsi, Halla daðrar við ofstæki
Í vor tók stjórnarmeirihlutinn málfrelsið af alþingismönnum, beitti ákvæði í þingskaparlögum sem ekki hefur virkjað í meira en hálfa öld. Í vor var bloggara stefnt fyrir dóm af lögreglunni í Reykjavík fyrir hugsanaglæp, að gagnrýna transhugmyndafræðina. Í sumar var málfrelsið tekið af gyðingi sem fékk boð um að flytja fyrirlestur um gervigreind í Háskóla Íslands en var hrópaður niður.
Málfrelsið er ekki lengur sjálfsagt. Jafnvel blaðamenn, sem ættu að hafa það i hávegum, stefna bloggara fyrir dóm fyrir frásögn sem blaðamenn vildu ekki að yrði sögð.
Tilvikin, sem rakin eru hér að ofan, er öll með þeim einkennum að það eru vinstrimenn sem taka, eða reyna að taka, málfrelsið af þeim sem eru á öndverðum meiði.
Sögulega, frá 19du öld og fram á 21stu, voru vinstrimenn hvað ákafastir í vörn og sókn fyrir málfrelsið. Svo lítið dæmi nýlegt sé tekið voru það vinstrimenn á alþingi sem beittu sér fyrir afnámi lagaákvæðis er bannaði guðlast.
Núna eru það vinstrimenn sem krefjast að tilteknar skoðanir séu bannaðar. Samtökin 78, dæmigert lífsskoðunarfélag vinstrimanna, eru í samstarfi við lögreglu um að finna sem flest dæmi um ,,hugsanlega" hugsanaglæpi. Samtökin búa til tölfræði með kærum til lögreglu. Samstarfið er gagngert hugsað til að réttlæta strangari löggjöf um hvað má segja og hvað ekki um tiltekinn málaflokk, transhugmyndafræðina.
Hvers vegna eru vinstrimenn í fararbroddi fyrir takmörkun á málfrelsi?
Nærtæk skýring er að vinstrimenn skynja síðustu ár að dæmigerð málefni vinstrimanna standa höllum fæti í umræðunni. Svarið er kæfa umræðuna, banna óæskilegar skoðanir.
Málfrelsi og hugsanafrelsi eru tvær hliðar á sömu myntinni. Ef samfélag bannar sjónarmið og skoðanir er einstaklingum gert ómögulegt að láta í ljós hugsanir sínar með tjáningu. Frjálsum borgunum er gert að loka inn í skáp meðvitundarinnar hugsanir sínar.
Ekki er hægt að tala um lýðræðisríki þegar borgarar sæta verulegum hömlum að tjá hug sinn.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands er á hálum ís þegar hún gefur til kynna að málfrelsi og lýðræði séu andstæður, með orðunum að finna þurfi leið til ,,að tryggja í senn málfrelsi og framgang lýðræðisins." Forseta til afsökunar er hann að ræða málfrelsið í samhengi við málþóf á alþingi. Málþóf er teygjanlegra og loðnara hugtak en málfrelsi. Ítarleg útskýring eins er annars málþóf.
Óhugsandi er að lýðræði ,,fái framgang" þegar borgararnir búa við skert málfrelsi. Önnur stjórnmálaöfl en þau sem kennd eru við lýðræði þrífast ekki án ritskoðunar. Lýðræði lifir af málþóf, fasismi leyfir ekki málfrelsi.
Málfrelsi er vörn gegn hugmyndum sem standast ekki skoðun. Firrur þrífast best i þögninni.
Atlaga vinstrimanna að málfrelsinu, á þingi og í samfélaginu, er skýrt merki um að það fjarar undan vinstripólitík. Sögulega eru takmarkanir á málfrelsi settar af þeim sem fara með formleg völd en skortir traust og tiltrú almennings. Valdhafar sem stjórna með ugg og ótta eru á flótta.
![]() |
Orð forsetanna við þingsetningu vekja undrun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)