Þriðjudagur, 5. ágúst 2025
ESB hnignar, Ísland efli tengsl við Bandaríkin
Bandaríkin niðurlægðu Evrópusambandið í tollastríðinu. Rússland er á góðri leið að gera það sama í Úkraínustríðinu. Hagkerfi ESB byggði á opnum bandarískum markaði annars vegar og hins vegar ódýrri orku frá Rússlandi. Hvorugt er lengur í boði.
Evrópusambandið stendur frammi fyrir hnignun. Alþjóðakerfið sem gerði stofnun Evrópusambandsins mögulega stokkast upp. Í kalda stríðinu frá lokum seinna stríðs og falli Berlínarmúrsins gat Vestur-Evrópa selt sig Bandaríkjunum sem útvörður borgaralegs vestræns lýðræðis í austri. Eftir fall Sovétríkjanna og heims kommúnismans er ekkert sem kallar á að Bandaríkin, í gegnum Nató, sjái um varnir Vestur-Evrópu.
Dvínandi stuðningur Bandaríkjanna við Selenskí-stjórnina í Kænugarði sýnir að Washington telur ófriðinn í Úkraínu innansveitarkróníku Evrópu. Allar líkur standa til að Úkraínustríðinu ljúki á rússneskum forsendum. Sterkara Rússland og veikara Evrópusamband kallar á nýtt valdajafnvægi í heimsálfunni. Áratugi fremur en ár tekur að finna jafnvægi milli stórvelda. Ein 35 ár eru síðan Sovétríkin féllu. Rússland var talið jaðarríki framan af. Evrópusambandið, með Bandaríkin sem bakhjarl, taldi sig geta sagt hvernig Rússar ættu að sitja og standa. Það er liðin tíð.
Ekki undir nokkrum kringumstæðum ætti Ísland að ljá máls á aðild að hnignandi Evrópusambandi. Ísland yrði peð í ESB með engin áhrif. Hagsmunir Ísland sem eyþjóðar á Norður-Atlantshafi eru gangólíkir hagsmunum þjóða á Evrasíu-landflæminu. Framsal á fullveldi íslensku þjóðarinn og forræði eigin mála til Frakka, Þjóðverja og Ítala er fáránleg pólitík. Evrópusambandið er ekki í neinum færum að gera sig gildandi hernaðarlega á Norður-Atlantshafi. Evrópusambandið er ekki haldreipi í öryggis- og varnarmálum heldur þvert á móti ógn. Ísland sem jaðarríki ESB yrði skotmark óvinveittra afla sem vildu láta reyna á þolrif sambandsins.
Frá seinna stríði, þegar bandarískur her leysti af hólmi hernámslið Breta hér á landi, á Ísland í samstarfi Bandaríkin um öryggis- og varnarmál. Í gildi er varnarsamningur þjóðanna frá 1951. Á þeim hornsteini er nærtækt að byggja víðtækari samvinnu á viðsjárverðum tímum.
![]() |
Bandaríkin í vexti en Evrópa í vanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)