Sunnudagur, 31. ágúst 2025
Foreldrar kæra samstarf skóla við Samtökin 78
Lífsskoðunarfélagið Samtökin 78 hefur ekki ,,neina þá menntun eða viðurkenningu til þess að taka að sér kynfræðslu á vettvangi grunnskóla," segir í kæru foreldra vegna aðkomu Samtakanna 78 að skólastarfi í leik- og grunnskólum. Í fyrsta sinn hér á landi taka foreldrar höndum saman og biðjast undan að börnin séu mötuð á lífsskoðun Samtakanna 78 sem er á skjön við viðurkennda þekkingu og oft argasta klám.
Samtökin 78 hafa með samningum við sveitarfélög komið ár sinni fyrir borð í leik- og grunnskólum og boða skringilega hugmyndafræði um að sumir fæðist í röngum líkama og að kynin séu óteljandi. Kynlífsfræðsla Samtakanna er þess eðlis að foreldrar, sem kynna sér málið, telja ótækt að halda henni að börnum.
Foreldrar á Akureyri hafa fengið lögfræðing, Loga Kjartansson, til að reka mál sitt gagnvart bæjaryfirvöldum á Akureyri annars vegar og hins vegar menntamálaráðuneytinu.
Í erindi til Akureyrarbæjar er þess krafist að samningi við Samtökin 78 sé sagt upp. Rakin eru dæmi um kennsluefni ættuðu frá lífsskoðunarfélaginu sem ekki undir neinum kringumstæðum á erindi til barna. Þar er um að ræða kennsluefni á veggspjöldum og bókum. Í greinargerð til bæjaryfirvalda segir að þar sé að finna ,,beinlínis refsivert myndefni sem og texta og það af verulega grófum og viðurstyggilegum toga." Tilfærð eru dæmi:
fjallað um að kynlíf sé eins og upplifun í tívolíi. Þau börn sem hafa farið í tívolí er ljóst að eftir slíka skemmtiferð vilja börn þangað aftur og aftur. Samkvæmt þessu er 7-10 ára börnum bent á af fulltíða fólki, kennara í opinberu starfi, að líkja megi kynlífskönnun við tívolí. Börn eru [...] hvött eða beinlínis blekkt og nörruð inn á könnunarbraut kynlífs eins og um sé að ræða einhvern skemmtigarð. Ungum börnum er bent á sömu síðu að kanna málið betur, það geti verið skemmtilegt og stundum ógnvekjandi þegar kemur að kynlífi og kynlífsathöfnun. (feitletr. pv)
Á bls. 74-75 er efasemdarfræjum bersýnilega dreift inn í sálu og sinni barna sem lesenda þegar rætt er um hvað foreldrar kölluðu þig þegar þú fæddist. Gert er lítið úr því að kynið sé annað hvort strákur eða stelpa eins og það sé möguleiki á einhverju öðru. Á bls. 77 stendur Stundum sjá þau stóran sníp og halda að það sé typpi. Stundum sjá þau lítið typpi og halda að það sé snípur. Stundum eru þau ekki viss. (feitletr. pv)
Á bls. 126-130 er talað um sexí og æsandi, í kynferðislegri merkingu við börn á yngra og miðstigi (7-12 ára). Reynt er að snúa út úr merkingu orðsins sem þýðir kynþokkafullur. Hver talar um kynþokkafull börn á þessum aldri nema haldinn sé barnagirnd? (feitletr. pv)
Samningur Akureyrarbæjar, segir í erindinu, brýtur gegn lögmætisreglu, hlutlægnireglu og jafnræðisreglu grunnskólalaga og íslensks réttar með því að veita lífsskoðunarfélagi með vafasaman tilgang aðgang að börnum.
Foreldrahópurinn sendi einnig stjórnsýslukæru til mennta- og barnamálaráðuneytis vegna fánaflöggunar í Síðuskóla, þar sem hinsegin fáninn er að húni, og óviðeigandi samsömunar skólans við ,,hugmyndafræði og lífsskoðana" sem geta engin veginn átt erindi við börn og ,,allra síst á þeim verndarstað og þroskavettvangi sem grunnskólar teljast gildandi lögum samkvæmt."
Foreldrahópurinn á Akureyri er fyrsta dæmið um að foreldrar leik- og grunnskólabarna taki höndum saman og andmæla að lífsskoðunarfélag með vafasaman tilgang eigi aðild að skólastarfi. Dæmin sem rakin eru í erindunum sýna svart á hvítu að kyndugar hugmyndir jaðarhóps fullorðinna um kyn og kynlíf eiga ekkert erindi í heilbrigt skólastarf.
Næsta vor verður gengið til sveitarstjórnarkosninga. Í kosningabaráttunni verða flokkar og frambjóðendur spurðir um afstöðu til skólastarfs lífsskoðunarfélags með jaðarhugmyndir um lífið og tilveruna. Spurt verður hvort rétt sé að kenna börnum að kynlíf sé eins og að fara í tívolí, hvort eðlilegt sé að láta börn efast um að þau séu af réttu kyni og hvort fullorðnir eigi í leik- og grunnskólum að flokka börn eftir kynþokka.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)