ESB-Evrópa betlar Trump um meira stríð

ESB-Evrópa og Bretland vilja halda áfram stríðinu í Úkraínu. Leiðtogar Evrópu mega ekki til þess hugsa að friður verði á milli Úkraínu og Rússlands. Evrópuleiðtogar hyggjast fylkja liði með Selenskí Úkraínuforseta á fund með Trump og biðja um meira stríð.

Í upphafi átaka við Rússland, sem má tímasetja við Búkarestfund leiðtoga Nató árið 2008 (já, þú last rétt, fyrir 17 árum) var hugmyndin að nota Úkraínu til að knésetja Rússland. Markmiðið var að Rússland yrði forðabúr ESB-Evrópu, skaffaði olíu og gas og aðra hrávöru. Fyrir miðja síðustu öld töluðu Þjóðverjar um lebensraum, lífsrými, í austri. Að breyttu breytanda keyrði ESB-Evrópa sömu stefnu og austurríski liðþjálfinn með frímerkjaskeggið. Helsti munurinn er sá að þýska hernum blæddi út á austurvígstöðvunum; nú eru það Úkraínumenn einir sem færa mannfórnir fyrir vestrænt hagrými í austri.

Þangað til Trump kom til skjalanna hafði ESB-Evrópa stuðning Bandaríkjanna í Úkraínu-verkefninu. Viðskiptin voru þau að vestrið útvegaði fjármagn og vopn en Úkraína mannskap. Vestrið bjóst við snöggum sigri, að Rússar myndu annað tveggja gefast upp eða bylting yrði gerð líkt og í fyrra stríði.

Alaskafundur Trump og Pútín á föstudag var myndbirting á umpólun Washington gagnvart ESB-Evrópu almennt og Úkraínustríðinu sérstaklega. Bandaríkin vilja eðlileg samskipti við Rússland. Forsenda er að Úkraínustríðinu linni. ESB-Evrópa vill aftur fresta fram í rauðan dauðann afleiðingum af misheppnuðum austurvíkingi. Tilhugsunin um sterkt Rússland fær Brussel til að skjálfa á beinunum. Til að bæta gráu ofan á svart bendir flest til að Bandaríkin hverfi frá meginlandi Evrópu með herlið sitt. Nató-samstarfið er í uppnámi en þar borga Bandaríkin brúsann og standa undir mesta varnarviðbúnaðinum.

Verði samskiptin við Rússland vinsamlegri er enn minni ástæða fyrir Bandaríkin að ábyrgjast ytri landamæri ESB-Evrópu. Það veldur hryllingi á meginlandinu sem býr enn að minningunni um seinna þrjátíu ára stríðið 1914-1945. Í sögubókum er tímabilinu skipt í fyrra og seinna stríð. Í báðum tilvikum komu Bandaríkjamenn Evrópu til bjargar, stöðvuðu blóðbaðið - með dyggu stuðningi Rauða hersins í seinna stríði.

Trump á það til að vera sammála síðasta ræðumanni. Ef Selenskí og leiðtogum Bretlands og ESB-Evrópu tekst vel upp er ekki að vita nema friðarferlið taki að hökta og skrölta.

Það yrði skammgóður vermir. Rússar hafa yfirhöndina á vígvellinum. Tíminn vinnur með þeim, ekki Úkraínu og ESB-Evrópu. Vestrænir fjölmiðlar hlynntir Úkraínu vekja athygli á þverrandi baráttuþreki úkraínska hersins, að ekki sé talað um skort á mannskap. Eftir því sem Rússar leggja undir sig meira úkraínskt land versnar samningurinn sem Selenskí og ESB-félögum býðst.

Eftir Alaskafund Trump og Pútin er búið að blása af vopnahlé sem undanfara friðarsamninga. Á diplómatísku þýðir það að endanlegur friðarsamningur þarf að liggja fyrir áður en vopnin þagna. Valið stendur á milli friðarsamnings núna eða uppgjafar síðar. Hvort heldur sem verður munu stríðslok í Úkraínustríðinu valda straumhvörfum í Evrópu. Líkt og uppgjöf Þjóðverja vorið 1945. 

Meginkröfur Rússa eru að Úkraína verði hlutlaust ríki utan hernaðarbandalaga með takmarkaðan herstyrk og að austurhéruð landsins verði hluti af Rússlandi ásamt Krímskaga. Hingað til hefur ekki verið tekið í mál að svo mikið sem nálgast sjónarið Rússa. Á fundi Trump og Pútín á föstudag voru útfærslur ræddar en þær ekki gerðar heyrinkunnar. Í dag, er Selenskí og evrópskir leiðtogar hitta Trump, spyrst út hvaða drög að samkomulagi Trump og Pútín urðu ásáttir um.

Herská ESB-Evrópa stendur andspænis friðarboðskap Trump. Sjaldan eða aldrei í valdapólitík á alþjóðavísu er stærri gjá staðfest á milli pólitísks vilja og vanmáttar. ESB-Evrópa vill stríð í álfunni en krefur Bandaríkin um herstyrk í hildarleikinn.


mbl.is Leiðtogar Evrópu sitja fund Selenskís og Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. ágúst 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband