Föstudagur, 15. ágúst 2025
Þorgerður Katrín og vinslitin við Bandaríkin
Þorgerður Katrín utanríkisráðherra gengur erinda Evrópusambandsins á Norður-Atlantshafi. Bandaríkjamönnum mislíkar og setja Ísland undir hatt varhugaverðra þjóða sem þarf að hafa gætur á. Þorgerður Katrín gengur í berhögg við bandaríska öryggis- og varnarhagsmuni á mikilvægu hafsvæði sem kallast GIUK-hliðið. Hástafirnir vísa í Grænland, Ísland og Bretland.
Í viðtengdri frétt kemur fram að Ísland fær ískalda þögn frá Washington í viðleitni til að semja um tollamál. Í milliríkjasamskiptum er það skýrt merki um vanþóknun.
Evrópusambandið er í leiftursókn á Norður-Atlantshafi og ætlar sér Grænland, Ísland og Noreg inn í sambandið. Ísland er auðveldasta bráðin enda Viðreisn og Þorgerður Katrín smurðir Brusselagentar og Kristrún forsætis grænjaxl er lætur glepjast.
Þorgerður Katrín vílar ekki fyrir sér að fórna samskiptum við Bandaríkjunum, þar á meðal varnarsamningunum frá 1951, til að þóknast Evrópusambandinu.
Engin umræða er um yfirvofandi vinslit Íslands og Bandaríkjanna vegna ESB-stefnu ríkisstjórnarinnar. Vandræðin geta skollið á af fullum þunga næstu vikurnar þegar samstarf Íslands við Evrópusambandið um öryggis- og varnarmál verður keyrt í gegn. Upplýsingarnar liggja fyrir, menn fljóta sofandi að feigðarósi. Þegar Úrsúla von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB heimsótti Ísland fyrir mánuði, í boði Þorgerðar Katrínar og Kristrúnar, sagði hún skýrt og ákveðið hvað stæði til. Í texta á heimasíðu ESB, sem unninn er af sendinefnd ESB á Íslandi, er haft eftir von der Leyen:
Ísland fer með lykilhlutverk í viðbúnaði Nató á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi. Ísland er sterkur og áreiðanlegur bandamaður. [...] Ég er ánægð með að viðræður eru hafnar um aðild Ísland að öryggis- og varnarsamvinnu ESB. Ég er viss um að viðræðum verði lokið innan fárra vikna eða mánaða. Þær munu skila Íslandi inn í öryggis- og varnarsamstarf Evrópusambandsins. (feitletrun pv)
Takið eftir hvernig von der Leyen byrjar að tala um Nató en fer síðan yfir í öryggis- og varnarsamvinnu ESB. Þetta er ekki sami hluturinn. Bandaríkin eru í Nató en taka ekki þátt í öryggis- og varnarsamstarfi ESB, sem er hreint ESB-verkefni. Ástæðan fyrir öryggis- og varnarsamstarfi ESB er sá ótti að Bandaríkin yfirgefi Nató. Bandaríkin hafa stórlega dregið úr viðbúnaði sínum í Evrópu á síðustu árum.
Í stað þess að ytri öryggis- og varnarlína bandaríska meginlandsins liggi í Evrópu, líkt og í kalda stríðinu, mun hún liggja um GIUK-hliðið á Norður-Atlantshafi, Grænland-Ísland-Bretland, með snertiflöt við Noreg/Svalbarða.
Stöðutaka Evrópusambandsins á Norður-Atlantshafi mun fyrr heldur en seinna leiða til árekstra við Bandaríkin. Ísland verður þar leiksoppur stórveldahagsmuna. Norðurslóðastefna Evrópusambandsins var birt í sumar af hugveitunni Heinrich Böll Stiftung undir heitinu Stækkun ESB í norður í sjónmáli? Frumkvæði á óvissutímum. Tilfallandi fjallaði um skýrsluna, sem kom í framhaldi af stefnuræðu von der Leyen, og skrifaði:
Ísland er talið lykilríki til að fá Grænland og Noreg inn í sambandið. Vísað er til þess að sitjandi ríkisstjórn Íslands sé áhugasöm um ESB-aðild. Lagt er til að ESB geri Íslandi tilboð í sjávarútvegsmálum ,,sem ekki er hægt að hafna." Orðalagið er beint upp úr mafíubókmenntum - þýðir að dauðasök sé að neita tilboði guðföðurins. ESB hefur ýmsar leiðir til að herja á íslenska hagsmuni, ekki síst í gegnum EES-samninginn.
Heimsókn von der Leyen til Íslands í síðustu viku sýnir að Evrópusambandinu er dauðans alvara að hrinda í framkvæmd áætluninni um innlimun tveggja örþjóða, Grænlendinga og Íslendinga. Í framhaldi er á matseðlinum smáríkið Noregur. Þar með kemst ESB til áhrifa á Norður-Atlantshafi, verður þar stórveldi.
Fyrr heldur en seinna vakna Bandaríkjamenn upp við vondan draum. Evrópusambandið hyggst með leiftursókn sölsa undir sig Grænlandi og Íslandi - sem er óaðskiljanleg tvenna í varnar- og öryggismálum á Norður-Atlantshafi. Washington mun ekki líta það vinsamlegum augum að Ísland veiti Evrópusambandinu brautargengi inn á bandarískt öryggis- og varnarsvæði.
Í sumar hefur sama og engin umræða farið fram um hvert stefnir með stórháskalega utanríkispólitík Þorgerðar Katrínar og Kristrúnar. Menn ættu að ná áttum með hraði. Það stefnir í pólitíska vargöld á tvennum vígstöðum, innanlands og í samskiptum við erlend stórveldi. Átökin um Nató og varnarliðið rétt eftir lýðveldisstofnun voru sama marki brennd, klofin þjóð og utanríkispólitík í uppnámi. Lengra aftur í sögunni liggur öld Sturlunga. Vítin eru til að varast.
![]() |
Bandaríkin forgangsraða öðrum ríkjum en Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)