Þriðjudagur, 12. ágúst 2025
Rússneskt neitunarvald í Nató
Úkraínuher tapar tíu til tuttugu ferkílómetrum lands á hverju degi og hefur gert um hríð. Þótt Úkraína sé nær tvöfalt stærri en Þýskaland fer að muna um landið sem Rússar hafa lagt undir sig. Ef ekki tekst að semja frið í þessari atrennu er hætt við að landtaka Rússa mælist í mörgum tugum ferkílómetra á degi hverjum.
Landflæmi er ekki ástæða stríðsins. Aðild Úkraínu að Nató ógnaði öryggi rússneska ríkisins, sögðu Pútín og félagar. Vesturlönd hugðust, með Úkraínu sem verkfæri, setja Rússlandi afarkosti. Með Nató-ríki á öllum vesturlandamærum Rússlands yrði fyrrum stórveldið í heljargreipum Washington og Brussel. Vestrið taldi Kremlarbændur ekki leggja í bein átök og keyrðu áfram Úkraínu-áætlunina þrátt fyrir áköf andmæli Rússa, sem vildu Úkraínu hlutlaust ríki utan hernaðarbandalaga.
Á leiðtogafundi Nató í Búkarest árið 2008, fyrir 17 árum, var tilkynnt að Georgíu og Úkraínu yrði brátt boðin aðild að hernaðarbandalaginu. Í framhaldi varð eitt smástríð, í Georgíu, og annað langvinnt í Úkraínu. Innrás Rússa í febrúar 2022 er afleiðing af misheppnaðri pólitík. Litið um öxl er erfitt að sjá vitið í bægslagangi vesturveldanna.
Opinbert markmið Rússa með stríðinu er ekki að leggja undir sig land, þótt það geti sjálfsagt verið undirliggjandi tilgangur. Meginmarkmið Rússa er að tryggja að Úkraína verði aldrei Nató-ríki. Þar stendur hnífurinn í kúnni.
Aldrei í sögu Nató hefur þjóðríki utan bandalagsins haft neitunarvald um hvaða ríki skuli fá aðild. Verði Rússum í reynd veitt neitunarvald er Nató ekki sama bandalagið og það áður var. Veikt Nató þjónar verr hagsmunum aðildarþjóða. Ísland verður háðara varnarsamningnum við Bandaríkin frá 1951. Evrópusambandið er ekki í færum veita hervernd á meginlandinu og enn síður á Norður-Atlantshafi.
Úkraínu-áætlun vestursins gekk út á að Nató-aðild héldist í hendur við inngöngu Úkraínu í Evrópusambandið. Trauðla verður Úkraína í bráð ESB-ríki en verður engu að síður pólitískt, siðferðilega og efnahagslega á ábyrgð ESB. Bandaríkin munu ekki axla ábyrgðina, líta á Úkraínu sem evrópskt vandamál.
Friður núna er besti kosturinn. Haldi stríðið áfram stækkar landsvæðið sem Rússar leggja undir sig. Vesturveldin töpuðu óþurftarstríðinu í Úkraínu.
![]() |
Útilokar ekki að eftirláta Rússum hernumin svæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)