Föstudagur, 1. ágúst 2025
Fullveldið í ESB-fangelsi
Viðtengd frétt lýsir þrautagöngu Breta að losna úr viðjum Evrópusambandsins. Breska þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016 að ganga úr ESB. Brusselvaldið gerði allt til að ónýta breskan þjóðarvilja og torvelda úrsögn. Á evrópskan mælikvarða er Bretland stórveldi - Ísland er örríki.
Takist sitjandi ríkisstjórn að selja fullveldi landsins í hendur ríkjasambands á meginlandi Evrópu er forræði íslenskra mála varanlega flutt úr landi. Íslendingar verða útlendingar í eigin landi - lög og ákvarðanir um stórt og smátt koma frá Brussel.
Við vitum afleiðingarnar. Gamli sáttmáli var samþykktur á alþingi 1264 - Ísland gekk erlendu konungsvaldi á hönd. Um aldir var Ísland hjálenda og ein fátækasta þjóð Evrópu. Ekki fyrr en 1944, einum 680 árum eftir Gamla sáttmála, endurheimtu Íslendingar fullt forræði eigin mála.
Blekkingar, hálfsannleikur og lygar einkenna málflutning ESB-sinna. Helstu málpípur þeirra hugsa sér gott til glóðarinnar, þægilega innivinnu í Brussel þegar Ísland er framselt útlendu valdi.
Evrópusambandið sækir að fullveldi Íslands. Til að bæta sér upp tapaða vígstöðu á alþjóðavettvangi, vegna Trump og Pútín, hyggst ESB ná undir sig þrem þjóðríkjum á Norður-Atlantshafi, Grænlandi, Íslandi og Noregi. Tilfallandi bloggaði um norðursókn ESB:
Í byrjun maí í vor flutti Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB ræðu í Aachen í Þýskalandi er hún veitti viðtöku heiðursverðlaunum kenndum við Karlamagnús keisara.
Í ræðunni boðar von der Leyen ,,sjálfstæða Evrópu" í hörðum heimi valdastjórnmála. Þá bætti hún við:
Og þegar ég segi Evrópa, á ég vitanlega við Evrópusambandið. En ég er þeirrar skoðunar að vegferðin verði farin með vinum og samstarfsaðilum. Frá vesturhluta Balkanskaga til Úkraínu og Moldavíu. Frá Grænlandi til Bretlands og víðar. Skylda okkar er að tryggja stöðugleika á meginlandinu með sýn á sameiginlega framtíð.
Í beinu framhaldi talar forseti framkvæmdastjórnar ESB um að sambandið þurfi að hrista af sér hlekki fortíðar og grípa til aðgerða hratt og örugglega. Líkt og stórveldi gera þegar hagsmunum þeirra er ógnað.
Grænland fór inn í Evrópusambandið með Danmörku snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Heimastjórn fékk Grænland 1979 og sagði sig úr Evrópusambandinu sex árum síðar, í byrjun árs 1985.
Enginn vafi leikur á stöðutaka ESB gagnvart Grænlandi er andsvar við yfirlýsingu Bandaríkjanna um að Grænland skuli verða bandarískt. Varnar- og öryggishagsmunir Bandaríkjanna eru að Grænland lúti bandarísku forræði - en ekki dönsku. Von der Leyen skorar Bandaríkin á hólm með yfirlýsingu um að Grænland verði ESB-ríki.
Evrópsk hugveita, Heinrich Böll Stiftung, með um 300 manns í vinnu og rekstarfé frá ESB, gaf í byrjun júlí út skýrslu um norðursókn Evrópusambandsins. Skýrslan er í senn greining og stefnumótun - og fullkomlega í takti við ræðu von der Leyen.
Heiti skýrslunnar er Stækkun ESB í norður í sjónmáli? Frumkvæði á óvissutímum. Í skýrslunni er dregin upp áætlun um að fá Grænland, Ísland og Noreg inn í Evrópusambandið. Úkraínustríðið annars vegar og hins vegar forsetatíð Trump knýja á um að ESB nýti sóknarfæriá norðurslóðum, segir í skýrslunni. Landvinningar valdefli sambandið og gefi endurnýjaðan tilgang.
Ísland er talið lykilríki til að fá Grænland og Noreg inn í sambandið. Vísað er til þess að sitjandi ríkisstjórn Íslands sé áhugasöm um ESB-aðild. Lagt er til að ESB geri Íslandi tilboð í sjávarútvegsmálum ,,sem ekki er hægt að hafna." Orðalagið er beint upp úr mafíubókmenntum - þýðir að dauðasök sé að neita tilboði guðföðurins. ESB hefur ýmsar leiðir til að herja á íslenska hagsmuni, ekki síst í gegnum EES-samninginn.
Þorgerður Katrín utanríkisráðherra og ráðherrar Viðreisnar sýna einbeittan ásetning að Evrópusambandið nái markmiði sínu og innlimi Ísland. Ráðherrar Samfylkingar og Flokks fólksins hafa ekki enn sýnt á spilin. Þar ríkir þögnin ein. Viðreisnarráðherrar eiga á meðan sviðið og móta orðræðuna í þágu ESB. Hollusta og trúnaður Þorgerðar Katrínar og félaga er við Evrópusambandið, ekki lýðveldið Ísland.
![]() |
Ekki áhlaupaverk að endurheimta fullveldið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)