Valkyrjur gera Ísland að Úkraínu norðursins

Evrópusambandið ætlar sér Grænland, Ísland og Noreg, eins og haft er eftir Der Spiegel í bloggi gærdagsins. Í byrjun maí í vor flutti Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB ræðu í Aachen í Þýskalandi er hún veitti viðtöku heiðursverðlaunum kenndum við Karlamagnús keisara.

Í ræðunni boðar von der Leyen ,,sjálfstæða Evrópu" í hörðum heimi valdastjórnmála. Þá bætti hún við:

Og þegar ég segi Evrópa, á ég vitanlega við Evrópusambandið. En ég er þeirrar skoðunar að vegferðin verði farin með vinum og samstarfsaðilum. Frá vesturhluta Balkanskaga til Úkraínu og Moldavíu. Frá Grænlandi til Bretlands og víðar. Skylda okkar er að tryggja stöðugleika á meginlandinu með sýn á sameiginlega framtíð.

Í beinu framhaldi talar forseti framkvæmdastjórnar ESB um að sambandið þurfi að hrista af sér hlekki fortíðar og grípa til aðgerða hratt og örugglega. Líkt og stórveldi gera þegar hagsmunum þeirra er ógnað.

Grænland fór inn í Evrópusambandið með Danmörku snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Heimastjórn fékk Grænland 1979 og sagði sig úr Evrópusambandinu sex árum síðar, í byrjun árs 1985.

Enginn vafi leikur á stöðutaka ESB gagnvart Grænlandi er andsvar við yfirlýsingu Bandaríkjanna um að Grænland skuli verða bandarískt. Varnar- og öryggishagsmunir Bandaríkjanna eru að Grænland lúti bandarísku forræði - en ekki dönsku. Von der Leyen skorar Bandaríkin á hólm með yfirlýsingu um að Grænland verði ESB-ríki.

Evrópsk hugveita, Heinrich Böll Stiftung, með um 300 manns í vinnu og rekstarfé frá ESB, gaf í byrjun júlí út skýrslu um norðursókn Evrópusambandsins. Skýrslan er í senn greining og stefnumótun - og fullkomlega í takti við ræðu von der Leyen.

Heiti skýrslunnar er Stækkun ESB í norður í sjónmáli? Frumkvæði á óvissutímum. Í skýrslunni er dregin upp áætlun um að fá Grænland, Ísland og Noreg inn í Evrópusambandið. Úkraínustríðið annars vegar og hins vegar forsetatíð Trump knýja á um að ESB nýti sóknarfæriá norðurslóðum, segir í skýrslunni. Landvinningar valdefli sambandið og gefi endurnýjaðan tilgang.

Ísland er talið lykilríki til að fá Grænland og Noreg inn í sambandið. Vísað er til þess að sitjandi ríkisstjórn Íslands sé áhugasöm um ESB-aðild. Lagt er til að ESB geri Íslandi tilboð í sjávarútvegsmálum ,,sem ekki er hægt að hafna." Orðalagið er beint upp úr mafíubókmenntum - þýðir að dauðasök sé að neita tilboði guðföðurins. ESB hefur ýmsar leiðir til að herja á íslenska hagsmuni, ekki síst í gegnum EES-samninginn.

Heimsókn von der Leyen til Íslands í síðustu viku sýnir að Evrópusambandinu er dauðans alvara að hrinda í framkvæmd áætluninni um innlimun tveggja örþjóða, Grænlendinga og Íslendinga. Í framhaldi er á matseðlinum smáríkið Noregur. Þar með kemst ESB til áhrifa á Norður-Atlantshafi, verður þar stórveldi.

Fyrr heldur en seinna vakna Bandaríkjamenn upp við vondan draum. Evrópusambandið hyggst með leiftursókn sölsa undir sig Grænlandi og Íslandi - sem er óaðskiljanleg tvenna í varnar- og öryggismálum á Norður-Atlantshafi. Washington mun ekki líta það vinsamlegum augum að Ísland veiti Evrópusambandinu brautargengi inn á bandarískt öryggis- og varnarsvæði.

Kvenpeningurinn í stjórnarráðinu er ólæs á valdapólitík stórvelda. Hráir hagsmunir stórvelda steypa smærri þjóðum í glötun sé ekki að gáð. Hildarleikurinn, sem nú stendur yfir á gresjum Úkraínu, hófst með tilboði leiðtogafundar Nató í Búkarest vorið 2008 að Úkraína yrði Nató-ríki. Áætlun Nató hratt af stað atburðarás er fékk rökréttar afleiðingar í febrúar 2022 með innrás Rússlands í Úkraínu. Öryggis- og varnarhagsmunir stórvelda eru ekki barnaglingur smærri þjóða - hvað þá örþjóða eins og Íslendinga.

Sjálfsagt móðgast einhver yfir samlíkingunni. Bandaríkin og ESB eru ekki viðlíka andstæður og vestrið gegn Rússlandi. Þeir móðguðu ættu að lesa gaumgæfilega ræðu von der Leyen í Aachen og sóknaráætlun ESB í norðri. Til að lifa af í hörðum heimi valdastjórnmála verður Evrópusambandið að tileinka sér siði og háttu stórvelda. Innlimun Íslands í ESB er prófsteinn á getu Brusselvaldsins til að brjóta undir sig ný lönd í norðri. Bandaríkin munu ekki taka með þegjandi þögninni stöðutöku Evrópusambandsins á land- og hafsvæði sem Washington skilgreinir sem sitt öryggis- og varnarsvæði. Valdapólitík er ekki saumaklúbbsfræði.

 


mbl.is Umsóknin „dregin til baka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband