Þorgerður Katrín tekur BYKO á ESB

Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra fylgist með alþingi betur en margur annar. Á síðasta þingdegi, fyrir tveim dögum, tók Björn eftir þessari uppákomu á þjóðþinginu:

Þá sést Þorgerður Katrín ganga snúðug fram hjá ræðustólnum að ráðherrabekknum þingforseta á hægri hönd. Hún biður síðan um orðið í annað skipti um atkvæðagreiðsluna til að benda á að í umræðunum um strandveiðar hafi nú myndast „samhljómur“ um málið: „Eigum við ekki að nýta þennan samhljóm í þágu strandveiða og klára málið annaðhvort í dag eða á morgun?“ spurði utanríkisráðherra og einhver hrópaði Heyr! Heyr! Ráðherrann notaði slagorð BYKO og sagði: „Gerum þetta saman.“ Ríkisstjórnarflokkarnir væru tilbúnir til að klára málið þennan sama dag eða koma til þingfundar 15. júlí til að gera það.

Enginn greip þessa tillögu á lofti. Þetta var lýðskrum í sinni tærustu mynd. Það endurspeglaði taugatitringinn í stjórnarherbúðunum. Forseti alþingis hafði tilkynnt að þingi lyki þennan dag með afgreiðslu þriggja mála auk laga um ríkisborgararétt. Forsetavaldið var lítilsvirt. Við blasti sektarkennd yfir ótrúlegum vandræðagangi og stjórnleysi samkvæmt plani verkstjórnarinnar.

Þorgerður Katrín er utanríkisráðherra. Hún á að heita reyndur og þroskaður stjórnmálamaður. En það er öðru nær. ,,Gerum þetta saman," er auglýsingafrasi BYKO, vel heppnaður bersýnilega. BYKO selur vörur á neytendamarkaði, Þorgerður Katrín er á launum almennings að þjóna hagmundum lands og þjóðar. Utanríkisráðherra er gangandi frasi. Gerum þetta saman, hvort heldur strandveiðar eða aðild að Evrópusambandinu. Auglýsingafrasi byggingavöruverslunar í munni Þorgerðar Katrínar veitir innsýn í hugarheim smekklausrar yfirborðsmennsku.

Frá ESB sækir Þorgerður Katrín frasa að vegna Úkraínustríðsins verði að þétta raðirnar. Kannski hjá ESB, en alls ekki Íslandi. Við eigum enga aðild að stríðinu, það er hvorki í okkar þágu né höfum við minnstu möguleika að hafa áhrif á framvindu hildarleiksins.

Fyrir andstæðinga ESB-aðildar er utanríkisráðherra gulls ígildi. Lítil hætta er á að Þorgerður Katrín sannfæri almenning um að ,,gera það saman" með Evrópusambandinu.

   


mbl.is Vonar að Evróputengd mál verði ofarlega á blaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband