Úkraínustríðið er vestrinu tapað

Ekkert magn vestrænna vopna breytir fyrirsjáanlegu tapi Úkraínu í stríðinu við Rússa. Viðskiptaþvinganir eru fullreyndar, skila ekki árangri. Útfærslan á ósigrinum er eftir.

Vopnasendingar Trump til Úkraínu núna eru til að þvo hendur Bandaríkjanna af ósigrinum. Trump getur sagt að þrátt fyrir stuðning Bandaríkjanna hafi Úkraína tapað.

Evrópusambandið leggur áherslu á að halda stríðinu gangandi eins lengi og mögulegt er. Í Brussel vonast menn eftir kraftaverki, að Pútín hrökkvi upp af eða bylting verði í Moskvu. Á meðan stríðið heldur áfram þarf ESB ekki að horfast í augu við rússneska björninn á austurlandamærum sambandsins. Allt frá lokum seinna stríðs hefur Vestur-Evrópa, ESB, vanist að fá sínu framgengt að mestu með friðsamlegum hætti. Smástríð hér og hvar voru flest í fjarlægum heimshlutum, upplausn Júgóslavíu undantekningin. 

Vestrænir fjölmiðlar endurspegla ráðandi frásögn um að allt sé betra en rússneskur sigur. Ekki er það væntumþykja fyrir úkraínsku þjóðinni sem ræður för heldur óttinn við það sem á eftir kemur.

Til að halda hildarleiknum gangandi er fólki talin trú um að eftir sigur í Úkraínu muni Pútin og félagar hyggja á frekari landvinninga í vestri. Það er langsótt röksemd. Kemur einkum þrennt til. Í fyrsta lagi hafa Rússar ekki lögmæta afsökun til að ráðast inn í Nató-lönd eins og Pólland og Eystrasaltsríkin. Í Úkraínu hafði Pútín lögmæta afsökun. Frekari útþensla Nató í austurátt, sem átti aldrei að verða samkvæmt samkomulagi við Rússland eftir fall Berlínarmúrsins, var óásættanleg Rússum þegar árið 2008. Vestrið, með Úkraínu sem verktaka, vildi láta reyna á langlund Rússa. Afleiðingin blasir við. Í öðru lagi eiga Rússar fullt í fangi að sigra Úkraínuher. Stríð við Nató yrði á öðrum og stærri skala og að líkindum háð með kjarnorkuvopnum. Pútín er ekki líklegur sjálfsmorðskandídat. Í þriðja lagi yrði rússneskur almenningur ekki ginnkeyptur fyrir hernaðarævintýrum í Vestur-Evrópu. Fyrir rúmum hundrað árum var bylting í Rússlandi vegna óvinsæls stríðs í vestri. Kremlverjar kunna sagnfræði.

Enginn veit hvernig rússneskur sigur í Úkraínu mun líta út. Kannski verður landinu skipt í tvennt eftir Dnipró-ánni. Kannski verður samið um minni skerðingu á landi og herlausa Úkraínu utan Nató en mögulega innan ESB. Þrátt fyrir að Trump vilji samninga ekki seinna en strax eru stríðsaðilar enn sannfærðir að úrslitin skulu ráðast á vígvellinum. Sú sannfæring helst í stjórnkerfi Úkraínu á meðan nokkur von er um meiri vopn og fjármagn frá vestrinu.

Vestrið notaði Úkraínu til að knýja á um að Rússland yrði pólitísk og efnahagsleg hjálenda. Með Úkraínu í Nató og ESB hefði vestrið flest ráð Rússa í hendi sér. Innrás Rússa í Úkraínu fyrir rúmum þrem árum var, af hálfu Pútín og félaga, nauðsynleg til að verja öryggishagsmuni ríkisins - og, vitanlega, stjórnkerfið sem þeir eru í fyrirsvari fyrir. Fyrstu mánuði stríðsins, jafnvel fyrsta rúma árið, var ekki ljóst hvor stríðsaðilinn hefði betur. En síðasta árið er stríðsgæfan hliðhollari Kreml en Kænugarði. Hernaðarmáttur Rússa vex en Úkraínu blæðir. Styrkleikhlutföllin, einkum hvað varðar fjölda hermanna, eru afgerandi Rússum í hag. Fyrir stríð taldi Úkraína um 43 milljónir hausa, Rússar eru rúmlega 140 milljónir. 

Um tíma var talað um beina aðild Nató-hermanna. Ekki lengur. Án beinnar aðildar Nató-herja er stríðið tapað Úkraínu.

Úkraínustríðið er staðgenglastríð vestursins gegn Rússlandi. Staðgengillinn mun mestu tapa, bæði í mannfórnum og landi. Í augum þeirra sem telja vestrið og Rússland náttúrulega bandamenn, æskilegra en t.d. bandalag vestursins og Tyrklands eða Sádí-Arabíu, er gresjustríðið fullkomlega tilgangslaust. Vel að merkja, allur þorri stríða er tilgangslaus. ,,Hrein stríð" illsku og góðmennsku eru einatt stílfærð útgáfa af veruleikanum. 

 


mbl.is Vopnasendingar til Úkraínu ræddar í Hvíta húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband