Lýðveldi án málfrelsis

Valdarán, aftökusveitir og lýðræði á heljarþröm var viðkvæði ráðherra á fimmtudag. Á föstudagsmorgun var þingræðið ómerkt með þeim rökum að ráðherrar sögðu nóg rætt, nú skyldu verkin tala.  Beitt var 71. grein þingskaparlaga og lokað á málfrelsi alþingismanna. Gerræði kvenhormóna er sjá tilræðismenn í þingmönnum sem andmæla.

Ekki hefur 71. grein verið virkjuð í 66 ár, í tíð 19 forsætisráðherra. Kristrún á sínum fyrsta þingvetri sem forsætisráðherra slaufar málfrelsi þingheims. Yfirlýsing Kristrúnar á fimmtudag geymdi þessi orð

Við munum verja lýðveldið Ísland. Við munum verja stjórnskipan landsins og heiður alþingis.

Heiður alþingis skal varinn með kefli upp í kjaft þingmanna minnihlutans og bundið fyrir. Heiður er ekki sælgæti í nammibúð til að svala sykurþörf. Heiður og vanvirðing í samhengi við stjórnskipun og hefðir eru hugtök sem verða til í umgengni við æðsta yfirvald kynslóð fram af kynslóð.

Tilefni afnáms málfrelsis þingmanna er að frumvarp um skattahækkun, tvöföldun veiðigjalda, fékk ekki meðbyr í þingsal. Það var allt og sumt. Engin þjóðarvá, heldur gekk erfiðlega að sannfæra minnihlutann um skynsemi þess að tvöfalda skattbyrði á eina atvinnugrein, sem einkum er stunduð á landsbyggðinni.

Lýðræði er samtal. Opinberar ákvarðanir í lýðræðisríki lúta formreglum. Beiting 71. greinar þingskaparlaga eru ítrustu úrræði, enda heimildin ekki verið virkjuð í 66 ár. Eðli ítrustu úrræða er að annað tveggja valda þau hamingjuskiptum í valdaskaki þar sem annar beygir sig í duftið eða innleiða ofbeldissamband.

Eftir föstudaginn 11. júlí 2025 er ekki sama þingræðið hér á landi og var fyrir. Fyrsta grein stjórnarskrárinnar er svohljóðandi:

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

Eftir föstudagsgerræðið leikur vafi á stjórnskipuninni. Það glittir í hrátt vald meirihlutans sem ber minnihlutann atkvæðum af ómerkilegasta tilefni. Þar sem áður var samtal er öskur og hávaði með brigslum um valdarán, aftökusveitir í húsasundum og endalok lýðræðis.

Lýðveldið er gjaldfellt, innihaldslausara en það áður var. Nærtækasta viðbragð minnihlutans er að láta strax á það reyna hvort meirihlutinn ætli að stíga skrefið til fulls og innleiða hrátt tilskipunarvald. Þjóðin þarf að fá það á hreint, fyrr heldur en seinna. 

Lýðveldi án málfrelsis fær ekki staðist.  

 

 


mbl.is Segir ríkisstjórnina hafa sett á svið leikrit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband