Laugardagur, 28. júní 2025
Kynvitund er trúarhugtak
Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðar að fræðsla um kynvitund sé ígildi trúarinnrætingar. Foreldrar eiga rétt á að halda börnum sínum frá innrætingunni. Hæstaréttardómurinn rekur enn einn naglann í líkkistu transfræða.
Kynvitund kallast á ensku gender identity. Hugtakið kom inn í hegningarlög hér á landi fyrir áratug, grein 233 a., er bannar hæðni, róg, smánun og ógnun vegna kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar. Tvö fyrstu kyn-orðin er hægt að skilja hversdagslegum veraldlegum skilningi. Kyneinkenni eru til dæmis æxlunarfæri karls og konu. Kynhneigð þekkist helst í þrem útgáfum; gagnkynhneigð, samkynhneigð og tvíkynhneigð. Þriðja kyn-orðið, kynvitund, er aftur trúarhugtak sem ekki styðst við efnisveruleikann.
Skilgreining Samtakanna 78 á kynvitund staðfestir að hér er um að ræða trúarhugtak:
Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt.
Lykilorðin eru vilji og upplifun. Vilji vísar til valkosta, maður velur eitt umfram annað. Upplifun er huglægt ástand. Í annarri setningu efnisgreinarinnar er beinlínis tekið fram að kynvitund sé alls óskyld hlutveruleikanum. Þriðja setningin reynir með lævísum hætti að aðgreina vitund og upplifun. En það er sami hluturinn að upplifa eitthvað og vera meðvitaður um eitthvað. Öll upplifun fer fram í meðvitundinni. Merking þriðju setningarinnar er í raun þessi: Allir hafa meðvitund því allir upplifa sig á einhvern hátt. Þetta eru sjálfsögð sannindi sem hafa ekkert með kyn að gera. Maðurinn hefur meðvitund. Punktur.
Kynvitund á sammerkt með trúarvitund að vísa í yfirnáttúrlegan heim, sem skilningarvitin ná ekki til. Sjálfsagt er að fullorðnir reki lífsskoðunarfélög um sín áhugamál. Öllu verra er þegar saklaus börn eru tilraunadýr sértrúarsafnaða.
Samtökin 78 sjá að verulegu leyti um trúarbragðafræðslu í leik- og grunnskólum. Kennd er sérviskutrú um að börn geti fæðst í röngum líkama. En það er ómöguleiki, líkami og meðvitund fæðast sem ein heild. Trúarhugtakið kynvitund er notað til að blekkja börn og fullorðna að játast transtrú sem boðar kynjahopp í nafni upplifunar.
Er ekki mál að linni?
![]() |
Þurfa ekki að sitja kennslustundir um kynvitund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)