Ingi Freyr staðfestir sérstakan leka til blaðamanna

Tillaga Guðrúnar Hafsteinsdóttur formanns Sjálfstæðisflokks að rannsaka skuli meðferð upplýsinga ákæruyfirvalda eftir hrun fékk óbeinan rökstuðning í fréttum RÚV í gær. Tillaga Guðrúnar kemur í kjölfar umræðu um gagnalekamálið, sem hófst með frétt Helga Seljan í síðustu viku á RÚV.

Í gær birti Ingi Freyr Vilhjálmsson frétt á RÚV upp úr sama gagnalekanum. Frétt Inga Freys er samhljóða frétt sem hann skrifaði í Stundina fyrir fimm árum - eða árið 2020. Í RÚV-fréttinni í gær viðurkennir Ingi Freyr að hún sé gömul Stundarfrétt:

Áður hefur verið fjallað um þessa upptöku af fundinum með Jónasi í íslenskum fjölmiðli. Það var árið 2020 í Stundinni, nú Heimildinni.

Ingi Freyr skrifaði sjálfur fréttina í Stundina fyrir fimm árum. Þá var hann með gögn úr sama gagnalekanum og Helgi Seljan gerði að stórfrétt fyrir tæpum tveim vikum. Helgi Seljan og Ingi Freyr unnu saman á Stundinni og eru núna samherjar á RÚV. Helstu fréttirnar sem þeir gætu sagt væru af gagnalekanum sjálfum; hver lak og í hvaða tilgangi? En þær fréttir eru ósagðar. Samstarfsfélagarnir koma fram undir þeim formerkjum að þeir þjóni almannahagsmunum. En svo er ekki. Hagsmunir almennings eru að réttarkerfið og fjölmiðlar vinni heiðarlega. Skipulagður leki til valdra blaðamanna um einkahagi fólks er ekki heiðarleg starfsemi, hvorki af hálfu ákæruvalds né RÚV.

Gagnalekinn til Inga Freys fyrir fimm árum og til Helga Seljan nýverið varðar í báðum tilvikum atburði sem eru frá 2012 og eldri. Ekki er hægt að slá föstu að Ingi Freyr hafi fyrir fimm árum verið með sama gagnapakka og Helgi gerði frétt um fyrir hálfum mánuði. Hitt er augljóst að lekinn er með sama uppruna. Aldur gagnanna og persónur og leikendur staðfesta það.

Tilfallandi gerði á laugardag grein fyrir samvinnu sérstaks saksóknara, nú héraðssaksóknara, við ákveðna blaðamenn sem tengjast RÚV í nútíð eða fortíð. Ingi Freyr var með sérstaka tengingu við embættið þar sem bróðir hans, Finnur Þór Vilhjálmsson, var saksóknari. Ingi Freyr undirbjó sem blaðamaður Namibíumálið í hendur bróður síns, sem rannsakaði til sakfellingar en varð frá að hverfa er upp komst um bræður í glæpum. Einn saksótti en hinn skrifaði sakfellandi fréttir. Fyrir tveim árum var samvinna bræðranna sett í samhengi:

Ef svona aðferðum væri beitt í viðskiptalífinu yrði það óðara kallað spilling, - og hún af alvarlegra taginu þar sem í hlut á opinber embættismaður. En það virðist ekki tiltökumál þótt bræður véli um stöðu einstaklinga í opinberum málum, þar sem ríkir hagsmunir annars bróðurins eru að hinn finni sök sem ákært verði fyrir.

Ingi Freyr hafði aðgang fyrir fimm árum að sama gagnalekanum og samstarfsfélagi hans, Helgi Seljan. Þegar Helgi birti sína stórfrétt fyrir tæpum hálfum mánuði sagði hann gögnin ,,geta valdið öðrum skaða." En það er einmitt rauði þráðurinn í starfi Inga Freys, Helga og félaga á Glæpaleiti, að valda skaða. Namibíumálið er þannig vaxið, byrlunar- og símamálið sömuleiðis.

Rannsóknanefndin sem formaður Sjálfstæðisflokksins vill að upplýsi gagnalekamálið og meðferð opinberra aðila, handhafa ákæruvalds, á persónuupplýsingum verður að skoða rækilega samskiptin við fjölmiðla og þá einkum RÚV. 

 

 

 

 

 


mbl.is Vill nefnd til að fjalla um sérstakan saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. maí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband