Fimmtudagur, 15. maí 2025
Stríð framhald af pólitík, vígafriður í Úkraínu
Úkraínustríðið á sér nokkur pólitísk ártöl: 2008, þegar Úkraínu var boðin Nató-aðild; 2014, stjórnarbylting í Kænugarði og innlimun Rússa á Krím; 2014/2015 Minsk-samkomulag sem fór í hundana. Pólitíkinni lauk í febrúar 2022 með innrás Rússa í Úkraínu. Í dag hittast fulltrúar stríðandi fylkinga í Miklagarði, Tyrklandi. Fyrir tveim árum, um miðjan apríl 2022, var á sama stað ræddur friður en kom fyrir lítið.
Pólitíkin kemur fyrst aftur til sögunnar af alvöru er stríðsaðilar draga sama lærdóm af stöðunni á vígvellinum. Það gera þeir ekki í bráð. Rússar eru á sigurbraut, hægri að vísu, leggja undir sig að jafnaði tíu ferkílómetra af úkraínsku landi daglega. Stundum meira en sjaldan minna. Úkraína er landmesta þjóðríki Evrópu, á eftir Rússlandi, og á nægt land að tapa í mánuði og ár án þess að bíða lægri hlut í stríðinu sjálfu.
Þrennt annað, sem þarf í hernaðinn, er Úkraínu áhyggjuefni. Í fyrsta lagi mannskapur, sífellt erfiðara er að manna herinn. Í öðru lagi vestrænn stuðningur, sem fer dvínandi. Í þriðja lagi þolinmæði úkraínsk almennings. Á meðan Úkraínuher er á undanhaldi gengur á allt þrennt.
Ólíklegt er að stríðsgæfan snúist Úkraínu í vil. Enn ólíklegra er að Rússar gerist stríðsþreyttir. Í rúman áratug, frá innlimun Krímskaga 2014, búa Rússar við alþjóðlegar viðskiptaþvinganir. Vextir eru háir, um 20 prósent, og dýrtíð er í landinu, verðbólga nær tíu prósentum. Þeir sem heimsækja Rússland segja þá sögu að daglegt líf gangi sinn vanagang. Ekki verður annað ráðið en að stríðsaðgerðir í Úkraínu njóti almenns stuðnings. Ólíkt Úkraínu er Rússland ekki í vandkvæðum að manna herinn. Rússar eru yfir 140 milljón manna þjóð. Fyrir stríð taldi Úkraína um 40 milljónir. Reikningsdæmið er ekki flókið.
Úkraínustríðinu lýkur, þótt enginn viti hvenær. Stríðslokin verða vígafriður, Rússum hagfelldari en Úkraínumönnum. Er frá líður verður spurt hvort stríðið hafi verið virði mannslífanna sem týndust og eyðileggingarinnar sem við blasir. Í Rússlandi verður svarið já, en nei í Úkraínu. Rússar líta á stríðið sem tilvistarógn við þjóðríkið; Úkraínumenn vita að átökin snúast um aðild landsins að Nató og Evrópusambandinu. Kjarni og froða eru ekki sami hluturinn.
![]() |
Pútín mætir ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)