Þriðjudagur, 8. apríl 2025
Trump sigrar tollastríðið og drepur vókið á Íslandi
Tveir sérfræðingar í efnahagsmálum, hvorugur hallur undir Trump, formæla báðir tollastríðinu sem Bandaríkjaforseti efnir til - en segja jafnframt að Trump sé líklegur sigurvegari í efnahagsstríðinu. Þeir Wolfgang Munchau og Anatole Kaletsky voru í viðtali á Unherd.
Heimshagkerfið eins og við höfum þekkt það síðustu áratugi er liðið undir lok. Það er kennt við alþjóðahyggju. Munchau og Kaletsky tala um endalok ,,ofur-alþjóðahyggju" sem hafi tröllriðið heiminum síðustu áratugina. Menningarútgáfa alþjóðahyggjunnar kallast vók.
Tollarnir sem Trump skellti á með skömmum fyrirvara eru hærri en nokkurn óraði fyrir, kom jafnvel samstarfsmönnum forsetans í opna skjöldu. Hrun á hlutabréfamörkuðum sýnir að fæstir áttu von á þessum róttæku trakteringum húsbóndans í Hvíta húsinu.
Kaletsky óttast alþjóðalega efnahagskreppu i kjölfarið. Munchau og Kaletsky segja báðir að verstu hugsanlegu viðbrögð ESB-Evrópu og Kína séu hefndartollar gegn Bandaríkjunum. Það mun gera illt verra, dýpka fyrirsjáanlega efnahagskreppu.
Félagarnir segja fríverslunarbandalag ríkja s.s. Kanada, Bretland, ESB-Evrópa, Ástralía og Nýja Sjáland rétta svarið við bandarískum tollmúrum. Trump myndi einangrast, sæti uppi með Svarta-Pétur og efnahagskerfi á fallandi fæti. Hvorugur telur vestrænan samblástur gegn Bandaríkjunum líklegan. Bandalag Kína og ESB-Evrópu gegn Trump sé enn langsóttara.
Í lok viðtalsins á Unherd segja báðir, Munchau og Kaletsky, að Bandaríkin séu líklegasti sigurvegari tollastríðsins. Tekur kannski ár eða svo og jafnvel efnahagskreppu en hann kemur samt Trump-sigurinn, telja félagarnir.
Á Íslandi fékk Trump lítilfjörlegan sigur, tók ekki nema tvo daga. Tveir þekktir vinstrimenn, Hallgrímur Helgason rithöfundur og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar tókust á um vók. Sólveig Anna sagði vók hatrammt kúgunartæki er svipti menn málfrelsinu. Óðara kenndi Hallgrímur Sólveigu Önnu við trumpisma og sakaði hana i framhaldi um mannhatur. Í orðabók vinstrimanna er trumpismi og mannhatur samheiti. Fleiri vinstrimenn tóku til máls og fór vókið fremur halloka.
Deilur íslenskra vinstrimanna með svigurmælum um trumpisma eru til marks um að tímabili sé lokið í vinstripólitík. Í útrásinni fundu vinstrimenn sér sykurpabba úr röðum auðmanna, eftir bankahrun varð vókið þeirra alfa og ómega. Hvert hugur íslenskra vinstrimanna stefnir eftir sviðna jörð vóksins ræðst af vitundartísku í útlandinu. Frónskir vinstrimenn eru næmir á erlend pólitísk og menningarleg veðrabrigði. Sést á því að þeir vilja nú ólmir þvo af sér vókið sem þeim var svo kært, síðast í gær.
Trumpismi og vók eru bandarísk fyrirbrigði, meira tilfinningaástand en hugmyndafræði. Tollafárið í dag minnir á menningarsjokkið þegar sveitalögga í Minnesota drap þeldökkan Bandaríkjamann að nafni George Floyd fyrir fimm árum. Í báðum tilvikum logar heimsbyggðin á samfélagsmiðlum, Margvíslegur nýsannleikur er uppgötvaður á örskoti, eiginlega til að vera gleymdur nokkrum dögum síðar.
Trumpismi og vók eru afleiðing byltingar sem verður með nettengdum heimi og birtist hvað skýrast í samfélagsmiðlum sem eru varla tvítugir að aldri. Samskiptabyltingar draga dilk á eftir sér. Án Gutenberg hefði aldrei orðið neinn Marteinn Lúter.
![]() |
Vill semja við alla en engin pása í sjónmáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)