Sunnudagur, 6. apríl 2025
Jafnrétti og innivinna hugrænna háskólakvenna
Dómsmálaráðherra fer nú með jafnréttismál. Ráðherra lét mynda sig með jafnréttisdeildinni, sex konur í þægilegri innivinnu. Ljósmyndin segir meira en þúsund orð um jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna á þessari öld, að háskólakonur fái vinnu við hæfi.
Til að réttlæta yfirtölu kvenna í þægilegri innivinnu er búin til innihaldslaus orðræða sem fleytir skattfé í kvennaföndur. Í framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 20252028, er eftirfarandi aðgerð boðuð:
Unnið verði að því að fanga kynjamynstur hugrænnar vinnu á Íslandi. Unnin verði eigindleg rannsókn á hugrænni vinnu með viðtalsviðbót við megindlega tímarannsókn Hagstofu Íslands og forsætisráðuneytis. Í eigindlegu rannsókninni verði rýnt betur í niðurstöður megindlegu rannsóknarinnar sem endurspegla hugræna vinnu og ósýnilega verðmætasköpun hennar. Markmið aðgerðarinnar verði að fanga umfang hugrænnar vinnu kynjanna á Íslandi. (feitletr. pv)
Á mannamáli segir þarna að ein rannsókn skuli gerð á annarri rannsókn til að ,,endurspegla" eitthvað sem er ósýnilegt. Markmiðið er að ,,fanga umfang" ósýnileika sem skapar verðmæti. Ósýnileiki hefur ekkert umfang.
Tillagan er heilaspuni skrifaður í stjórnarráðsstíl til að fá virðulegan blæ. Verið er að búa til vinnu um ekki neitt, að ný rannsókn rannsaki eldri rannsókn um eitthvað sem er ósýnilegt enda huglægt.
,,Hugræn vinna" er uppskrúfað orð um hugsun. Meðvitundin, þar sem hugsunin fer fram, verður ekki smættuð niður í starfshugsun, einkalífshugsun, félagshugsun, tómstundahugsun eða hverja aðra hugsun sem vera skal. Þeir sem efast ættu að prófa að skrá hugsanir sínar yfir einn dag. Þeir sem segjast geta flokkað allar hugsanir sínar yfir daginn annað tveggja segja ósatt eða eru frámunalega einfaldar sálir.
Meðvitundin er altæk. Á sama tíma og tilfallandi skrifar þennan texta getur hann velt fyrir sér Úkraínustríðinu, hvort veðrið verði gott í sumar, hvenær valkyrjustjórnin líðast í sundur og gert sér ótal aðrar hugsanir um stórt og smátt. Allt á meðan hann ritar um fávísishjal hugrænna háskólakvenna.
Snorri Másson þingmaður Miðflokks tók jafnréttisráðherra til bæna fyrir framkvæmdaáætlun kynjajafnréttis og spyrti hana við fórnarlambafræði, sem kenna sig við kyn en geta þó hvorki sagt hvað kyn er né hvað kynin eru mörg.
Okkur er ætlað að trúa að konur eigi bágt en samt stjórna þær samfélaginu. Við þurfum fleiri Snorra en færri ,,hugrænar" konur með háskólapróf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)