Málfrelsið krossfest, Miðflokkurinn til bjargar

Ákæruvaldið á Íslandi er í herferð gegn tjáninarfrelsinu. Þrír borgarar eru til meðferðar hjá ákæruvaldinu fyrir að andmæla transvóki, þeirri hugmyndafræði að karlar geti orðið konur með hugdettunni einni saman, að hægt sé að fæðast í röngum líkama, að karlar geti brjóstfætt ungabörn.

Tilfallandi hefur verið ákærður og verður réttað í máli hans í lok maí. Helga Dögg Sverrisdóttir kennari er til meðferðar hjá ákæruvaldinu sem og Eldur Smári Kristinsson formaður Samtakanna 22. Ekki hafa verið gefnar út ákærur á hendur Helgu Dögg og Eldi Smára, en nokkuð harkalega gegnið fram af hálfu lögreglu, eins og tilfallandi drap á.

Ákæruvaldið hóf sína vegferð gegn tilfallandi, Helgu Dögg og Eldi Smára eftir að lífsskoðunarfélagið Samtökin 78 kærðu okkur þrjú. Ákæruvaldinu bar engin skylda til að taka mark á kærum Samtakanna 78. Án efa fara margar sambærilegar kærur beint í ruslið hjá ákæruvaldinu. En nú skyldi látið til skarar skríða gegn þeim sem andæfa transvókinu. Ákvörðun um að hefja aðgerðir gegn okkur þrem er tekin af ríkissaksóknara. Þrjú lögregluembætti koma við sögu: lögreglan í Reykjavík, á Akureyri og á Suðurnesjum.

Tilfallandi, Helga Dögg og Eldur Smári eru sökuð um að brjóta 233.gr.a. almennra hegningarlaga:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Lykilorðin eru háð, rógur, smánun og ógnun annars vegar og hins vegar aðskiljanlegir hópar í samfélaginu er njóta sérréttinda. Ýmsir hópar njóta ekki sérkjara hjá löggjafanum, t.d. kristnir. Þeir kristnu verða reglulega fyrir hæðni, rógi og smánun - en vonandi ekki oft hótunum - hér á landi. Ákæruvaldið eltir ekki uppi einstaklinga sem gera gys að meyfæðingunni, afneita tilvist guðs og segja jólin heiðna hátíð. Allt má þetta túlka sem háð, róg og smánun í garð kristni. En, sem sagt, þeir kristnu njóta ekki sérmeðferðar í lögum. Þótt talað sé um trúarbrögð í lagatextanum er kristni tekin út fyrir sviga. Sama gildir um Íslendinga almennt. Íslenskt þjóðerni og íslenskur þjóðlegur uppruni nýtur ekki lagaverndarinnar sem hinir útvöldu fá. Útlendingur hér á landi, sem hæðist að Íslendingum, rógber þá, smánar og ógnar, er í sterkari lagalegri stöðu en Íslendingur sem svarar í sömu mynt, geldur útlendingnum rauðan belg fyrir gráan.

Ákæruvaldið beitir sárasjaldan 233.gr.a. almennra hegningarlaga og það af skiljanlegum ástæðum. Lagagreinin er til þess fallin að hefta málfrelsi borgaranna. Án málfrelsis er illa komið fyrir öðrum mannréttindum.

Ákæruvaldið hefur ekki gert grein fyrir því hvers vegna þrír almennir borgarar séu nú teknir sérstaklega í karphúsið fyrir að andmæla transvókinu og skulu sæta sektum og allt að tveggja ára fangelsi fyrir. Almennt skyldi ætla að það sé ekki hlutverk ákæruvaldsins að krossfesta tjáningarfrelsið.

Góðu fréttirnar í hörmungartíð tjáningarfrelsisins á Íslandi eru að þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram frumvarp, með ítarlegum skýringum, um að breyta 233.gr.a. almennra hegningarlaga. Tillaga Miðflokksins er að bæta við fyrirvara við núverandi lagagrein. Í heild sinni myndi greinin hljóma svona, verði frumvarp Miðflokksþingmanna samþykkt. Viðbótin er feitletruð:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.

Frumvarp Miðflokksmanna er til bóta. Í lagagreinina er settur áskilaður að til að hún verði virkjuð þarf að vera hvatning til haturs, ofbeldis eða mismununar. Eins og greinin er núna er nóg að einhver móðgist til að ákæruvaldið stökkvi af stað og dragi mann og annan fyrir dóm og ákæri fyrir að stíga óvarlega á tilfinningatær fólks út í bæ sem njóta sérverndar að lögum.

Ekki liggur fyrir hvort Helga Dögg og Eldur Smári verða ákærð, mál þeirra eru enn til meðferðar hjá ákæruvaldinu. Tilfallandi er aftur ákærður maður. Ákæruvaldið fann í tilfallandi bloggi frá 13. september 2023 tvær efnisgreinar sem réttlæta fangelsun höfundar í allt að tvö ár. Þær eru eftirfarandi:

1. Samtökin 78 eru regnhlífarsamtök og lífsskoðunarfélag fullorðinna sem áhugasamir eru um klám, kynlíf, kynjaveröld og tælingu barna.

2. Kennsluefnið er tæling dulbúin sem upplýsingar. Meðfædd blygðunarsemi barna er skipulega brotin niður. Börn eru gerð móttækileg fyrir þátttöku í kynlífi og það jafnvel ofbeldiskynlífi - BDSM. Börn eru gerð efins um eigin sjálfsmynd og talin trú um að þau séu mögulega fædd í röngu kyni. Ringluð börn og óörugg eru síður í stakk búin að veita viðnám fullorðnum með eitthvað misjafnt í huga. Út á það gengur tælingin.

Eins og lesa má í blogginu eru tilfærð dæmi um óviðeigandi kennsluefni sem matreitt er ofan í börn. Þannig að ekki er um að ræða róg. Hæðni er ekki stílbragð í blogginu. Smánun kemur ekki fyrir enda reka Samtökin 78 BDSM-deild í einn stað og í annan stað er boðskapur lífsskoðunarfélagsins að börn geti fæðst í röngum líkama. Trauðla er það smánun að vekja athygli á starfsemi lífsskoðunarfélagsins. Hvergi í blogginu er hótun eða hvatning til ofbeldis. Bloggið, aftur, andmælir að Samtökunum 78 sé hleypt í leik- og grunnskóla með boðskap sem ekki er við hæfi barna. Síðast þegar tilfallandi gáði mátti hafa skoðun á kennsluefni skóla og telja sumt ágætt en annað ósæmilegt.

 


Bloggfærslur 18. apríl 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband