Kvengervill er ekki kona

Karl sem segist kona er kvengervill en ekki kona. Annað orð er karlkona, það þriðja transkona. Úrskurður hæstaréttar Bretlands staðfestir sjálfsögð og augljós sannindi, að karl er eitt, kona annað. Undarlegt er að í menningu okkar urðu áhöld um grundvallarsannindi mannlífsins frá örófi. Formaður breska íhaldsflokksins, Kemi Badenoch, segir þörf á endurmenntun vókliða sem útbreiddu fals um lífsins staðreynd.

Hlutverkaleikur er liður í þroska barna og tómstundagaman sumra fullorðinna. Í nafni mannréttinda varð hlutverkaleikur örhóps í samfélaginu, þeirra sem kenna sig við trans, að viðteknum sannindum um hríð. Kynjahopp fékk sömu stöðu og rétturinn til lífs, sjálfræðis og hamingjuleitar. Jafnhliða greri um sig djúpheimska, að kynin væru ekki tvö heldur þrjú, fimm eða seytján.

Allur þorri kvenna lét sér vel líka að karlar stunduðu stórfellt menningarrán á konum. Nóg var að karl segðist kona innra með sér og honum stóðu allar dyr opnar. Kvennaklefar sundlauga og íþróttahúsa, kvennafangelsi, kvennasalerni og mæðradeildir sjúkrahúsa. Karl lélegur í íþróttum kynjahoppaði sig í kvennaíþrótt og hirti gull ætlað konu. Konur stóðu álengdar og klöppuð upp transið. Vinstriflokkarnir í sitjandi ríkisstjórn, Samfylking og Viðreisn, eru í senn með konur á helstu póstum og löðrandi í transi.

Menningarrán karla á konum, með stuðningi þorra kvenna, vekur grun um að ekki sé allt með felldu í sjálfsmati kvenþjóðarinnar. Femínismi sem fagnar innrás karlkvenna í kvennarými starfar tæplega í þágu kvennaheilla. Nema að hugsunin sé sú að vonlausir karlar séu eftirlæti kvenna.

Eins og galdratrú á 17. öld er transið innflutt fyrirbæri. Á málsvæði engilsaxa er til orðið ,,gender" sem vísar í málfræðilegt kyn. Við aðstæður, sem verða skýrðar hér á eftir, komst sérviskuhópur í akademíunni (les: kynjafræði) upp með að markaðssetja ,,gender", málfræðikyn, sem valkost við ,,sex" eða líffræðilegt kyn. Ruglið var selt sem einstaklingsfrelsi. Karl gat orðið málfræðileg kona og við það fengið sömu stöðu og líffræðileg kona. Slagorðið var ,,transkonur eru konur". Hæstiréttur Bretlands úrskurðaði að málfræði og líffræði eru ekki sami hluturinn. Líffræði, ekki málfræði, ræður hvort einstaklingur sé kona eða karl. 

Tvær ritgerðir, gefnar út í bókarformi, eftir Harry G. Frankfurt, útskýra menningarlegar rætur trans. Sú fyrri er Um kjaftæði/On bullshit (nei, þetta er ekki handbók fréttastofu RúV) en þar er útskýrt hvernig kjaftavaðli óx fiskur um hrygg seinni hluta 20. aldar. Kjaftavaðall er verri en ósannindi, segir Frankfurt, að því leyti að ósannindi er hægt bera undir mæliker sanninda. Kjaftæði hrærir öllu saman, lætur sig engu skipta hvað sé satt og hvað logið. Seinni ritgerðin Um sannindi/On truth birtist 2006. Þar vekur Frankfurt athygli á þeirri lensku að taka einlægni fram yfir sannindi. Segi einhver í einlægni að hann hafi fæðst í röngum líkama sé það tekið gott og gilt sem sannleikur. Til að það sé satt, að hægt sé að fæðast í röngum líkama, þarf aðgreiningu meðvitundar og líkama, sem er ómöguleiki. Lifandi fæddur nýburi fæðist með meðvitund og er annað tveggja sveinbarn eða meybarn. Einlægni breytir ekki ómöguleika í sannindi. Ranghugmynd verður ekki rétt með einlægni.

Ranghugmyndir eru ekki bannaðar. Hver og einn má hafa þá sjálfsmynd sem hann kýs sér. Leiðinlegur má telja sig hrók alls fagnaðar; grjótheimskur að hann sé ljóngáfaður; pervisinn að hann sé vaxtarræktartröll. Af frjálsræði einstaklingsins og umburðalyndu samfélagi leiðir að karl má gerast kvengervill, temja sér siði og háttu kvenna í fasi og framkomu. Samfélagið umber sérvisku. Ef transið hefði látið þar við sitja, að karlar mættu þykjast konur, hefði trauðla orðið siðrof. Transið kunni sér ekki hóf, krafðist viðurkenningar að karlar væru í raun og sann konur; að hægt sé að fæðast í röngum líkama og kenna skuli leik- og grunnskólabörnum þau ósannindi. Transöfgarnar eru bæði ósannar og ólögmætar, segir í  úrskurði hæstaréttar Bretlands.


mbl.is Orðið kona vísi til líffræðilegs kyns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. apríl 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband