Sunnudagur, 13. apríl 2025
Réttlæti án gagna, náttúrulegur afkomubrestur og manngerður
Valkyrjustjórnin ætlar að tvöfalda veiðigjöld, úr tíu milljörðum í tuttugu, í nafni réttlætis. Stórt orð réttlæti og óhægt að meta til fjár. Sanngirni er ögn meðfærilegra hugtak en samt hált sem áll. Í viðtengdri frétt er Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, stéttafélags vélstjóra á fiskveiðiskipum, þeirrar skoðunar sjómenn séu hlunnfarnir af útgerðinni - og kallar eftir sanngirni.
Moggafréttin byggir á pistli Guðmundar Helga, Við þurfum gögnin á borðið. Þar rekur hann aðfinnslur á núverandi fyrirkomulag í skiptingu aflaverðmæta á milli útgerðar og sjómanna. Guðmundur Helgi talar fyrir hönd sjómanna og segir þá hlunnfarna.
Sjónarmið formanns VM má bera saman við grein Péturs Hafsteins Pálssonar í Laugardags-Mogga. Pétur Hafsteinn er framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík og má ætla að hann tali fyrir munn útgerðar og vinnslu. Pétur Hafsteinn ber lof á sjómenn og samtök þeirra ábyrga afstöðu í kjarasamningum:
Það verður að segja sjómönnum það til hróss að afstaða þeirra til þessarar verðlagningar er bæði skynsamleg og virðingarverð. Skynsamleg af því að hlutur þeirra er bæði gengis- og afurðaverðstryggður. Hann er ekki háður erlendum niðurgreiddum kaupendum og sjómenn eru hluti af skipulagi veiða og vinnslu sem tryggir þeim heilsársvinnu og atvinnuöryggi. Hún er virðingarverð af því að með þessari afstöðu sinni sýna þeir í verki að þeim er annt um starfsfólk í íslenskum fiskiðnaði og íslenskum tæknifyrirtækjum, sem og íslenskan efnahag.
Þar sem ég hef starfað með sjómannaforystunni í aldarfjórðung að þessu verkefni get ég fullyrt að aldrei hefur verið meiri sátt um þessa verðlagningu en nú. Því til staðfestingar má nefna að síðustu samningar sem gerðir voru við sjómenn gilda í tíu ár og er það einsdæmi í samningum við verkalýðsfélög á Íslandi, en verðlagning afla hefur oftar en ekki verið ástæða verkfalla og deilna.
Guðmundur Helgi og Pétur Hafsteinn tala um sömu atvinnugreinina en þeir leggja gagnólíkt mat á stöðu mála. Formaður VM segir sjómenn hlunnfarna en framkvæmdastjóri Vísis segir samhug ríkjandi milli útgerða og sjómanna. Hluti skýringarinnar er að áhersla þeirra er ólík. Formanni VM er tíðrætt um uppsjávarveiðar og tilfærir þar verulegan mun á tekjum íslenskra og norskra sjómanna, svo hleypur á tugum prósenta. Helsta uppsjávartegundin sem íslensk skip veiða er loðna. Í ár og i fyrra var engin loðnuvertíð. Til að það verði vertíð næst þegar loðna gengur á miðin þarf skip til að sækja aflann. Í Noregi er löng saga af ríkisstyrjum til útgerða þegar á bjátar. Loðnuskipin íslensku geta ekki gert út á slíka styrki.
Guðmundur Helgi treystir sér ekki til að styðja tillögur valkyrjustjórnarinnar að tvöfalda veiðigjöldin með eftirfarandi rökum:
Ríkisstjórnin hefur nú kynnt drög að lagabreytingum. SFS hefur svarað þessum áformum fullum hálsi. Engin leið er fyrir stéttarfélög sjómanna að taka afstöðu til fullyrðinga þessara aðila nema gögnin séu birt.
Formaður stéttafélags vélstjóra á fiskiskipum segir ekki hægt að finna réttlætið án gagna. Ætti formaðurinn að vera gjörkunnugur málavöxtu hafandi staðið í þjarki við útgerðina um kaup og kjör sjómanna.
Valkyrjurnar, Kristrún, Þorgerður Katrín og Inga, ættu kannski að leita upplýsinga, og leggja þær á borðið, áður en lengra er haldið í réttlætisvegferðinni? Skjóti þær yfir markið og skattleggi atvinnugrein þannig að afkoman hrynur í nafni réttlætis er betur heima setið en af stað farið.
Arð þarf til að atvinnurekstur sé lífvænlegur. Engin dæmi eru um að skattlagning skapi ríkidæmi. Mörg dæmi eru aftur um hið gagnstæða, að skattar geri arðbæran rekstur óarðbæran. Þær valkyrjur ættu að hafa í huga að réttlæti er eitt en afkoma annað. Útgerðir, sjómenn og landverkafólk sem urðu af loðnuverðtíð tvö ár í röð voru ekki beitt ranglæti - heldur bresti í afkomu. Náttúran spyr hvorki um réttlæti né sanngirni. Í mannheimi, á hinn bóginn, getur réttlæti orðið sanngjörn fátækt.
![]() |
Öll gögn þurfa þá að liggja á borðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)