Þriðjudagur, 1. apríl 2025
Valkyrjurnar með eldspýturnar
Valkyrjustjórnin minnir á sögu H.C. Andersen um litlu fátæku stúlkuna með eldspýturnar. Stúlkan fann ekki kaupendur að eldspýtunum og þorði ekki heim af ótta við hirtingu. Að kveldi dags fann hún sér skjól í húsasundi og brenndi upp söluvöruna. I bjarma hverrar eldspýtu sá stúlkan sýn um betra líf. Dagdraumar í húminu gáfu stundarfrið. Vegfarendur fundu stúlkuna örenda með stirðnað bros.
Valkyrjurnar dunda sér við að kveikja í bjargræðinu sem kjósendur treystu þeim fyrir. Skandalar eins og símtal Ingu við skólastjórann útaf skópari barnabarns, hótanir Sigurjóns trilluþingmanns í garð fjölmiðla fyrir að benda á hagsmunaárekstra, lekinn frá Kristrúnu sem felldi Ásthildi Lóu, stríðsrekstur sömu Kristrúnar í Úkraínu, óvinveitt afstaða Þorgerðar Katrínar til Bandaríkjanna, aðförin að landsbyggðinni með sérskatta á útgerð og vinnslu, mótsagnir á milli útgjaldaloforða og fastmæla um aðhald í ríkisrekstri. Er þá ótalin helförin til Brussel þar sem fórna skal fullveldi og farsæld þjóðarinnar.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. 2009-2013 var einnig dugleg að kveikja elda sem brenndu upp traust og tiltrú á stjórnarflokkunum. Jóhanna og félagar höfðu þá afsökun að svokallað hrun olli viðsjám í stjórnmálum um langt árabil.
Þær Kristrún, Þorgerður Katrín og Inga tóku við góðu búi í hagfelldu árferði. Kosningarnar í haust voru ekki ákall um róttækni. Kjósendur höfnuðu óreiðuflokkum eins og Vinstri grænum, Pírötum og Sósíalistum.
Dagdraumar valkyrjanna um að setja mark á samtíð sína eru til marks um sjálfhverfu. Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins fengu ekki umboð til að stokka upp samfélagið. Engin eftirspurn er eftir hávaðapólitík, þolinmæði fyrir axarsköftum takmörkuð. Skandala og klúður fyrstu hundrað dagana má með velvilja skrifa á reynsluleysi. Ætli valkyrjur sér að halda út kjörtímabilið er ráð að rifa seglin og hemja hégómann. Stjórnvald á ekki að vera sirkus.
![]() |
Blása á allt tal um reynsluleysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)