Baldur, ESB-sinnar og innanlandsófriður

Ísland verður ekki ESB-ríki í fyrirsjáanlegri framtíð. Baldur Þórhallsson segir það ekki berum orðum en það er óhjákvæmileg ályktun af orðum hans að Ísland sé ekki á leiðinni í félagsskap meginlandsríkja, ESB-Evrópu. Játningin er tímabær og nú þurfa ESB-sinnar að slá af boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Baldur er sannfærður ESB-sinni. Hann var varaþingmaður Samfylkingar í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. og talaði ákaft fyrir misheppnaðri ESB-umsókn, sem dó drottni sínum í ársbyrjun 2013.

ESB-umsókn Samfylkingar, samþykkt á alþingi á afmælisdegi Tyrkjaránsins 16. júlí 2009, er best skilin í ljósi óopinbers slagorðs krata á þessum tíma um ónýta Ísland. Farga átti öllu íslensku s.s. stjórnarskrá, fullveldi og gjaldmiðli. Býrókratar í Brussel áttu að sjá um stjórn landsins. Og, auðvitað, úthluta Baldri og sérfræðingastóðinu þægilega innivinnu á góðum launum. Ísland yrði verstöð er sendi bænaskjöl til Brussel líkt og til Kaupinhavn á öldum áður.

Valkyrjustjórnin setti á dagskrá að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um að endurtaka mistökin frá 2009. Sumir læra aldrei. Baldur skrifar að það

kæmi ekki á óvart að bandarísk stjórnvöld beittu sér gegn því að Íslandi tæki aftur upp aðildarviðræðurnar við ESB.

Áður en Bandaríkin segja eitt eða annað um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi í lok kjörtímabils valkyrjanna verða til þau sjónarmið hér á landi að heppilegra sé að Ísland fari undir Bandaríkin en ESB-Evrópu. Afleiðingin yrði innanlandsófriður milli Bandaríkjavina annars vegar og hins vegar ESB-sinna. Sundruð smáþjóð sem verður bitbein stórveldahagsmuna er dæmd til glötunar.

Fyrsta setningin í fyrsta punkti Baldurs, að Bandaríkin undir Trump reki útþenslustefnu, er röng. Bandaríkin vilja losna undan hernaðarlegum og pólitískum skyldum sínum í Úkraínu. Það er ekki útþenslustefna. Ótti ESB-Evrópu er að Bandaríkin i framhaldi segi sig laus undan hernaðarlegri og pólitískri ábyrgð á Vestur-Evrópu sem hefur verið í gildi allt frá lokum seinna stríðs. Trump er nær því að vera einangrunarsinni en haldinn útþensluáráttu.

Áhugi Trump á Grænlandi stafar af nálægðinni við fastaland Ameríku. Af öllum sólarmerkjum að dæma verður bandarískt þjóðaröryggi á Norður-Atlantshafi skilgreint sem svæðið vestan GIUK-línunnar, það er Grænland-Ísland-Bretlandseyjar. Bandaríkin munu ekki líða að önnur stórveldi, s.s. Rússland, Kína og e.t.v. ESB-Evrópa, komi sér upp hernaðarlegri eða efnahagslegri stöðu á þessu svæði. En það þýðir ekki að Bandaríkin ætli sér að eignast Ísland eða Bretland. Um Grænland gildir annað. Landið er á dönsku forræði. Danir eignuðust Grænland vegna þeirrar sögulegu tilviljunar að norska stórveldið, sem réð fyrir Grænlandi, Íslandi og Færeyjum, leið undir lok á miðöldum. Sögulegar tilviljanir eiga það til að vera leiðréttar.   

Farsælast fyrir land og þjóð er að íslensk stjórnvöld gefi hvorki Bandaríkjunum né ESB-Evrópu fangstað á Íslandi. ESB-sinnar hljóta að sjá að við núverandi aðstæður í alþjóðamálum er glæpræði að tala fyrir aðild að Evrópusambandinu. Samstaða þjóðarinnar er forsenda fyrir að við höldum sjálfsforræðinu. Þeir sem tala fyrir ESB-aðild kynda undir innanlandsófriði.


mbl.is Baldur: Bandaríkin vilja ráða yfir Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband