Sunnudagur, 23. mars 2025
Kristrún og lögin um vernd uppljóstrara
Lög um vernd uppljóstrara tóku gildi fyrir fjórum árum. Forsætisráðuneytið fer með forræði málefnasviðsins. Lögin eru ætluð að vernda þá sem upplýsa um refsiverð brot eða siðferðislega ámælisverða háttsemi. Ólöf Björnsdóttir bað um fund með Kristrúnu til að upplýsa hana um háttsemi barnamálaráðherra. Í stað þess að bjóða Ólöfu á fund ákvað Kristrún að brjóta trúnað og senda barnamálaráðherra, Ásthildi Lóu, persónuupplýsingar Ólafar.
Lögin um vernd uppljóstrara eru skýr og ótvíræð hvað ábyrgð móttakanda áhrærir, í þessu tilfelli forsætisráherra:
Móttakandi upplýsinga eða gagna [...] skal gæta leyndar um persónuupplýsingar sem honum berast um þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum nema viðkomandi veiti afdráttarlaust samþykki sitt.
Kristrún braut trúnað, hún hafði ekki samþykki Ólafar að senda upplýsingarnar til barnamálaráðherra. Trúnaðarbrotið hafði afleiðingar. Ásthildur Lóa gerði Ólöfu óviðkunnanlega heimsókn að kvöldlagi.
Engum blöðum er um það að fletta að Ólöf er uppljóstrari. Hún kom á framfæri upplýsingum úr fortíð barnamálaráðherra, sem leiddu til afsagnar ráðherrans.
Blaðamenn og samtök þeirra höfðu lengi barist fyrir lögum um vernd uppljóstrara. Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands fagnaði fyrir fjórum árum þegar lögin voru samþykkt á alþingi:
Ég fagna því að frumvarpið sé orðið að lögum og tel að það sé mikilvægt skref til að auka gagnsæi og aðhald í samfélaginu. Það er mikilvægt að til séu formlegir farvegir fyrir uppljóstrara í samfélaginu og með þessari lagasetningu er það orðið að veruleika.
Lög um vernd uppljóstrara heyra undir forsætisráðherra. Það gerir trúnaðarbrestinn alvarlegri, og var hann þó ekki léttvægur fyrir. Fordæmi Kristrúnar ómerkir verndina sem lögin veita uppljóstrurum. Ef æðsti handhafi framkvæmdavaldsins kemst upp með að afnema vernd uppljóstrara eru lögin í heild ómarktæk. Lögin verða dauður bókstafur með fordæminu sem forsætisráðherra setur; að lögin megi virða að vettugi. Það hafi engar afleiðingar að láta eins og lög um uppljóstrara séu ekki til.
Forsætisráðherra sem uppvís er að breyta í bága við lög og siðferði getur ekki vikist undan pólitískri ábyrgð á háttsemi sinni.
![]() |
Tímalína og trúnaðarsamskipti óljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)