Veiðileyfi RÚV á einkasíma þingmanna og ráðherra

RÚV er ríkisstofnun, ekki fjölmiðill út í bæ. Árlega fær RÚV um 6,5 milljarða króna frá almenningi, fjárveitingu sem alþingi samþykkir. Stjórn RÚV er tilnefnd af alþingi. Ábyrgð alþingis á RÚV er hafin yfir vafa.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis hefur til meðferðar beiði Páls skipstjóra Steingrímssonar um að rannsaka hlut RÚV í byrlunar- og símamálinu. Skipstjóranum var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður. Fréttir með vísun í gögn símans voru með leynd fluttar á milli fjölmiðla til að hylja slóðina.

Tvær staðfestingar liggja fyrir að RÚV tók við síma skipstjórans og afritaði. Í fyrsta lagi yfirlýsing Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og Heiðars Arnar Sigurfinnssonar fréttastjóra RÚV að Þóra Arnórsdóttir hafi tekið við símanum. Í öðru lagi játning fyrrum eiginkonu skipstjórans, að hafa byrlað skipstjóranum og afhent símann Þóru þann 4. maí 2021.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur viðurkennt að sími skipstjórans var afritaður á síma í eigu RÚV með númerið 680 2140.

Ólögmætt er að afrita síma í heimildarleysi. Ef lögregla vill komast í símagögn þarf dómsúrskurð. Fjölmiðill fengi aldrei heimild dómara að afrita síma.

Ólögmæt afrituna á síma skipstjórans er ein af fjórum meginástæðum fyrir því að alþingi ætti að rannsaka aðkomu RÚV að byrlunar- og símamálinu.

Önnur meginástæðan er að RÚV frumbirti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Í yfirlýsingu útvarpsstjóra og fréttastjóra, sem vikið er að hér að ofan, er fullyrt að fjölmiðlum sé heimilt að taka við 

upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi [...] Þá er ljóst að hafi gögn að geyma efni, sem eiga erindi til almennings og varða mál, sem styr hefur staðið um í þjóðfélaginu, er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin

Ef gögnin úr síma skipstjórans áttu erindi til almennings, hvers vegna birti RÚV ekki fréttina? Það liggur fyrir að RÚV frumbirti enga frétt. Sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti 4. maí 2021. Fréttir með vísun í gögn símans birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanaum þann 21.maí 2021. Engir aðrir en þessir tveir fjölmiðlar voru með fréttina. Það sýnir skipulag. Hver skipulagði?

Með því að fréttin sem varð til upp úr síma skipstjórans birtist ekki á RÚV er sú röksemd útvarpsstjóra og fréttastjóra ógild, að fjölmiðlum sé heimilt að taka við illa fengnum gögnum í almannaþágu. Þar fyrir utan eru gögn eitt og símtæki annað. Lögreglan þarf ekki dómsúrskurð til að skoða gögn sem henni berast við sakamálarannsókn, en lögreglan þarf dómsúrskurð til að skoða innihald símtækis. Í húfi er friðhelgi einkalífsins, mannréttindi sem lögreglan þarf að virða og enn frekar fjölmiðlar.

Þriðja meginröksemdin fyrir rannsókn á RÚV er að fyrir liggur að víðtæk samskipti voru yfir margra mánaða skeið á milli Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV og þáverandi eiginkonu skipstjórans. Af hálfu Þóru fór samskiptin oftast fram í gegnum símanúmerið 680 2140, þ.e. númerið á afritunarsímanum, sem er skráð á RÚV og útvarpsstjóri hefur viðurkennt. Enn hefur ekki verið staðfest með gögnum hvort samskiptin hófust fyrir byrlun skipstjórans 3. maí 2021. Þóra á RÚV vissi þó að skipstjórinn notaði Samsung-síma og hafði til reiðu á Efstaleiti sams konar síma þann 4. maí 2021 - til að afrita síma skipstjórans.

Fyrrum fréttamaður RÚV og nú þingmaður, Sigmar Guðmundsson, segir í skoðanagrein að alþingi eigi ekki að skipta sér af fjölmiðlum. Nú þegar hefur alþingi rík afskipti af fjölmiðlum. RÚV fær 6,5 milljarða króna árlega og alþingi tilnefnir stjórn RÚV. Aðrir fjölmiðlar fá úthlutað af almannafé, s.k. fjölmiðlastyrkjum. Allt eru þetta afskipti af fjölmiðlum.

Rannsóknanefnd alþingis væri ekki að skipta sér af fréttaflutningi heldur aðkomu RÚV að byrlunar- og símamálinu þar sem RÚV frumbirti ekki eina einustu frétt. Efstaleiti var miðstöð gagnaöflunar og skipulags sem leiddi til fréttaflutnings á Stundinni og Kjarnanum. Lögbrot og leynd voru sannanlega hluti af skipulaginu.

Ef Sigmar er þeirrar skoðunar að RÚV sé heimilt að eiga aðild að byrlun, stuldi og afritun á símtæki óbreytts borgara og flytja afurðina á aðra fjölmiðla ætti hann að segja það upphátt. Það væri ígildi þess að gefa veiðileyfi á símtæki almennings. Fyrir fjölmiðla yrðu símar þingmanna og ráðherra sérstaklega áhugaverðir. Það er fjórða meginástæðan fyrir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis ætti að rannsaka aðkomu RÚV að byrlunar og símamálinu.

Ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis aðhefst ekkert er komið fordæmi að fjölmiðli sé heimilt að afrita einkasíma. Páll skipstjóri er óbreyttur borgari. Þingmenn og ráðherrar eru opinberar persónur og njóta sem slíkar minni friðhelgi en óbreyttir borgarar. Ætlar þingheimur að samþykkja með aðgerðaleysi það fordæmi að fjölmiðlum sé heimilt að afrita einkasíma?

 


Bloggfærslur 18. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband