Namibíufrétt afhjúpar RÚV, samhengið við byrlun og símastuld

Samherji vann dómsmál í Namibíu vegna kyrrsetningar á söluandvirði togarans Heinaste. Ákæruvaldið vildi halda söluandvirðinu til tryggingar. Dómarinn sagði langsótt að nokkur á vegum Samherja, fyrirtæki eða einstaklingar, yrði ákærður og úrskurðaði útgerðinni í vil. Morgunblaðið segir fréttina, Viðskiptablaðið einnig. RÚV þegir, þótt fréttaefnið sé ríkisfjölmiðlinum náskylt og hefði aldrei orðið annað en áfeng fabúlering ógæfumanns ef ekki væri fyrir Glæpaleiti.

Kyrrsetningarmálið er einn angi Namibíumálsins, sem hófst með Kveiksþætti á RÚV í nóvember 2019. Gífuryrtar ásakanir um mútur byggðu á einni heimild, Jóhannesi Stefánssyni, sem var stöðvarstjóri Samherja þar syðra frá 2011 til 2016 er honum var sagt upp vegna óreglu. Í stað þess að bæta ráð sitt bjó Jóhannes til sögur handa RÚV-eyrum sem fýsir illt að heyra.

Málflutningur í kyrrsetningarmálinu fór fram í haust. Namibíska útgáfan Informanté gerði opinber meginefni dómsskjalanna. Þar sagði m.a. að

Jóhannes Stefánsson játi að vera glæpamaður sem svindlaði og stal frá vinnuveitanda sínum; hann er eiturlyfjafíkill og alkahólisti sem misnotar reglulega áfengi og fíkniefni; hann drakk sleitulítið, vanalega viskíflösku á dag og neytti kókaíns um sjö sinnum á dag; var handtekinn fyrir vörslu fíkniefna.

RÚV bjó til heimild úr Jóhannesi. Án RÚV hefði aldrei orðið sakamálarannsókn, hvorki í Namibíu né á Íslandi. RÚV beitti öfugri gaslýsingu; sýndi það sem er óekta, falsað og áfengt sem ekta, ófalsað og edrú. 

Namibíumálið tröllreið opinberri umræðu hér á landi í tvö ár. Vorið 2021 tók að halla á málflutning RÚV og samstarfsmiðla, Stundarinnar og Kjarnans. Fréttamaðurinn Helgi Seljan á Kveik/RÚV var úrskurðaður alvarlega brotlegur gagnvart siðareglum RÚV enda fléttaði hann saman einkaflippi og fréttum. Hvað gerir aðgerðamiðstöðin sem rekin er á Efstaleiti undir yfirskini almannaþjónustu? Viðurkennir hún mistök? Játar hún að ógæfumaður sé vafasöm heimild? Er beðist afsökunar á framferði Helga Seljan sem kann ekki að greina á milli ímyndunar og staðreynda?

Nei, vitanlega ekki. Glæpaleiti forherðist og skipuleggur hefndaraðgerð. Í apríl 2021 kemst á samband milli blaðamanna og andlegra veikrar konu, sem þá var gift Páli skipstjóra Steingrímssyni hjá Samherja. Í samráði við blaðamenn byrlaði konan skipstjóranum 3. maí 2021 og afhenti blaðamönnum síma skipstjórans daginn eftir. Byrlunar- og símamálið er með fingraför sömu blaðamanna og Namibíumálið.

Enginn blaðamannanna hefur sætt ábyrgð fyrir gjörðir sínar. Hvenær varð blaðamannaskírteini heimild til siðleysis og lögbrota?

 

 

 

 


mbl.is Ákærur ólíklegar að mati dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband